Nagli í líkkistu ríkisstjórnarinnar.

Steingrímur J. segir að ríkið hafi vel efni á því að kaupa hlut Magma í HS orku og það sé alveg möguleiki á því að ríkið geri það.  Það hlýtur að kalla á svar við þeirri spurningu, hvers vegna ríkissjóður keypti ekki hlutinn í fyrra, þegar hann var falur og einnig hvers vegna ríkið keypti ekki þann hlut í fyrirtækinu, sem Geysir Green er nú að selja Magma til viðbótað við þann hlut sem Magma hafði áður keypt.

Bæði ríkissjóður og lífeyrissjóðirnir könnuðu hagkvæmni þess að kaupa HS orku í fyrra og komust að þeirri niðurstöðu, að fjárfestingin væri of áhættusöm til að réttlæta kaup og því bentu Iðnaðar- og Utanríkisráðuneytin Magma á að stofna skúffufyrirtæki í Svíþjóð, til þess að geta réttlætt kaup þess á félaginu, en aðeins fyrirtæki á evrópska efnahagssvæðinu mega fjárfesta í orkufyrirtækjum hérlendis.

Nú, þegar ríkisstjórnin er komin í stórkostleg vandræði með málið, þykist hún geta leyst sjálfa sig úr snörunni með því að skipa rannsóknarnefnd til að kanna einkavæðingu HS orku og lögmæti skúffufyrirtækisins í Svíþjóð til kaupa á meirihlutanum í félaginu.  Verði niðurstaðan sú, þrátt fyrir tvenn samþykki nefndarinnar um erlenda fjárfestingu, að skúffufyrirtækinu hafi ekki verið heimilt að fjárfesta í orkugeiranum hérlendir, hlýtur slík niðurstaða að kalla á afsögn bæði Katrínar Júlíusdóttur, Iðnaðarráðherra og Össurar Skarphéðinssonar, Utanríkisráðherra, enda voru þau helstu ráðgjafar Magma Energy við stofnum skúffufyrirtækisins og kaup þess á HS orku.

Endi málið með því, að kaup Sænsku skúffunnar á HS orku verði dæmd ólögleg myndast svigrúm til fækkunar ráðuneyta um leið og ráðherrarnir tveir neyðast til að segja af sér, en áform um slíka fækkun hefur ekki gengið eftir, þrátt fyrir ákvæði í stjórnarsáttmálanum, frekar en önnur mál, sem stjórnin hefur haft á stefnuskrá sinni.

Eins gott er einnig, verði endirinn þessi, að Steingrímur J. verði tilbúinn með tékkheftið og kaupi HS orku, því annar fellur fyrirtækið beint í hendur annarra erlendra aðila, þ.e. kröfuhafa Glitnis, en hverjir þeir eru veit nú enginn, nema vera skyldi að ríkisstjórnin hefði þær upplýsingar undir höndum og leyndi þeim, eins og svo mörgu öðru.

Hvað sem öðru líður, er þetta mál enn einn naglinn í líkkistu ríkisstjórnarinnar, sem nú fer að verða fullsmíðuð.

 


mbl.is Ríkið gæti keypt hlutinn í HS orku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 27. júlí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband