9.5.2010 | 21:43
Bestaflokksbrandarinn bliknar hjá þessum
Litið hefur verið á framboð "Besta flokksins" sem fyndið framboð og því tekur fólk því ekki alvarlega og ekki líkur á að það fái mikið fylgi, þegar kemur að kosningum. Að vísu hafa frambjóðendur flokksins breytt nokkuð um stefnu undanfarið og farið að láta eins og framboðið sé alvöruframboð og aðstandendur þess langi í raun og veru til að setjast í borgarstjórnina.
Nú er komið nýtt framboð, sem kynnir sig sem alvöruframboð, en er miklu fyndnara en "Besti flokkurinn", en það er Reykjavíkurframboðið. Listinn er leiddur af varaþingmanni Hreyfingarinnar og þó ekki sé boðið fram í hennar nafni, hlýtur að mega reikna með því að tengin sé þar á milli.
Samkvæmt fréttinni er eftirfarandi hluti af stefnuskrá Reykjavíkurframboðsins: "Reykjavíkurframboðið vill ennfremur að hið minnsta sjö milljarðar króna verði nýttir til að efla atvinnustig og nýsköpun og eyða kreppuáhrifum á borgarbúa, svo hvorki þurfi að hækka útsvar og þjónustugjöld né að draga úr þjónustu við borgarbúa."´
Þar sem Reykjavíkurframboðið ætlast greinilega ekki til að það verði tekið alvarlega, þá kemur ekkert fram um það hvar þeir ætli að taka sjömilljarða, án þess að hækka útsvar eða þjónustugjöld, hvað þá að draga úr þjónustu við borgarbúa. Jafnvel þó taka ætti lán fyrir þessu, þá þyrfti væntanlega að endurgreiða það og varla yrði það gert nema með skattfé borgarbúa.
Það fyndnasta er náttúrlega loforðið um að eyða kreppuáhrifunum á borgarbúa, en þar býr rúmlega helmingur þjóðarinnar og þrátt fyrir fjórtán mánaða setu, hefur ríkisstjórninni ekki tekist að eyða kreppuáhrifunum á þjóðarbúið og enginn reiknar heldur með því að það takist, nema á mörgum árum.
Borgarstjórnarkosningarnar í vor verða greinilega mikil barátta á milli fyndinna uppistandara.
![]() |
Fara gegn fjórflokknum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
9.5.2010 | 19:46
Gylfa og Rögnu fórnað til að losna við Jón Bjarnason
Samfylkingin vill losna við Jón Bjarnason úr stóli sjávarútvegsráðherra vegna eindreginnar andstöðu hans við innlimun Íslands í ESB og því að yfirráðum fiskveiðiauðlindarinnar verði fórnað á því altari. Til þess að losna við Jón, verður ráðuneytið lagt niður í heilu lagi og Samfylkingarráðherrar látnir taka yfir verkefni þess.
Til þess að fela raunverulegan tilgang sameiningarhugmynda Samfylkingarinnar verður Gylfa Magnússyni, viðskiptaráðherra, og Rögnu Árnadóttur, dómsmálaráðherra, fórnað og þeirra ráðuneyti einnig sameinuð öðrum. Þar með fækkar ráðuneytum og ráðherrum úr tólf í níu, eins og Samfylkingin hefur lagt til, en ekki er alveg víst að VG samþykki að fórna Jóni úr ráðherraliðinu og þurfa að sætta sig við að fá fjóra ráðherra á móti fimm ráðherrum Samfylkingarinnar. Ekki er útilokað að Jóhanna kaupi VG til að samþykkja tillöguna gegn því, að Ögmundur kæmi aftur inn í stjórnina og þar með eftirláta VG fimmta ráðherrastólinn.
VG hefur alltaf gefið eftir gagnvart Samfylkingunni í stjórnarsamstarfinu og því mun þetta sjálfsagt enda með þeim ráðherrafórnum og hrókeringum sem hér hefur verið giskað á.
![]() |
Ríkisstjórnin fundar enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
9.5.2010 | 12:57
Hrun í evrulöndum - hvað um eignir lífeyrissjóðanna
Sífellt berast fleiri og alvarlegri fréttir af fjármála- og skuldavanda margra evruríkjanna, lækkun á hlutabréfamörkuðum vegna þess og nú síðast hættu á falli banka og það engra smábanka. Þegar fréttir koma af því, að annar stærsti banki Evrópu, spænski Santander bankinn, sé kominn í verulega erfiðleika og hlutabréf hans hafi fallið um 25%, staðfestir það hversu djúpstæður þessi vandi er orðinn.
Íslensku lífeyrissjóðirnir töpuðu hundruðum milljarða króna á íslenska efnahagshruninu og þá var þakkað fyrir hve stór hluti þeirra væri bundinn í "öruggum" erlendum hluta- og skuldabréfum og það hefði bjargað því, að ekki fór ennþá verr fyrir íslenskum rétthöfum lífeyris hjá sjóðunum.
Spurning vaknar um í hvers konar skuldabréfum þessar erlendu eignir lífeyrissjóðanna liggja og þá ekki síður í hvaða hlutabréfum þau hafa fjárfest úti í hinum stóra heimi.
Vonandi verða næstu hörmungarfréttir hér á landi ekki af nýjum eignabruna íslensku lífeyrissjóðanna.
![]() |
Santander sömu leið og Kaupþing? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)