14.8.2010 | 20:30
Vinstri stjórn að hækka skatta? Er einhver hissa?
Steingrímur J. boðar enn meira skattahækkanabrjálæði en hann hefur þegar hrellt þjóðina með og í þetta sinn á enn að hækka skatta á fjármagnstekjur, fyrirtækjaskatta, erfðafjárskatta, auðlindaskatta og auðlegðargjald.
Orðið "fjármagnseigandi" er orðið skammaryrði í þjóðfélaginu, á meðan orðið "skuldari" er orðið að heiðursnafnbót og hverjum manni til sóma, að bera slíkan titil, ekki síður en fínt þykir að bera titilinn "sir" í Englandi. Af þeim sökum mun enginn mótmæla hækkun fjármagnstekjuskatts, auðlegðargjalds eða erfðafjárskatts, því öllum þykir sjálfsagt að bévítans "fjármagnseigendurnir" borgi alla þá skatta, sem vinstri sinnuðustu mönnum landsins dettur í hug að finna upp til að leggja á þá.
Ekki mun almenningur heldur mótmæla hækkun skatta á fyrirtæki, enda er það orðin almenn skoðun að eintómir glæpamenn stundi atvinnurekstur og því hreint ekkert of góðir til að borga meiri skatta. Ríkisstjórnin hefur gert allt sem í hennar valdi er, til að eyðileggja alla atvinnuuppbyggingu í landinu og þar sem ekki er enn búið að koma öllum einkarekstri á hausinn með því móti, er eina ráðið sem eftir er, að drepa þau atvinnufyrirtæki sem enn tóra, með enn meiri skattageggjun.
Þá er nú ekki erfitt að réttlæta hærri auðlindaskatta, enda bara óþjóðalýður og útlendingar sem nýta þær og það til atvinnuuppbyggingar, sem að sjálfsögðu verður ekki liðið og því meira en sjálfsagt að láta þessa djöfla borga "sanngjarnt" gjald fyrir afnot af "auðlindum þjóðarinnar".
Það er enginn vandi fyrir allan almenning að sameinast í þeirri sjálfsögðu kröfu, að allir skattar sem hugsast getur, verði hækkaðir upp úr öllu valdi, svo lengi sem einhver annar verði að borga þá.
Að vísu lenda allir atvinnurekstrarskattar úti í verðlaginu og eru borgaðir af almennum neytendum (skattgreiðendum) á endanum, en hver lætur slík smáatriði flækjast fyrir sér?
![]() |
Ætla að hækka skatta |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
14.8.2010 | 00:22
Að hanga eins og ráðherra á stól
Jóhanna, Steingrímur J. og Gylfi áttu með sér langan fund til að fá einhvern botn í margvísandi ummæli Gylfa um "gengislánin", en Gylfi sjálfur hefur enga tölu á því lengur, hvað útgáfurnar af svörum hans við spurningum um málið eru orðin mörg. Ekki tókst að komast að endanlegri niðurstöðu um hvert svaranna komst næst sannleikanum, en unnið verður að því næstu daga, að finna rétta svarið, enda er það ráðherrahagur og þar með almannahagur.
Ef að líkum lætur, mun þurfa að fá álitsgerð lögmannsstofu utan úr bæ um hvort og þá hvenær ráðherrann slysaðist til að gefa rétt svar við þeim spurningum, sem að honum hefur verið beint og vonandi leggjast embættismenn ráðuneytisins ekki á það álit, eins og ormar á gull, eins og þeir hafa gert við allar skýrslur lögfræðinga fram að þessu.
Á meðan botn fæst í þessi mál mun Gylfi sitja sem fastast á sínum mjúka ráherrastóli og í því samhengi öllu bendir Gylfi á, hvað hundar passa vel upp á matinn sinn, enda mun framvegis verða sagt að þeir hangi á roði sínu eins og ráðherra á stól.
![]() |
Gylfi áfram ráðherra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)