Breytir miklu í grundvallaratriðum

Norski fréttavefurinn ABC Nyheter beindi fyrirspurn til framkvæmdastjórnar ESB um ríkisábyrgð á innistæðutryggingum og í meðfylgjandi frétt segir m.a:  "Í svari framkvæmdastjórnarinnar kom fram að engin ríkisábyrgð væri á bankainnistæðum samkvæmt tilskipun ESB um innistæðutryggingar. Hins vegar var því haldið fram að annað gilti um Ísland, m.a. vegna þess að tilskipunin hafi ekki verið innleidd á fullnægjandi hátt hér á landi á sínum tíma."

Steingrímur J. segir að þetta svar framkvæmdastjórnarinnar komi sér ekki á óvart, en segist ekki sjá að þetta breyti stöðunni í neinum grundvallaratriðum.  Þetta eru einkennileg viðbrögð hjá ráðherranum, eins og svo mörg önnur varðandi þetta mál, því augljóst er að þessi viðurkenning framkvæmdastjórnar ESB er stórmerkilegt innlegg í málið og sannar málstað þeirra, sem haldið hafa því fram að íslenskum skattborgurum beri ekki að taka á sig svo mikið sem eina evru, eitt pund, eða eina krónu vegna Icesave.

Fullyrðing framkvæmdastjórnarinnar um að sérreglur gildi um Ísland, þar sem tilskipunin hafi ekki verið innleidd á fullnægjandi hátt hérlendis á sínum tíma, er aumur og vesældarlegur málflutningur, enda voru engar athugasemdir gerðar við innleiðingu tilskipunarinnar á sínum tíma og hún þar með samþykkt sem fullgild af hálfu ESB.  Þessi hluti svarsins er því að engu hafandi, enda algerlega út í hött.

Játning framkvæmdastjórnarinnar á réttmæti mótmæla íslenskra skattgreiðenda við því að taka á sig skattaþrældóm fyrir erlenda kúgara er merkilegt innlegg í baráttuna gegn fjárkúgurunum bresku og hollensku.

 


mbl.is Breytir engu í grundvallaratriðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vegir Samfylkingarinnar eru fyrirsjáanlegir

Ásta Sigrún Helgadóttir, sem hefur starfað sem forstöðumaður Ráðgjafarstofu heimilanna í sjö ár, var við nafnabreytingu á stofnuninni ekki talin jafn hæf til að gegna nafnabreyttri stöðu sinni áfram, eins og dyggur, en atvinnulaus Samfylkingarmaður, sem þó hafði enga reynslu af sambærilegu starfi.

Runólfur Ágústsson, sem ráðinn var í starfið hafði hins vegar þá reynslu af fjármálum, að afskrifa hefur þurft hálfan milljarð vegna fyrirtækis, sem hann stofnaði og rak um skeið og á meðan hann var rektor Háskólans á Bifröst fóru fjármál skólans verulega úrskeiðis og þurfti Runólfur að fara úr því starfi vegna þeirra mála og reyndar annarra og persónulegra deilumála.

Enga slíka reynslu hafði Ásta Sigrún, en hafði hins vegar mikla reynslu af vinnu í félagslega kerfinu og eins og áður sagði, gengt þessu starfi um sjö ára skeið, áður en nafni stofnunarinnar og titli forstöðumannsins var breytt, til þess að gefa Árna Páli, félagsmálaráðherra, frjálsari hendur til að skipa "sinn" mann í stöðuna.

Þar sem reynsla beggja af skuldamálum virðist hafa verið talin jafnstæð, hafa jafnréttissjónarmið, sem ríkisstjórnin þykist berjast fyrir, áreiðanlega ráðið úrslitum um ráðininguna, enda sjá allir hvílíkt misrétti felst í því, að láta það viðgangast lengur að kona skuli gegna slíku starfi.

Sumir vegir eru órannsakanlegir, en slíkt verður seint sagt um vegi Samfylkingarinnar.


mbl.is Ætlar að krefjast rökstuðnings
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hjáseta eftir fimmtán ára umræður - hneyksli.

Þó ótrúlegt sé, hefur staðið yfir umræða á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í fimmtán ár um það, hvort aðgagnur að hreinu vatni teljist til mannréttinda.  Svo sjálfsagt ætti að vera að fæðuöryggi, aðgangur að vatni og aðstöðu til hreinlætis ætti að teljast til lágmarksmannréttinda, að ekki ætti að þurfa að eyða fimmtán dögum í slíka umræðu og hvað þá fimmtán árum.

Það stórmerkilega eftir þessa fimmtán ára umhugsun um þessi mál, skuli Íslendingar ekki hafa getað tekið afstöðu til málsins og því setið hjá við atkvæðagreiðsluna á allsherjarþinginu.  Í fréttinni kemur m.a. fram, að:  "Í ályktuninni er áhyggjum lýst af því, að 884 milljónir manna hafi ekki aðgang að öruggu drykkjarvatni og 2,6 milljónir skorti hreinlætisaðstöðu.  Allt að 1,5 milljónir barna deyi árlega vegna þess að þau skorti vatn og hreinlætisaðstöðu."

Að eitt þeirra landa, sem við hvað bestan vatnsbúskap býr í veröldinni, skuli ekki geta tekið undir þessa sjálfsögðu ályktun er einfaldlega hneyksli og ekkert annað.

Nú verður ríkisstjórnin að gera grein fyrir þessari ótrúlegu hjásetu og eins gott að fram komi rök, sem halda.


mbl.is Ísland sat hjá á þingi SÞ
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband