27.5.2010 | 19:32
Biti fyrir blóðhundana
Átatugum saman tíðkaðist að reka kosningabaráttu, hvort heldur var flokkanna sjálfra eða prófkjörsbaráttu frambjóðenda, með styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum, enda gerðu allr reglur, sem um þetta giltu á þeim tíma, ráð fyrir að sá háttur væri á hafður. Þeta leiddi til þess að sífellt meira fé var eytt í kosningar og prófkjör og eins og allt annað í þjóðfélaginu má segja að þessi aðferð við fjármögnun hafi gengið út í öfgar áður en lög voru sett til að stemma stigu við vaxandi öfgum í þessum efnum.
Þar sem engin lög eða reglur, sem í gildi voru, voru brotnar með því að fjármagna kosningabaráttu með þessum hætti, hefur á þessu bloggi verið mótmælt harðlega aðför sjálfskipaðra siðapostula, sem setið hafa um heimili ákveðinna aðila til að neyða þá með óbeinum ógnunum, til að segja af sér þeim embættum sem þeir voru kjörnir til í síðustu kosningum.
Um fátt var meira rætt í aðdraganda kosninganna vorið 2009, eða fyrir aðeins einu ári, en þessa styrki frá árunum 2006 og 2007 og allir sem enn eru á þingi og þáðu þessa styrki á sínum tíma, endurnýjuðu umboð sitt frá stuðningsmönnum flokka sinna og síðan í kosningunum sjálfum og því er með ólíkindum, að nú sé hafin ný herferð gegn þessu fólki, án þess að nokkuð nýtt hafi komið upp vegna þessara styrkja, eða sýnt fram á óeðlileg tengsl við þá sem styrkina veittu, hvað þá að þingmennirnir hafi hyglað þeim sérstaklega.
Það er lágmarkskrafa, að í réttarríki sé hver maður álitinn saklaus, þangað til annað sannast og algerlega óásættanlegt að sá sem saklaus er, skuli þurfa að leggja fram sérstakar sannanir þar um, eingöngu vegna ofsókna ákveðins hóps í þjóðfélaginu, sem heilagari þykist vera en aðrir.
Með afsögn Steinunnar Valdísar hafa blóðhundarnir náð að rífa í sig fyrsta fórnarlambið og þegar þeir komast á bragðið hætta þeir aldrei árásum sínum og fá aldrei nóg. Að því leyti til er afsögn Steinunnar Valdísar óheppileg, en skiljanleg vegna þeirra ofsókna sem hún hefur orðið fyrir af hendi óvandaðra manna, því þarf sterk bein til að þola slíkt á heimili sínu, kvöld eftir kvöld.
Jafnvel þó allir, sem eina krónu hafa þegið í styrki vegna stjórnmálabaráttu sinnar, segðu af sér strax á morgun, myndu blóðhundarnir ekki hætta að gelta og glefsa, því þá yrðu bara einhverjir aðrir fyrir barðinu á þeim, þar sem blóðþorstinn slökknar ekki þó ein bráð sé felld.
Það er ófögur birtingarmynd þess þjóðfélags, sem hér virðist vera að mótast, þegar löghlýðnir borgarar geta ekki orðið um frjálst höfuð strokið fyrir sjálfskipuðum aftökusveitum.
![]() |
Steinunn Valdís segir af sér |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)