3.6.2010 | 22:48
Eru Skagamenn að komast á skrið?
Gamla góða ÍA liðið hefur ekki verið að gera stóra hluti í fótboltanum undanfarin ár og spilað í 1. deild án þess að ná þar sérstaklega góðum árangri. Liðið hefur að mestu verið skipað heimamönnum og verið að byggja upp alveg nýtt lið frá grunni og voru vonir bundnar við að félaginu myndi ganga vel í sumar og jafvel komast upp í úrvalsdeildina, en annarsstaðar en þar kunna Skagamenn ekki vel við sig.
Liðið hefur ekki farið vel af stað það sem af er vertíðinni, það hefur spilað fjóra leiki og aðeins gert eitt jafntefli, en tapað þrem leikjum. Þó sagt sé að fall sé fararheill, er þessi byrjun á mótinu ekki ásættanlegt fyrir þetta fyrrum stórveldi í knattspyrnunni.
Í dag komst liðið í 16. liða úrslit Visa-bikarsins eftir sigur á úrvalsdeildarliði Selfoss og hlýtur sá sigur að vera mikil vítamínssprauta fyrir liðið og er það nú vonandi komið á beinu brautina og nýtir sér þessa velgengni til stærri og meiri afreka í sumar.
ÍA á hvergi heima nema í úrvalsdeild og þessi úrslit hljóta að vekja upp þann sigurvilja í liðinu, sem til þarf.
![]() |
Skagamenn og Fjölnir komust áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2010 | 14:49
Listamenn afneita Ólafi Ragnari
Allt frá stofnun Grímuverðlaunanna og fram að bankahruni þáðu skipuleggjendur athafnarinnar ríflega styrki frá banka- og útrásarfroðufyrirtæknum og fram til þessa hefur liðstjóri klappstýra froðubarónanna verið "verndari" verðlaunanna og afhent heiðursverðlaun Grímunnar hverju sinni.
Nú eru allir styrkir á bak og burt með hruni froðufyrirtækjanna og þeirra froðusnakkara sem áttu þau og ráku og þá um leið neita listamennirnir að viðurkenna klappstýrufyrirliðann Ólaf Ragnar Grímsson, forseta, sem "verndara" verðlaunanna lengur og fær hann því ekki að afhenda heiðursverðlaunin og reyndar fær hann alls ekki einu sinni aðgang að samkomunni.
Til að láta minna bera á útskúfun forsetans frá verðlaunahátíðinni, er þess getið að engir opinberir aðilar muni koma þar að, en listamennirnir muni afhenda hverjir öðrum verðlaunagripina, án sérstakarar viðhafnar. Þannig á að reyna að gera minna úr niðurlægingu Ólafs Ragnars út á við, en auðvitað sjá allir til hvers hrútarnir eru skornir.
Sviðslistamönnum er óskað góðrar skemmtunar á árshátið sinni, sem að þessu sinni verður styrkja- og forsetalaus, sem vafalaust mun ekkert draga úr ánægju listamannanna með sjálfa sig.
![]() |
Engir ráðamenn í hlutverki á Grímunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.6.2010 | 11:54
Hermann áfram - Sigrún Björk ekki
Hermann Jón Tómasson, sem skipaði fyrsta sæti Samfylkingarinnar í bæjarstórnarkosningunum á Akureyri, hefur ákveðið að sitja áfram í bæjarstjórn, sem eini fulltrúi Samfylkingarinnar eftir mikið tap flokksins í kosningunum. Hermann var sitjandi bæjarstjórni, þannig að kosningaúrslitin voru mikið áfall fyrir hann og flokkinn.
Sjálfstæðisflokkurinn tapaði einnig miklu fylgi á Akureyri og fékk aðeins einn bæjarfulltrúa, eins og Samfylkingin, en þessir flokkar störfuðu saman í meirihluta á síðasta kjörtímabili. Sigrún Björk Jakobsdóttir, sem skipaði fyrsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins sagði af sér sem oddviti Sjálfstæðismanna á Akureyri í kjölfar ósigursins og mun ekki taka sæti í næstu bæjarstjórn.
Sigrún Björk varð fyrir miklum og óverðskulduðum árásum í kosningabaráttunni, sem rekin var á ómerkilegum og órökstuddum persónulegum nótum í hennar garð og alið á tortryggni og úlfúð vegna einfalds kaupmála, sem þau hjón gerðu sín í milli, eins og alsiða er, þegar fólk vill halda heimili sínu aðskildu frá viðskiptum og slíka kaupmála ættu allir að gera, sem áhætturekstur stunda, því það dýrmætasta sem fólk á, er heimilið og óþarfi og raunar alger vitleysa að taka áhættu á að tapa því, vegna fyrirtækjareksturs.
Væntanlega munu Akureyrinar uppgötva þau gömlu sannindi, að enginn veit hvað átt hefur, fyrr en misst hefur, þegar Sigrún Björk á í hlut, því hún er afbragðsmanneskja, dugleg, heiðarleg og röggsöm og hefur unnið öll sín störf af stakri prýði.
Sigrún Björk mun eiga greiða endurkomu inn í stjórnmálin, hvar sem hún kann að setja sig niður á landinu, eftir það vanþakklæti sem Akureyringar hafa sýnt störfum hennar. Hún er maður að meiri með afsögn sinni úr forystu bæjarmála á Akureyri og mundi verða happafengur hverju því félagi eða fyrirtæki, sem hún gæfi kost á starfskröftum sínum í framtíðinni.
Vonandi gefur Sigrún Björk Jakobsdóttir kost á sér til framboðs fyrir næstu Alþingiskosningar.
![]() |
Hermann situr áfram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
3.6.2010 | 09:59
Bloggarar hafa mikil völd - þurfa að beita þeim hóflega
Eftir því sem fregnir herma var það bloggari í Þýskalandi, sem kom af stað umræðum um óheppileg ummæli Horst Koehler, þýskalandsforseta, og sem að endingu urðu til þess að hann sagði af sér embætti. Ummæli forsetans voru á þá leið að réttlætanlegt væri að verja viðskiptahagsmuni Þýskalands með hervaldi, en eftir að umræður hófust um þessi ummæli, sem byrjuðu á blogginu, og forsetinn lá undir gagnrýni vegna þeirra, sagði hann sig frá embætti.
Forseti Íslands, sem hefur svipaða stöðu og sá þýski, hefur látið frá sér fara alls kyns ummæli og yfirlýsingar, sem enginn hefur verið sáttur við, nema forsetinn sjálfur, enda alltaf ánægður með sjálfan sig og sínar gerðir og hann telur sig reyndar vera að endurskapa þjóðskipulagið upp á eigin spýtur.
Aldrei hefur hvarflað að Ólafi Ragnari að segja af sér vegna gjörða sinna, ummæla eða yfirlýsinga, hvorki vegna gagnrýni á bloggi, í fjölmiðlum eða frá almenningi í landinu, jafnvel á þeim tíma sem hann mældist einn óvinsælasti maður þjóðarinnar í skoðanakönnunum. Víða erlendis þarf ekki mikið til, til þess að stjórnmálamenn segi af sér embætti og er það venja, sem einnig þyrfti að komast á hér á landi, ekki síst til þess að losna við áralangar þrætur um málefni, sem tengjast einstökum stjórnmálamönnum.
Það er alþekkt, að stjórnmálamenn sem segja af sér embætti vegna utanaðkomandi gagnrýni á ýmsar gerðir þeirra, innan sem utan þingsala, sem ekki fela í sér nein lögbrot, en eru vegna einhverra perónulegra mála, eða óheppilegra ummæla, segja af sér embætti, en endurnýja svo umboð sitt í næstu kosningum og setjast jafnvel aftur á ráðherrastóla, enda þá búnir að gera hreint fyrir sínum dyrum og fengið uppreisn æru.
Slíkar afsagnir þurfa íslenskir stjórnmálamenn að taka sér til fyrirmyndar, enda engin skömm að játa á sig mistök, sé allt gert sem mögulegt er til að bæta fyrir þau.
![]() |
Felldu bloggarar forsetann? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)