Davíð Oddsson alltaf samur við Jón Ásgeir í Bónus

Enn ofsækir Davíð Oddsson sakleysingjann Jón Ásgeir í Bónus, en nýjasta útspilið af hans hálfu er að láta Héraðsdóm dæma 365 miðla til að borga þrotabúi Íslenskrar afþreyingar 160 milljónir króna, með dráttarvöxtum, eingöngu vegna þess að Jón Ásgeir gaf sjálfum sér afslátt, sem þessari upphæð nam, þegar hann keypti fjölmiðlana af sjálfum sér og skildi þrotabúið eftir með fimm milljarða skuldir, en engar eignir á móti.

Ekki er nóg með að Davíð láti Héraðsdóm kveða upp svona ósanngjarnan dóm, en allir vita að Davíð stjórnar öllu í þessu landi, nema Jóhönnu Sigurðardóttur, heldur birtir hann líka frétt af þessum gjörningi fyrir alþjóð á mbl.is, en allir vita líka, að það jafngildir einelti að segja fréttir, eins og Jóhanna Sigurðardóttir hefur útskýrt vandlega fyrir þjóðinni.

Hins vegar flokkast það ekki undir þjónkun við Jón Ásgeir, þegar fréttastofa Stöðvar 2 skýrir vandlega fyrir áheyrendum, að fyrrum fyrirtæki Jóns Ásgeirs, Iceland, mali nú gull fyrir Landsbankann og muni fara langt með að greiða Icesave.  Ekki dettur fréttastofunni í hug, að ef um hagnað af verslunarkeðjunni er að ræða núna, þá mun hann ganga til að greiða eitthvað af þeim hundruðum milljarða skuldum, sem Jón Ásgeir skildi sjálfur eftir í ýmsum þrotabúum, þegar loftbóluviðskipaveldi hans sprakk í loft upp.

Já, Jón Ásgeir í Bónus getur borið höfuðið hátt, en Davíð Oddsson ætti að skammast sín.

Það segir Bubbi Mortens að minnsta kosti og hann veit sko alveg hvað hann syngur.


mbl.is Gert að greiða 160 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sannleiksskylda eða sannleiksást

Birgir Ármannsson, þingmaður, hefur lagt fram fyrirspurn til forsætisráðherra um sannleiksskyldu ráðherra, ekki eingöngu vegna missagna Jóhönnu um laun seðlabankastjóra, heldur almennt, t.d. yfirlýsingar ráðherra um stöðu bankanna fyrir hrun, en fram undir það síðasta kepptust ráðherrar við að lýsa því yfir, að bankarnir væru við góða heilsu og ekkert væri að óttast um örlög þeirra.

Birgir segir m.a:  "Gefi ráðherra þinginu upplýsingar sem hann veit að eru rangar eða villandi kann það að varða við lög um ráðherraábyrgð.  Hins vegar hefur lítið sem ekkert reynt á þetta í framkvæmd, þannig að hér á landi hefur kannski fyrst og fremst verið um pólitíska ábyrgð að ræða. En einmitt af þeim sökum tel ég ástæðu til að vekja athygli á því að það kunni að vera tilefni til að skýra þessar reglur og herða þær.“

Í sambandi við þetta vaknar sú spurning, hvort ráðherra myndi ekki alltaf halda því fram, að hann hefði ekki vitað að hann væri að gefa rangar eða villandi upplýsingar.  Í sambandi við bankahrunið geta ráðherrarnir sagt að þeir hafi trúað þeim upplýsingum, sem komu frá bönkunum sjálfum, um að allt væri í himnalagi, þótt Davíð Oddsson hafi sagt annað.  Samfylkingarráðherrar a.m.k. vildu aldrei trúa einu orði sem hann sagði og geta því notað það sem afsökun fyrir því, að hafa ekki gripið til neinna sérstakra aðgerða í aðdraganda bankahrunsins.

Það gæti reynst þrautin þyngri, að sanna að ráðherrar gefi villandi og rangar upplýsingar.  Hvernig á að sanna að Jóhanna hafi vitað allt um launaplottið í seðlabankanum, þó hún harðneiti því og segist aldrei tala við nokkurn mann í ráðuneytinu og enn síður vinkonu sína Láru V. Júlíusdóttur.

Þegar allt kemur til alls, er það sannleiksástin, sem skiptir mestu máli.


mbl.is Spyr um sannleiksskyldu ráðherra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Launamisrétti kynjanna innan Kaupþings yfirgengilegt

Héraðsdómur Reykjavíkur tók launakröfur nokkurra yfirmanna Kaupþings á hendur þrotabúinu fyrir í morgun og er nokkuð hart fyrir þetta fólk, að þurfa að leita til dómstóla til að fá sanngjarnar launakröfur sínar samþykktar, því verður er verkamaðurinn launa sinna, eins og þar stendur.

Steingrímur P. Kárasonar, fyrrverandi framkvæmdastjóri áhættustýringar Kaupþings, gerir kröfu um vangoldin laun að upphæð 81 milljónar króna, Ingólfur Helgasonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings á Íslandi, gerir kröfu um 25 milljónir og Guðný Arna Sveinsdótti, fyrrv. framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs bankans, gerir aðeins kröfu um vangreidd laun að upphæð rúmlega 12 milljóna.

Ekki verður annað séð af þessum kröfum, en að hrópandi launamisrétti milli kynjanna hafi viðgengist innan Kaupþings, þar sem Guðný Arna, sem var framkvæmdastjóri, rétt eins og Steingrímur P., er ekki hálfdrættingur á við Ingólf í launakröfu sinni og ekki nema 12% af kröfu kollega síns, Steingríms.

Að vísu báru þeir félagar Steingrímur og Ingólfur svo gríðarlega mikla ábyrgð, að Sérstakur saksóknari sá ástæðu til að setja þá í tugthúsið í nokkra daga, en Guðný Arna hefur bara sofið heima hjá sér, eftir því sem best er vitað. 

Eftir sem áður verða laun hennar að teljast hafa verið smánarleg í samanburði við félaga hennar, því einkennilegt er ef ábyrgð hennar sem yfirmanns fjármála- og rekstrar er svona lítils virði í samanburði við áhættustýringuna, sem Steingrímur sá um og sinnti raunar af einstakri varkárni, eins og fram hefur komið.

Þetta er ekki fallegt til afspurnar um það jafnrétti kynjanna, sem ríkt hefur innan Kaupþings.


mbl.is Launakröfur Kaupþingsstjóra fyrir dóm
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veruleikafirrtir stjórnendur Kaupþings

Fréttir af rannsókn Sérstaks saksóknara og Serious Fraud Office á viðskiptum Kaupþings, í samstarfi við Deutce Bank, með skuldatryggingarálag á bankann á árinu 2008 sýna veruleikafirringu stjórnenda bankans og hvað þeir voru orðnir lausir við allt skyn á verðmæti peninga, því milljarður var eins og hver önnur skiptimynt í þeirra huga.

Úrdráttur úr skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis varpar góður ljósi á þetta:  „Eigendur tveggja félaga fengu 130 milljónir evra að láni frá Kaupþingi í Lúxemborg. 125 milljónir evra voru eiginfjárframlag til félaganna en 5 milljónir evra gengu til greiðslu þóknunar til Deutsche Bank. Þar sem samningurinn var 250 milljóna evra virði þá fengu félögin 125 milljónir evra að láni frá Deutsche Bank og var lánið með ákvæði um gjaldfellingu ef skuldatryggingarálag færi upp fyrir ákveðin mörk.“

Þóknunin til Deutce Bank fyrir þetta "plott" nemur um 850 milljónum króna á núverandi gegni evrunnar og áður hefur komið fram að Al-Thani hafi fengið 50 milljónir dollara, eða tæplega 8,5 milljarða króna, fyrir að "lána" nafn sitt í svikamylluna um "kaup" hans á 5% hlut í Kaupþingi í september 2008.

Launagreiðslur og bónusar til stjórnendanna voru óheyrilegar, en þær námu jafnvel milljörðum króna árlega, enda sögðust þeir bera svo mikla ábyrgð, að í raun væru þetta ekki háar greiðslur.  Ábyrgaðrtilfinningin er þó ekki meiri en svo, að Sigurður Einarsson neitar að koma til landsins til þess að svara fyrir gerðir sínar og ábyrgð.

Það er víst ekki ofsögum sagt, að margur verður af aurum api.


mbl.is Vísa hvor á annan
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband