Vissi ríkisstjórnin um lögbrot lánastofnana og þagði um þau?

Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, flutti skýrslu á Alþingi í dag um áhrif dóma Hæstaréttar vegna "gengislánanna" og hafði uppi a.m.k. tvennar skoðanir á málinu, þ.e. að dómarnir væru fagnaðarefni fyrir skuldarana, en svo gífurlegt áfall fyrir lánastofnanirnar, að samningsvextirnir yrðu ekki látnir standa á þessum lánum, hvernig sem hann ætlar sér að fara að því að breyta lánsskjölunum.

Eitt stórmerkilegt og afar athyglisvert atriði datt upp úr Gylfa, sem krefst nánari skýringa af hans hálfu og fjölmiðlar hljóta að ganga eftir, strax í dag, en það var eftirfarandi, samkvæmt mbl.is:

"En fjármálakerfið var ekki undir það búið að fyrir utan að gengistryggingin sem slík væri dæmd ólögmæt, þá væru lögin túlkuð þannig að hinir erlendu vextir skyldu standa á þessum lánum.

Eðlilegir innlendir vextir, sem eins og flestir vita eru talsvert hærri, væru þau kjör sem gert hefði verið ráð fyrir í þessu samhengi, þegar nýja bankakerfið var sett á fót. Sagði hann að það væri eitthvað sem ekki væri hægt að stinga höfðinu í sandinn vegna eða horfa framhjá."

Þarna virðist Gylfi vera að viðurkenna það, að ríkisstjórnin hafi vitað það við endurreisn bankanna, að gengistryggingin yrði dæmd af lánunum og að innlendir vextir kæmu í stað samningsvaxtanna.  Miðað við þessa yfirlýsingu hafa lánin verið færð úr gömlu bönkunum á nafnverði í íslenskum krónum, en miðað við vexti óverðtryggðra lána í stað "erlendu vaxtanna".

Þessar upplýsingar sem þarna detta væntanlega óvart út úr Gylfa, er algerlega ótrúleg í raun og veru, því hún sýnir að ríkisstjórnin hefur verið að fara á bak við lántakendur þessara lána í a.m.k. heilt ár og hreinlega logið að þjóðinni um þessi mál.

Sé þetta rétt, þá hafa ríkisstjórnir þurft að segja af sér af minna tilefni.


mbl.is Samningsvextir haldist ekki
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Besti flokkurinn efnir kosningaloforð

Jón Gnarr lofaði því í kosningabaráttunni að kæmist hann til valda í Reykjavík, myndi hann hygla vinum sínum, ættingjum og félögum ríkulega með feitum og vel launuðum embættum og sporslum hjá borginni, enda ætlaði hann ekki að gera neitt sjálfur í borgarstjórastólnum, heldur láta embættismenn borgarinnar og starfsfólk annast alla þá vinnu, sem inna þyrfti af hendi.

Reyndar lofaði hann því líka, að svíkja öll kosningaloforð sín, en loforðið um bitlingana er byrjað að efna, þvert ofan í loforðið um að svíkja það.  Alversta dæmið um þetta er ákvörðunin um að verðlauna Harald Flosa Tryggvason, fyrrverandi yfirmann vörslusviptinga og eignasölu hjá Lýsingu, sem var einna illræmdast af öllum fjármögnunarfyrirtækjum landsins vegna hörku og miskunnarleysis við innheimtu "gengislána".

Ætlun Jóns Gnarrs er að gera þennan dygga stuðningsmann sinn úr kosningabaráttunni að starfandi stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur, með sömu laun og allra hæst launuðu embættismenn borgarinnar njóta.  Hefði nokkrum öðrum en Jóni Gnarr dottið svona lagað í hug, hefði hinn sami verið sakaður um spillingu af verstu gerð, en einhver ný viðmiðun um spillingu virðist hafa skotið rótum með komu Besta flokksins í borgarstjórn.

Um þetta hefur verið fjallað áður á þessu bloggi og má sjá það hérna

Þegar það blogg birtist bar svo einkennilega við, að ekki einn einasti stuðningsmaður Besta flokksins reyndi að verja þessa gjörð og hafa þeir þó verið ákaflega viðkvæmir fyrir allri gagnrýni á Jón Gnarr og stjórnleysingjaflokk hans.


mbl.is Vilja ekki starfandi stjórnarformann hjá OR
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óábyrg Samtök lánþega

Samtök lánþega hvetja alla sparifjáreigendur landisins til að gera áhlaup á viðskiptabankana og hreinsa út úr þeim allt sparifé, sem þar er til ávöxtunar, en samkvæmt áhlaupsáskoruninni nema þessar innistæður um 2.200 milljörðum króna.

Áhlaup á banka er eitt það alvarlegasta sem fyrir getur komið í fjármálalífi nokkurrar þjóðar og því mikið ábyrgðarleysi að hvetja til slíks, en samtökin beina því til sparifjáreigendanna að taka út allar sínar innistæður og koma þeim í "öruggt skjól" t.d. í ríkistryggð skuldabréf.

Við svona áhlaup myndu bankarnir hrynja hver af öðrum og engum til að dreifa öðrum en ríkinu til þess að endurreisa þá og hefði þá ekki til þess annað fé, en það fé sem innistæðueigendur hefðu lagt til með kaupum á ríkisskuldabréfum og þar með myndi endurgreiðslugeta ríkisins á þessum skuldabréfum skerðast verulega, fyrir utan að tiltrú umheimsins á Íslendingum og íslensku fjármála- og efnahagslífi myndi algerlega gufa upp, ef eitthvað er eftir af slíkri tiltrú.

Þetta herútboð samtaka skuldara til þeirra sem hafa lagt til sparifé, sem síðan hefur aftur verið lánað út úr bönkunum er eitthvað það óábyrgasta útspil sem um getur í íslenskum og alþjóðlegum fjármálaheimi og getur ekki orðið til annars en að ýta undir umræður um að íslenskir stórskuldarar séu algerlega óábyrgir gerða sinna og orða.

Vonandi taka sparifjáreigendur ekki til sín þessar "ráðleggingar" þeirra, sem tekið hafa spariféð að láni, en ætlast til þess að þurfa ekki að borga það til baka að fullu. 


mbl.is Hvetja fólk til að taka út
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 24. júní 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband