Biti fyrir blóðhundana

Átatugum saman tíðkaðist að reka kosningabaráttu, hvort heldur var flokkanna sjálfra eða prófkjörsbaráttu frambjóðenda, með styrkjum frá einstaklingum og fyrirtækjum, enda gerðu allr reglur, sem um þetta giltu á þeim tíma, ráð fyrir að sá háttur væri á hafður.  Þeta leiddi til þess að sífellt meira fé var eytt í kosningar og prófkjör og eins og allt annað í þjóðfélaginu má segja að þessi aðferð við fjármögnun hafi gengið út í öfgar áður en lög voru sett til að stemma stigu við vaxandi öfgum í þessum efnum.

Þar sem engin lög eða reglur, sem í gildi voru, voru brotnar með því að fjármagna kosningabaráttu með þessum hætti, hefur á þessu bloggi verið mótmælt harðlega aðför sjálfskipaðra siðapostula, sem setið hafa um heimili ákveðinna aðila til að neyða þá með óbeinum ógnunum, til að segja af sér þeim embættum sem þeir voru kjörnir til í síðustu kosningum.

Um fátt var meira rætt í aðdraganda kosninganna vorið 2009, eða fyrir aðeins einu ári, en þessa styrki frá árunum 2006 og 2007 og allir sem enn eru á þingi og þáðu þessa styrki á sínum tíma, endurnýjuðu umboð sitt frá stuðningsmönnum flokka sinna og síðan í kosningunum sjálfum og því er með ólíkindum, að nú sé hafin ný herferð gegn þessu fólki, án þess að nokkuð nýtt hafi komið upp vegna þessara styrkja, eða sýnt fram á óeðlileg tengsl við þá sem styrkina veittu, hvað þá að þingmennirnir hafi hyglað þeim sérstaklega.

Það er lágmarkskrafa, að í réttarríki sé hver maður álitinn saklaus, þangað til annað sannast og algerlega óásættanlegt að sá sem saklaus er, skuli þurfa að leggja fram sérstakar sannanir þar um, eingöngu vegna ofsókna ákveðins hóps í þjóðfélaginu, sem heilagari þykist vera en aðrir.

Með afsögn Steinunnar Valdísar hafa blóðhundarnir náð að rífa í sig fyrsta fórnarlambið og þegar þeir komast á bragðið hætta þeir aldrei árásum sínum og fá aldrei nóg.  Að því leyti til er afsögn Steinunnar Valdísar óheppileg, en skiljanleg vegna þeirra ofsókna sem hún hefur orðið fyrir af hendi óvandaðra manna, því þarf sterk bein til að þola slíkt á heimili sínu, kvöld eftir kvöld.

Jafnvel þó allir, sem eina krónu hafa þegið í styrki vegna stjórnmálabaráttu sinnar, segðu af sér strax á morgun, myndu blóðhundarnir ekki hætta að gelta og glefsa, því þá yrðu bara einhverjir aðrir fyrir barðinu á þeim, þar sem blóðþorstinn slökknar ekki þó ein bráð sé felld.

Það er ófögur birtingarmynd þess þjóðfélags, sem hér virðist vera að mótast, þegar löghlýðnir borgarar geta ekki orðið um frjálst höfuð strokið fyrir sjálfskipuðum aftökusveitum.

 


mbl.is Steinunn Valdís segir af sér
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Gunnarsson

Já, það er helv. hart ef fólk ætlar að byggja hér upp heilbrigt samfélag og andmæla pólitískri spillingu og mútum svo ruddalega að fólk fái ekki frið þótt það hafi tekið við fáinum milljónum frá spilltum fjármálastofnunum og spilltum einstaklingum.

Á pólitísk spilling þá hvergi a eiga athvarf lengur nema í skúmaskotum og verðsamráð má ekki einu sinni bera í tal í Öskjuhlíðinni?

Hvað er eiginlega að? Á spillingin enga vini lengur á Íslandi og er hún hvergi óhult?

Árni Gunnarsson, 27.5.2010 kl. 20:12

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, ég vísaði til þess að engar reglur eða lög hefðu verið brotin og engar sannanir lagðar fram um óeðlileg tengsl eða fyrirgreiðslu.  Þú hefðir árr að lesa betur, t.d. eftirfarandi kafla:

"Um fátt var meira rætt í aðdraganda kosninganna vorið 2009, eða fyrir aðeins einu ári, en þessa styrki frá árunum 2006 og 2007 og allir sem enn eru á þingi og þáðu þessa styrki á sínum tíma, endurnýjuðu umboð sitt frá stuðningsmönnum flokka sinna og síðan í kosningunum sjálfum og því er með ólíkindum, að nú sé hafin ný herferð gegn þessu fólki, án þess að nokkuð nýtt hafi komið upp vegna þessara styrkja, eða sýnt fram á óeðlileg tengsl við þá sem styrkina veittu, hvað þá að þingmennirnir hafi hyglað þeim sérstaklega."

Axel Jóhann Axelsson, 27.5.2010 kl. 20:33

3 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Þessa afsögn ber þó skoða með það í huga, að eins og stendur í yfirlýsingunni frá Steinunni, þá hvarflaði það ekki að henni að segja af sér, þegar kröfurnar í þjóðfélaginu um það voru sem háværastar.  Er þá gildari ástæða til afsagnar, þegar frambjóðendur flokksins, þrýsta á hana, korteri fyrir kosningar.

  Þjóðin hefur það "vald" að ákveða, hverjir sitja á þingi, á fjögurra ára fresti, reyndar með nokkrum undantekningum og eins er kosið til sveitastjórna á fjögurra ára fresti.  Þann tíma sem á milli kosninga er, hafa svo kjörnir fulltrúar til þess að sýna fram á það að þeir hafi verið traustsins verðir.  Reyndar má gera þarna undantekningu, ef að kjörinn fulltrúi, brýtur af sér í starfi á kjörtímabilinu, þá ber honum að segja af sér.

  Hér varð eins og allir hljóta að vita, efnahagshrun í okt 2008. Í ljósi þess hlýtur að mega spyrja, hvort að þeir ráðherrar, sem voru í ríkisstjórn og komu klárlega við sögu í aðdraganda hrunsins og sitja enn í embætti, ættu ekki að hugsa sinn gang.

 Össur Skarphéðinsson, var Iðnaðarráðherra í "hrunstjórninni" og varaleiðtogi Samfylkingar í stjórnarsamstarfinu. Össur tók við hlutverki Ingibjargar, þegar hún veiktist  og tók því þátt í því að halda Björgvini G. í myrkrinu og þar með taka ákvarðanir sem vörðuðu hans embætti að honum forspurðum.

 Jóhanna Sigurðardóttir var félagsmálaráðherra í "hrunstjórninni.  Jóhanna átti einnig sæti í ráðherranefnd um efnahagsvandann, sem stofnuð var vorið 2008.  Jóhanna ákvað líka upp á sitt einsdæmi að fella niður stimpilgjöld Íbúðalánasjóðs og rýmka reglur um lánshlutfall í þeim tilgangi að hækka fasteignaverð.  Þetta gerði hún, þrátt fyrir það að henni hefði mátt vera ljóst hvað væri í vændum, eða væru líkur til að gæti gerst. 
 Þessar aðgerðir Jóhönnu, juku fjölda afgreiddra lána frá Íbúðalánasjóði um rumlega 75%, síðustu þrjá mánuðina fyrir hrun, miðað við þrjá mánuði þar á undan.

  Hvert sem álit skýrsluhöfunda kann að vera um ábyrgð og vanrækslu manna í embætti, þá er slíkt álit aðeins leiðbeinandi og alls ekki endanlegur dómur.

 Þjóðin má svo annars rífast um það fyrir mér út í eitt, hvort að fólk, sem stundaði fjáröflun fyrir fjórum árum á löglegan hátt, eigi frekar að taka pokann sinn, fremur en fólk sem hafði bein áhrif á framvindu mála í aðdraganda hrunsins.

Kristinn Karl Brynjarsson, 27.5.2010 kl. 21:08

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Rannsóknarnefndin komst að þeirri niðurstöðu, að Ingibjörg Sólrún og þá væntanlega Össur, hefðu ekki gerst sek um vanrækslu í starfi vegna þess að þau voru að fjalla um mál, "sem þeim kom ekki við", þ.e. þar sem ríkisstjórnin er ekki fjölskipað vald, þá séu þau ekki ábyrg fyrir neinu, en hins vegar hafi Björgvin verið það, þar sem málin heyrðu undir hans ráðuneyti, en hin tvö héldu honum algerlega utan við alla ákvarðanatöku. 

Nú er nefnd Alþingis að fara yfir og ákveða hvort ráðherrum og þá hverjum, verði hugsanlega stefnt fyrir Landsdóm og þá hljóta að koma til skoðunar verk og verkleysi allra ráðherranna í "hrunstjórninni" og því hlýtur það að teljast nokkuð vafasamt að nokkur þeirra sitji í ráðherrastólum á meðan þessi mál verða rannsökuð af nefndinni.

Eins og þú segir, Kristinn, þá er rannsóknarskýrslan ekki dómur, heldur álit og því verður þingnefndin að skoða alla ráðherrana og ef einhverjir verða kallaðir til ábyrgðar, þá nái það líka yfir þá, sem voru að skipa sjálfa sig til að fjalla um mál, sem ekki heyrðu undir þeirra eigin ráðuneyti.  Það hlýtur að teljast óeðlilegt að bakarinn Björgvin einn verði hengdur fyrir smiðina Ingibjörgu og Össur.

Axel Jóhann Axelsson, 27.5.2010 kl. 21:26

5 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Nefndinni sem að á að fara yfir þessi mál öll, finnst meira máli skipta núna að "kyngreina" hrunið, fremur en hver eða hverjir báru ábyrgð. Þannig að ekki ber ég miklar vonir til vitrænnar niðurstöðu þeirrar nefndar.

Kristinn Karl Brynjarsson, 27.5.2010 kl. 21:36

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

Axel. Mér finnst þetta óeðliegt og ég hef alltaf haft andstyggð á svona peningaaustri í frambjóðendur. Og ég hef líklega oftar og lengur haft orð á því en flestir aðrir núlifandi menn!

Ég var afar ungur þegar ég tók mína fyrstu pólitísku afstöðu í þjóðmálum og jafnframt afar ungur þegar ég sá að flestir stjórnmálaflokkar voru handbendi hinna ýmsu hagsmunahópa. Ég hafði verið litinn hornauga af flokksbræðrum um nokkurt skeið áður en ég sagði skilið við Framsóknarflokkinn, þá langt innan við þrítugt.

Síðan þá hef ég leikið mér frjáls innan um pólitíska gæslufanga hinna ýmsu stjórnmálaflokka og tekið mér stöðu með þeim sem mér líst best á hverju sinni.

Ekkert veit ég aumkunarverðara í fari þokkalega skynsams fólks en þegar það er að ástunda flokkshollustu með hinum og þessum afsökunum eða beinum hugarórum til að þjónkast forystunni. 

Ég er meira að segja hættur að hlægja að barnaskapnum vegna samúðar með viðkomandi. Ég finn til núorðið með fólki sem lætur hafa sig að flóni til að þjóna foringjum.

En það er ekki öll spillingarnótt í tengslum við fjárhagslega fyrirgreiðslu til pólitíkusa úti enn.

Það er enn ráðrúm til að tryggja Gísla Marteini styrkjakóngi sæti í borgarstjórn.

Þó tæpt sýnist nú standa.

Árni Gunnarsson, 27.5.2010 kl. 21:45

7 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, þá erum við bara ósammála um hvað spilling er og hvað ekki.  Það er hæpið að flokka áratuga venju og aðferðir við kosningar undir spillingu, ef ekki er hægt að sýna fram á að lög hafi verið brotin eða styrkirnir misnotaðir á einhvern hátt.

Þegar þetta kerfi þótti hafa gengið sér til húðar var því breytt og lög sett um þetta efni.  Lög eru ekki afturvirk og því er ekki hægt að dæma aftur í tímann við lagabreytingar.

Þessi afstaða er ekki þjónkun við neina forystu, heldur bara sannfæring um að fólk skuli talið saklaust, þar til einhver sök er sönnuð.  Það er ekki nóg að finnast einhver hafa brotið af sér, ef ekkert er á bak við það annað.

Þess vegna tel ég þessa fortíðarstyrki ekki koma nútíðinni neitt við, reglurnar voru þessar áður, en aðrar núna.  Nú þarf bara að fylgjast með því að menn fari að þeim lögum og reglum sem í gildi eru, en ekki dæma fólk eftir tilfinningum um hvernig hlutirnir hefðu átt að vera í "gamla daga".

Axel Jóhann Axelsson, 27.5.2010 kl. 22:11

8 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Hvað öll þessi styrkjamál varðar, þá skulum við láta það liggja á milli hluta, hvað styrkirnir voru háir og hverjir fengu þá.  Við skulum heldur skoða eftirfarandi atriði:

1.  Fyrir kosningar vorið 2009, lágu þessar upplýsingar fyrir og þjóðin tók ákvörðun um að "treysta" nokkrum þessara styrkþega, með því að kjósa þá, eða flokkana þeirra.  Kjósendur hafa reyndar þann kost að strika yfir þá frambjóðendur, sem þeir vilja ekki á listanum, en sá sem fékk flestar útstrikanir, var að mig minnir, Björgvin G. og ekki var það vegna styrkja.

2. Styrkir þessir voru allir, eftir því sem best er vitað, aflað samkvæmt lögum og í takt við þau vinnubrögð sem tíðkast höfðu í áraraðir og í takt við þann tíðaranda sem að þá ríkti.  Fólk getur svo stundað eilífar hártoganir um það, hvort þessi tíðarandi, lög eða vinnubrögð, hafi verið á siðferðilegum grunni, eða ekki.

3. Þrátt fyrir það að allar upplýsingar varðandi styrkina hafi legið fram í eitt ár, hið minnsta, fram að birtingu skýrslunnar, þá voru ekki uppi kröfur um afsagnir, fyrr en skýrslan birtist. Mig grunar að þeir fjölmiðlar, sem hæst hrópuðu á afsögn, einstakra manna eða kvenna, eða þeir sem skrifa pistla á pistla á þessa miðla, stundi á einn eða annan hátt hagsmunagæslu fyrir einhvern þeirra útrásarvíkinga, sem bornir eru hvað þyngstum sökum í hruninu.  Birting á áður birtum upplýsingum um þessa styrki, í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, voru því vopn í höndum þeirra manna og sem barist hafa á hæl og hnakka fyrir hagsmunum, þeirra sem hruninu ollu og reynt hafa að gera hlut þeirra minni með því að benda á aðra.

4. Eins vissu allir vorið 2009 að þessi fyrirtæki sem veittu þessa styrki, komu mjög við sögu í atburðarásinni fyrir hrun og var því niðurstaða skýrsluhöfunda, eingöngu staðfesting á því löngu var vitað.

 Ég hef lengi haft lítið álit á Steinunni Valdísi sem stjórnmálamanni, en býst samt alveg við því að hún hafi oftast nær verið á "pari" við þau viðhorf og skoðanir sem að hún hefur og hún hefur verið kosin út á.  Flokkurinn hennar, Samfylkingin, skipaði hana formann Alsherjarnefndar, einn af forsetum Alþingis og varaformann þingflokksins, þrátt fyrir alla þessa vitneskju og samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn VG, féllst á þessa skipun í tvö fyrrgreindu embættin.  Það gerðu þessir tveir flokkar væntanlega vegna þess, að þeir töldu Steinunni hafa umboð kjósenda Samfylkingar, fyrst nógu margir strikuðu hana ekki út.

 Ég hef ekki ástæðu til að ætla en að aðrir þingmenn, sem á þessum styrkjalista eru, hafi eftir fremsta megni reynt að fylgja lífviðhorfum sínum og skoðunum í starfi. Lífsviðhorfum og skoðunum, sem þeir voru kosnir útá og gegna því embætti þingmanna fyrir sína flokka.

 Þegar Steinunn Valdís hverfur á braut, sest í hennar sæti á þinginu Mörður Árnason.  

 Er Mörður Árnason, þess verðugur að taka sæti hennar við þessar aðstæður?

 Ég spyr eftir stutta heimsókn á bloggsíðu Marðar á Eyjunni, þar sem hann meðal annars viðurkennir eða ætlast til þess að sæta ákæru fyrir að ráðast á Alþingishúsið og tekur þátt í því að hilma yfir með þætti forsætisráðherra í máli tengdu launum Seðlabankastjóra.

 Hér viðurkennir Mörður, eða krefst þess að sæta ákæru fyrir þátt sinn í árásinni á Alþingishúsið:

Ég hef skrifað undir áskorunina sem nú er á leiðinni til yfirvalda vegna máls nímenninganna, þótt þarmeð sé ekki tekið undir hvert stóryrði í textanum. Þeir sem skrifa undir telja sig jafnseka í „árásinni“ og hina níu sem nú koma fyrir rétt.

Kærðu mig líka, Ásta!

 Og hér kemur blogg hans í heild, þar sem að hann biður Má, Seðlabankastjóra um að setja ekki fulltrúa Samfylkingarnar í þá stöðu að þurfa að uppfylla loforð Forsætisráðherra um launakjör sín. Fyrir þá sem ekki muna, var tillaga um launahækkun Má til handa, flutt í bankaráði Seðlabankans, vegna loforða frá Forsætisráðuneytinu.

Þú hefur staðið þig frábærlega hingað til, góði seðlabankastjóri, og átt örugglega eftir að gera enn betur. Þegar þú tókst við starfinu voru hinsvegar tiltekin launakjör í boði – í meginatriðum taxti forsætisráðherra – á þeim kjörum réðstu þig til starfa á Íslandi og hjá Íslandi.

Við höfum því miður ekki efni á að hækka launin þín. Enda engin stórkostleg ástæða til.

Stundum verður bara að hlusta á Kennedy: Ekki spurja hvað landið þitt geti gert fyrir þig heldur hvað þú getir gert fyrir landið þitt. Maður með milljón á mánuði hefur að minnsta kosti alveg efni á því.

Svo máttu heldur ekki gera okkur í Samfylkingunni það að þurfa að fleygja fulltrúum okkar út úr stjórn Seðlabankans, þeim Láru V. Júlíusdóttur lögfræðingi og hinum kunna athafnamanni Birni Herberti Guðbjörnssyni. Nóg er nú samt með ýmislegt forystufé þessa dagana.

 Ég að þessu öllu sögðu ofansögðu, satt best að segja, veit ekki hvort að þessi þjónkunn við "órökstuddar" upphrópanir um afsagnir þingmanna, séu þegar allt kemur til alls, nokkuð til þess að auka veg og virðingu Alþingis.  Auk þess sem að í þessum mánuði, hafa forystu menn stjórnarflokkana, báðir orðið uppvísir af lygum. Jóhanna vegna Seðlabankans og Steingrímur vegna Magma Energy.

  Væri þessum áhugamönnum og konum ekki nær að "hrópa" á afsagnir þeirra, sem á svo áberandi hátt brjóta af sér í starfi, frekar en þeim sem safnað hafa styrkjum á löglegan hátt?  Ég bara spyr

Kristinn Karl Brynjarsson, 27.5.2010 kl. 23:20

9 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Varðhundar spillingarinnar eru heldur ekki með öllu tannlausir

Sigurður Þórðarson, 28.5.2010 kl. 00:30

10 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég tel mér reyndar það bæði ljúft og skylt að benda því fólki, sem les þetta blogg og fær hugsanlega ofurtrú á "heiðarleika" Samfylkingar og hugsar jafnvel að splæsa atkvæði sínu á flokkinn af því tilefni að benda á eina staðreynd.

 Það má alveg færa fyrir sterk rök, að þessi afsögn Steinunnar núna, sé fyrst og fremst sprottin af kröfu Hjálmars Sveinssonar og fleiri frambjóðanda Samfylkingar í Reykjavík.  Hjálmar birtir þeim kröfum til stuðnings, styrki Steinunnar og Dags B. Eggertssonar, oddvita Samfylkingarinnar, frá árinu 2006.  Þessar tölur Hjálmars halda þó varla vatni, því samanburður Hjálmars er "kolskakkur".  Dagur tók bara þátt í einu prófkjöri árið 2006, en Steinunn tveimur.

 Séu styrkir þeirra tveggja skoðaðir í því prófkjöri sem þau tóku bæði þátt í, þá fékk Steinunn 2,5 milljónir meira í styrki, en Dagur.

   Sé hins vegar heildarstyrkjum Steinunnar deilt niður á þessi tvö prófkjör, þá verður útkoman þessi:

Steinunn: 12,75 milljónir / 2 = 6,375 milljónir pr prófkjör
Dagur B Eggertsson: 5,6 / 1 = 5,6 milljónir pr prófkjör

 Þá munar varla það miklu að ætla megi að Steinunn, fremur en Dagur, rjúfi einhvern "siðferðislegan múr".

 Krefjast þá ekki Hjálmar og félagar ( aðrir en Dagur) þess að Dagur segi einnig af sér, eða var þessi "afsagnarkrafa" á Steinunni, bara "ódrengileg" aðferð til atkvæðakaupa?

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.5.2010 kl. 00:48

11 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það er hárrétt hjá þér, Kristinn Karl, að hljómurinn í afsagnarkröfu Hjálmars á hendur Steinunni Valdísi var nokkuð holur, þegar hann sagði að það væri mikill munur á 6 milljónunum hans Dags og 12 milljónunum hennar.  Eins og þú segir ber hann saman eitt prófkjör Dags og tvö Steinunnar, en prófkjörið árið 2006 var einmitt slagur á milli þeirra tveggja um efsta sæti Samfylkingarinnar fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006, sem Dagur vann með þessum tilkostnaði.

Ekki heyrir maður mikið talað um að Dagur ætti að segja af sér og enginn Samfylkingarmaður sýnist sjá neitt athugavert við hans framboð, í ljósi þeirrar umræðu sem er í gangi gagnvart öðrum, þar á meðal gegn Steinunni Valdísi, sem var einn helsti keppinautur Dags um embætti innan Samfylkingarinnar.

Eins og þú tekur undir, þá er þetta styrkjamál gamlar fréttir, sem ræddar voru fram og til baka og yfirgnæfðu nánast allt annað fyrir kosningarnar 2009 og því er langlíklegast að verið sé að afvegaleiða umræðuna núna í þeim tilgangi að leiða hana frá raunverulegum vandamálum, t.d. eignarhaldi á 365 miðlum, Högum og eigendum og stjórnendum þessara fyrirtækja og annarra banka- og útrásarræningja, sem áttu meginsök á hruninu, eins og rannsóknarnefndin tók svo skýrt fram í upphafi kynningar sinnar á efni skýrslunnar.

Af einhverjum dularfullum ástæðum hefur mestur tíminn eftir útgáfu skýrlunnar farið í að niðurlægja stjórnmálamenn, sem minnsta sök bera, en hinum hefur verið hlíft, sem sökina eiga (en að vísu ekki skuldlausa, frekar en annað).

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2010 kl. 08:30

12 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Margir sauðtryggir flokksmenn eru í vandræðum þessa dagana þá langar að gagnrýna spillingu í öðrum flokkum en sínum egin en átta sig á því að skamma stund verður hönd höggi fegin því athygli mun þá beinast að spillingu innan þeirra eigin flokks.  Jafnvel Raggnar Reykás gæti ekki ert þetta betur.

Sigurður Þórðarson, 28.5.2010 kl. 09:41

13 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, getur þú engan veginn rökstutt fullyrðingar þínar um annað fólk og komið með einhver málefnanleg rök fyrir skoðunum þínum.  Innihaldslaust gelt að fólki gefur einungis í skyn, að viðkomandi sé bara gjammari og þeir eru nú yfirleitt til ama og leiðinda.

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2010 kl. 10:00

14 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ef að einhvern tímann útskrifast hér "óháðir" fræðimenn, eða fræðimenn sem þora, þá gerir kannski einhver úttekt á þessari "afsagnarvakningu". 

 Þegar fyrsta mótmælastaðan við heimili stjórnmálamanns (Þorgerðar Katrínar), eftir útkomu skýrslunnar var, birtist  grein inná visir.is, þar sem greint var frá því að hópur fólks hefði safnast fyrir utan heimili Þorgerðar.  Þegar sú frétt birtist, taldi sá hópur, fjóra til fimm einstaklinga. Síðan mun eitthvað hafa fjölgað í hópi þessum og eitthvað fleiri mættu næsta kvöld við heimili Þorgerðar og síðar við heimili Steinunnar Valdísar og Guðlaugs Þórs, en hópar þessir töldu aldrei fleiri en 30- 40 einstaklinga hið mesta.  Síðan birtust viðtöl í Fréttablaðinu og DV við einstaklinga úr þessum hópi eða hópum, þar sem þessir einstaklingar, lýstu yfir því að það væri krafa þjóðarinnar að þessir "styrkþegar" ( mútuþegar) segðu af sér.  Með öðrum orðum, 30 til 40 manna hópur, tekur að sér að tala fyrir alla þjóðina og ákveða vilja hennar.  Hvorugur þessara miðla, lét t.d. gera skoðannakönnun, þar sem 800- 1000 manna úrtak úr Þjóðskrá var spurt, hvort einhverjir og þá hverjir ættu að segja af sér, vegna þessara styrkjamála, enda ekkert víst að slíkt hlyti stuðning, meirhluta þjóðarinnar og slík skoðannakönnun því ekki að þjóna tilgangi sínum.

 Ef að fólk man ennþá eftir Fjölmiðlafrumvarpinu, þá man fólk eflaust eftir því, gegn áhrifum hvaða einstaklinga, það var sagt vinna.  Fólk man þá örugglega eftir því hvaða miðla, þessir einstaklingar áttu þá og eiga enn og beittu þeim miskunnarlaust í baráttunni, gegn frumvarpinu.  Hvort sem það er tilviljun eða ekki, þá benda niðurstöður skýrslunnar til þess að þessir einstaklingar, sem eiga og/eða hafa áhrif í þessum sömu fjölmiðlum, sem börðust hvað harðast gegn Fjölmiðlafrumvarpinu, hafi valdið hvað mestum skaða í bankakerfinu og þar með þjóðfélaginu, í undanfara hrunsins.  Enginn þessara "styrkþega" er talinn hafa tæmt bankana, né aðstoðað eigendur bankana við þá iðju.

  Þessum sjálfkjörnu "fulltrúum þjóðarinnar", sem tóku það að sér að raska heimilisfriði fólks, með mótmælastöðu fyrir utan heimili þess, hefur hins vegar ekki dottið í hug að "raska" á einn eða annan hátt þeim "friði" sem að eigendum þessara miðla, er veittur í skjóli stjórnvalda, til að stunda sín viðskipti áfram og sinn "áróður" á þeim miðlum, sem þeir eiga, með samþykki ríkisbanka.

 Það er því ansi margt í þessari atburðarrás afsagnarkrafnana á hendur styrkþegum, sem svipar til þeirra aðferða, sem beitt var til þess að skapa andstöðu "þjóðarinnar" gegn Fjölmiðlafrumvarpinu og tilraunum dómsvaldsins að koma lögum yfir eigendur þessara miðla, um miðbik þessa áratugs sem er að líða.  Það hlýtur því að vera sanngjarnt að spurt sé, hvort "þjóðin" sé enn leidd á "asnaeyrunum" í þeim tilgangi einum að beina henni frá "kjarna" málsins, sem hlýtur að vera sá "þjóðarinnar" vegna, að koma í veg fyrir að stærstu gerendur í hruni bankana, nái aftur vopnum sínum og haldi áfram glæpsamlegu atferli sínu, í skjóli núverandi stjórnvalda.

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.5.2010 kl. 11:16

15 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Kristján Karl, það hefur margsýnt sig, að afar auðvelt er að spila á og snúa hjarðhugsuninni í þjóðfélaginu með miskunnarlausri notkun fjölmiðla.  Það sást vel með Fjölmiðlafrumvarpið, hatursáróðurinn gegn Davíð Oddssyni og nú síðast gegn stjórnmálamönnum almennt, þar sem sífellt er staglað á því að þeir séu upp til hópa glæpamenn og einskis nýt fífl. 

Sá áróður er nú að beina hjörðinni inn í leikhús fáránleikans í borgarstjórnarkosningunum á morgun.

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2010 kl. 11:36

16 Smámynd: Árni Gunnarsson

#15. Nú sýnist mér að Reykvíkingar séu samtaka við það átak að losa borgina við reynda stjórnmálamenn langra hnífa út úr braggatvíburunum í krikanum við Reykjavíkurtjörn.

Mun þá að vísu lækka til muna verð á hentugum hnífasettum.

Árni Gunnarsson, 28.5.2010 kl. 14:20

17 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Árni, þú ert þá sammála því að hjörðin láti reka sig í réttirnar af fáeinum smalamönnum, sem hafa góða smalahunda í sinni þjónustu.

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2010 kl. 14:42

18 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Það er athyglisvert að fylgjast með samfylkingarfólki raða sér upp í fylkingu þeirra, sem hylla Steinunni Valdísi, sem einhverja "sporgöngukonu".  Slík fylkingarmyndun, gæti kannski talist aðdáunnarverð, ef þetta sama fólk, benti ekki strax eftir hyllingu Steinunnar á aðra flokka. 

 Þessi fjáröflunnaraðferð, sem að   styrkirnir eru afsprengi  voru á sínum tíma, "eðlileg" og lögleg aðferð,  til þess að fjármagna framboð einstaklinga í prófkjörum og flokka í kosningum, á sama hátt og að á árunum sem að þegar ég var "lítill drengur", þá þótti það hvorki óeðlilegt, né ólöglegt að ég færi út að hjóla án hjálms. Núna er hins vegar bannað, að safna styrkjum með þessum hætti sem að gert var og þessi fjáröflunnaraðferð, ekki stunduð lengur í þeim mæli sem hún var stunduð.  Núna er líka bannað að börn undir 15 ára, að mig minnir, séu úti að hjóla, án hjálms.  Samt dettur engum það í hug að áfellast, foreldra "fortíðarinnar" fyrir það að hafa sent börnin sín út að hjóla án hjálms.

 Jóhanna kvartar undan því, um leið og hún hyllir "sporgöngu" Steinunnar, að spjótin berist um of að Samfylkingunni í þessu máli og fréttaflutningi þetta tiltekna mál.  Það verður samt að teljast eðlilegt að spjótin berist þangað, þar sem þessi "afsögn" er sögð, hluti af hreinsunnaraðgerðum þess flokks.   

 En hver skildi nú vera tilgangur þessara "hreinsunnaraðgerða" vera?   Misbýður Samfylkingunni, að styrkir vegna tveggja prófkjöra, skuli vera rúmar 12 milljónir, en þyki í lagi að styrkir, vegna eins prófkjörs skuli vera tæpar 6 milljónir? Eða misbýður Samfylkingunni "heimska" borgarbúa að ætla ekki að kaupa, stefnu flokksins í þessum kosningum og ákveður því að "fórna" peði, fyrir "erfðaprinsinn?

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.5.2010 kl. 15:14

19 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þessi ótrúlega klaufalega framganga Samfylkingarinnar "korteri fyrir kosningar" bendir einmitt til þess, að verið sé að gera lokatilraun til að bjarga erfðaprinsinum.  Af einhverjum dularfullum ástæðum hefur honum verið haldið nánast utan við þessa umræðu alla.

Hitt er svo annað mál, að "styrkþegarnir" margir hverjir hafa haldið ákaflega illa á sínum málum, því auðvitað átti aldrei að halda leyndu hverjir væru að styrkja hverja, þar sem þetta var viðtekin venja áratugum saman.  Þeir áttu strax að gefa upp hverjir stryrktu þá og um hvaða upphæðir, hafa þetta allt opið og gegnsætt og þá hefði væntanlega aldrei verið hægt að ýfa upp þennan spillingaráróður og nánast eyðileggja bæði kosningabaráttuna fyrir kosningarnar 2009 og svo aftur núna, en málefni komast ekkert að í umræðunni fyrir þessum gömlu styrkjum.

Það er sorglegt að fylgjast með þessari umræðu, því kosningar eru alvörumál og að stórum hluta verður að skrifa þetta á fjölmiðlana, því þeir hafa afgerandi áhrif á hvað er mest í umræðunni hverju sinni.  Þeir hafa algerlega brugðist í þetta sinn, eins og svo oft áður.

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2010 kl. 15:40

20 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Ég ætla ekki að dæma "Baugsmiðlana" (Stöð2 eða Bylgjuna), fyrir lítinn fréttaflutningum af málefnum kosningabaráttunnar, vegna þess að þem miðlum "ber" engin skylda til þess og auk þess, veit ég í rauninni ekki hvernig þessum málum er háttað á þeim miðlum, þar sem ég hvorki horfi né hlusta, nema tilneyddur.

 En þátttaka RÚV í umræðunni ætti að vera mun meiri, enda ber stofnuninni lagaleg skylda til þess.  Það sem að ég hef séð og heyrt af umræðunni í RÚV, er hluti af Silfurþætti 11. apríl sl., daginn fyrir birtingu skýrslunnar, þar sem umsjónarmanni þáttarins, þótti varla líkur til þess benda, að annar tími findist til þessar, tæpu sex vikur sem að þá voru til kosninga, vegna skýrslunnar og umræðunnar vegna hennar.  Ég held að ég hafi horft á alla Silfur-þættina, síðan þetta var og það segir kannski sitt, um hve mikilvæg mál voru rædd í þeim þáttum, að ég man ekki eftir því hvaða mál þau voru.

 Annar þáttur sjónvarpsins í umræðunni er að í nokkrum Kastljósþáttum, hefur verið hlaupið á hundavaði yfir stærstu sveitarfélögin, með 10 mínútna innskoti, í mesta lagi, þar sem mestur tíminn fer í að tala við íbúana um þeirra tilfinnigar og óskir vegna kosningana og svo lýkur umfjölluninni með því að oddvitar framboðana fá ca. mínútu til að kynna framboð sín og stefnumál.  Síðan mun svo Kastljósið í kvöld vera með leiðtoga framboðana í RVK í umræðuþætti.  Þar með er þætti sjónvarpsins lokið, er frá er talið fréttir af öðrum fréttum um frambjóðendur og stutt innskot, þar sem frambjóðendur, eru sýndir á "atkvæðaveiðum".

 Á Rás2 hefur morgun og síðdegisútvarpið verið sent út frá hinum og þessum stöðum vítt og breitt um landið, en það sem ég hef heyrt af því, eru það mest viðtöl við íbúa um það, hvernig það er að búa í viðkomandi sveitarfélagi, í stað þess að "fókusera" á það fólk sem er í framboði.  Fréttir útvarps af kosningunum, hafa svo verið í svipuðum dúr og fréttir sjónvarps.

Fjölmiðlar réttlæta,eflaust,  þetta áhugaleysi fyrir "vandaðri" umfjöllun með því að, fólk sé komið með nóg af stjórnmálamönnum, en það breytir því ekki að þetta fólk þarf að velja á milli þessara stjórnmálamanna sem að það hefur fengið nóg af, til þess að ákveða hver fari með stjórn mála í þeirra nánasta umhverfi, næstu 4 árin.

Kristinn Karl Brynjarsson, 28.5.2010 kl. 16:11

21 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Kæri Axel mér þykir leitt ef ég hef komið við viðkvæma taug en ég gat ekki stillt mig um smá stríðni þegar ég sá að þú hafðir orð á því hve fáir vissu af styrkjum Dags.  Spillingin er staðreynd, þú getur sjálfur séð það í Rannsóknarskýrslunni og það eru gífuryrði að kalla það fólk blóðhunda þó það vilji stemma stigu við henni með því að fara fram á afsögn þeirra sem frekastir hafa verið til fjárins.

Þurfa menn ekki að hefja siðvæðinguna yfir flokkslínur?

Sigurður Þórðarson, 28.5.2010 kl. 17:05

22 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Sigurður, ég tók þetta dæmi af Degi vegna þess að þessi "spillingarumræða" hefur alls ekki beinst að öllum, sem þáðu þessa styrki, heldur virðast nokkrir hafa verið valdir úr og hreinlega lagðir í einelti af blóðhundunum.

Lögum um fjáraflanir fyrir flokka, kosningar og prófkjör hefur verið breytt, það var reyndar gert fyrir rúmum tveim árum, þannig að síðan hefur ekkert verið um þessa stóru styrki.  Einnig hef ég verið að halda því fram, að á meðan ekki sannast að um óeðlilega fyrirgreiðslu hafi verið að ræða við þá, sem veittu styrkina, þá er ekki um spillingu að ræða, heldur var þetta viðtekin venja í kosningum í áratugi og eitthvað var siðferðisstigið öðruvísi þá, því allir vissu af þessu og gerðu ekki athugasemdir.

Séu komin upp ný siðferðisgildi, þá geta þau varla gilt afturfyrir sig, frekar en lög, þegar þeim er breytt.

Axel Jóhann Axelsson, 28.5.2010 kl. 19:03

23 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Axel, ég vona að þú sért sammála mér um það að þeir sem fara með almannahagsmuni hefðu átt að hafa vit til þess að þiggja ekki styrki í eigin vasa frá viðsemjendum ríkis og sveitarfélaga t.d. verktökum.  Á síðasta kjörtímabili þáðu kjörnir fulltrúar í Reykjavík stórfé í eigin vasa ekki einungis frá verktökum heldur aðilum sem leigðu borgini húsnæði eða keyptu af henni eignir.

Sigurður Þórðarson, 28.5.2010 kl. 21:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband