Hátt hreykir heimskur sér

Grínflokkarnir í Reykjavík hafa boðað til blaðamannafundar klukkan fimm í dag á þaki blokkarinnar við Æsufell 4 í Breiðholtinu, en það er líklega hæsti "útsýnispallur" borgarinnar.

Hvort Æl-istinn hefur valið Æsufellsblokkina vegna upphafsstafsins í nafni hennar, skal ósagt látið, en líklega hefur æringjunum þótt þetta geysilega fyndið, sem það er nú reyndar ekki, en þó verður að viðurkennast að staðurinn er óvenjulegur til fundarhalda.

Varla getur skýringin verði sú, að grínistarnir þykist svo hátt yfir Reykvíkinga hafnir, að þetta sé táknræn athöfn til undirstrikunar á því.  Kannski er þetta bara saklaus aðferð til að "lyfta sér upp", en ekki veitir nú af því fyrir Samfylkinguna, eftir þá útreið sem hún fékk í borgarstjórnarkosningunum, ekki síst oddvitinn Dagur B., sem þurfti að þola fjöldaútstrikanir af listanum.

Það sem kom þó allra fyrst upp í hugann við lestur fréttarinnar var gamli góði málshátturinn:  "Hátt hreykir heimskur sér".


mbl.is Meirihluti á þaki Æsufells
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvóti eða ekki kvóti

Þorskstofninn er á hægri uppleið, samkvæmt upplýsingum Hafrannsóknarstofnunar, sem leggur til að þorskafli verði aukinn úr 150 þúsundum tonna í 160 þúsund.  Þetta segir Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, að sé skólabókardæmi um árangur í fiskveiðistjórnun, en um það hlýtur að mega deila eftir nærri þrjátíu ára friðun, sem litlu hefur skilað í stækkun stofnsins, þar til nú.

Ef þetta er skólabókardæmi um friðunaraðgerðir, þá væri fróðlegt að fá skýringu á því hvers vegna stofnunin leggur til 18 þúsund tonna minni ýsuafla á næsta fiskveiðiári, eða að þá verði veidd 45 þúsund tonn af ýsu í stað 63 þúsund tonna, sem heimilt er að veiða á þessu fiskveiðiári.  Hvaða skólabókarlærdóm er hægt að draga af því?

Margir eru ekki sáttir við rannsóknir og veiðiráðgjöf Hafró, en skoðanir á því hve mikið væri óhætt að veiða og hvernig ætti að stjórna veiðunum, eru margar og ólíkar, allt frá því að viðhalda óbreyttu kvótakerfi og til þess að gefa allar veiðar frjálsar.  Algerlega frjálsar veiðar koma líklega alls ekki til greina, því flestir eru á því að einhverjar takmarkanir verði að viðhafa og þá er einhverskonar kvótakerfi komið til að vera.

Fyrningarleið ríkisstjórnarflokkanna er algerlega óhugsuð aðgerð, því engar tillögur hafa komið fram um hvað ætti svo að taka við.  Stundum er sagt að kvótanum verði bara úthlutað aftur til sömu aðila og hafa hann núna og þá vaknar spurning til hvers leikurinn væri gerður.   Aðrir vilja setja allar aflaheimildir á uppboð og selja þær hæstbjóðanda, en það væri kerfi sem gengi ekki upp heldur, þar sem þá myndu örfáir fjársterkir aðilar ná til sín öllum kvótanum á örfáum árum.

Eina leiðin er að ná "þjóðarsátt" um hvernig á að stjórna veiðum við landið og endursmíða reglurnar þar um á eftir. 


mbl.is Þorskstofninn stækkar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nektin vekur athygli

Í landkynningarmyndbandi við lag Emelíu Torrini, Jungle Drum, dansar fólk út um allt Ísland, í borg, þorpum, láglendi, hálendi og upp á jöklum, svo eitthvað sé nefnt.

Í einnar sekúndu bút í myndinni sést nakið par stökkva ofan í heita laug í óbyggðum, en að öðru leyti er fólk ekki mjög fáklætt við dansiðkunina.

Danir a.m.k. taka strax aðallega eftir þessu nakta pari og finna umsvifalaust út, að þægilegt sé að vera berrassaður út um allar trissur á Íslandi og gera ferðaátakinu góð og vinsamleg skil fyrir vikið.

Engum sögum fer hins vegar af landslaginu eða danslist mörlandans.


mbl.is Gott að vera berrassaður á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eiga íslenskir sparifjáreigendur að greiða Icesave?

NBI hf. (Nýji Landsbankinn) var látinn gefa út skuldabréf til gamla Landsbankans að upphæð 260 milljarða króna í erlendri mynt, með fyrsta gjalddaga eftir fimm ár, til að fela það, hvað ríkisstjórnin þóttist myndu þurfa að láta háa fjárhæð falla á íslenska skattgreiðendur vegna Icesave.

Með því að láta NBI borga þessa upphæð átti að láta líta svo út, að mun meira fengist upp í Icesaveskuld gamla bankans vegna þess hve mikið myndi innheimtast af útistandandi kröfum hans og þar með myndu Íslendingar ekki verða skattaþrælar Breta og Hollendinga eins lengi og annars hefði orðið.

Nú er hins vegar komið í ljós, að NBI muni eiga í verulegum erfiðleikum með að greiða af þessu skuldabréfi og því er gripið til þess ráðs að leggja fram frumvarp, sem gerir ráð fyrir því að skuldabréfið færist upp fyrir sparifjárinnistæður ef illa fer fyrir NBI hf., en hagnaður bankans myndi þurfa að nema a.m.k. 50 milljörðum árlega til þess að geta greitt bréfið niður á afborgunartímanum.

Svo mikill árlegur hagnaður til langs tíma er óraunhæfur og því er gripið til þess ráðs, að gulltryggja þetta skuldabréf gagnvart gamla bankanum, en setja hagsmuni sparifjáreigenda í annað sæti.

Jafnvel þó bankinn gæti skilað þessum hagnaði til að greiða af bréfinu, þá kemur sá hagnaður ekki frá neinum nema viðskiptavinum nýja Landsbankans og það munu þá verða þeir sem greiða niður Icesaveskuldina til viðbótar við skattaáþjánina, sem ríkisstjórnin ætlar að selja þá í.

Baráttan gegn erlendu fjárkúguninni er rétt að byrja.


mbl.is Skilanefnd tryggð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 4. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband