Icesaveviðræður? Um hvað?

Enn einu sinni virðist ríkisstjórnin ætla að leggjast á hnén og láta bresku og hollensku fjárkúgarana halda áfram að láta svipuhöggin dynja á berum bossanum og ýfa upp gömlu sárin, sem byrjuð voru að gróa, eftir að kjósendur reistu ríkisstjórnina upp á lappirnar og girtu upp um hana í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.

Þó ríkisstjórnin kalli þetta viðræður, var eingöngu um einræður að ræða af hálfu kúgaranna og Steingrímur J. og félagar samþykktu og undirrituðu þá pappíra sem þeim voru afhentir, enda sárir og kvaldir eftir hýðingarnar og höfðu ekkert þrek til að standa uppi í hárinu á andskotum sínum.

Bæði framkvæmdastjórn ESB og forystumenn ESA hafa viðurkennt að engin ríkisábyrgð eigi að vera á tryggingasjóðum innistæðueigenda og fjárfesta, en samt skuli íslenskir skattgreiðendur bera ábyrgð á íslenska tryggingasjóðnum og skýringin á því er ekki merkilegri en röksemdir í rifrildum barna, en þar er gjarnan notað sama orðalag og hjá ESB og ESA:  "Af því bara".

Um hvað Steingrímur J. og vinir, innlendir og erlendir, ætla að ræða í september liggur ekki í augum uppi, því varla ætla þeir að koma sér saman um íslenska ríkisábyrgð, svona "af því bara" og gera þjóðina þar með að skattaþrælum erlendra yfirgangsríkja til margra áratuga.

Það eina sem Steingrímur J. getur gert, er að benda á gamla Landsbankann og segja við ofbeldisseggina:  "Gjörið svo vel og hirðið hræið upp í kröfur ykkar og látið okkur svo í friði".


mbl.is Icesave-viðræður á næstu vikum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ríkissósíalismi í atvinnumálum, eða ekki?

Björk Guðmundsdóttir og félagar fara mikinn þessa dagana vegna kaupa Magma Energy á HS Orku og gefa í skyn að fyrirtækið ætli sér að ryðjast upp um fjöll og fyrnindi í leit að virkjanlegum jarðvarma og muni ekki hika við að leggja allar helstu náttúruperlur landsins í rúst vegna virkjnaframkvæmda.

HS Orka og önnur orkufyrirtæki þurfa að sækja um leyfi til Iðnaðarráðuneytisins ef þau hyggjast fá leyfi til rannsókna á mögulegum virkjanakostum, en geta ekki, að eigin frumkvæði, rannsakað hvern þann blett á landinu sem þeim sýnist og enn síður ráðist í virkjanaframkvæmdir á tilskilinna leyfa frá ráðuneytinu.

Þar sem ríkið hefur fullt forræði á því hvar megi rannsaka og hvar megi svo virkja í framhaldinu, verður ekki séð, að miklu máli skipti hvort orkufyrirtækið sem fær þessi leyfi til rannsókna og virkjana sé í einkaeigu eða ríkiseigu.  Mikil áhætta getur fylgt jarðhitarannsóknum og alls ekki fyrirfram tryggt að þær leiði til vænlegra virkjanakosta og því getur það engan veginn verið keppikeflið, að öll áhætta af slíkum rannsóknum lendi endilega á ríkisfyrirtækjum. 

Ríkið getur haft alla þá stjórn á þessum málaflokki og hvar verður rannsakað og hvar yrði virkjað, jafnvel þó öll orkufyrirtæki landsins væru í einkaeigu og meira að segja þó þau væru öll í eigu útlendinga.

Snýst málið ekki bara um hvort hér skuli ríkja alger ríkissósíalismi í atvinnumálum, eða ekki?


mbl.is Rannsóknarleyfi ekki yfirfæranleg
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. ágúst 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband