Eru ekki "nema" þrír milljarðar týndir?

Þann 15. ágúst 2008, aðeins einum og hálfum mánuði fyrir bankahrunið, birtust fréttir af viðskiptum á milli Pálma í Iceland Express og Jóns Ásgeirs í Bónusi, sem skiluðu Fons 80 milljörðum króna í hreinan hagnað.  Jafnframf fylgdi fréttinni, að þar með væri Fons orðið eitt sterkasta fjárfestingafélag landsins.  Frétt um þetta má t.d. sjá hérna

Átta mánuðum síðar var þetta eitt sterkasta fjárfestingafélag Íslands orðið gjaldþrota og verður að teljast með ólíkindum, að félagið skyldi geta tapað þessum 80 milljörðum, ásamt því fé sem það átti fyrir á svo stuttum tíma, en svo heppilega vildi þó til að Pálma tókst að koma öllum helstu eignum undan gjaldþroti Fons og rekur nú t.d. flugfélagið Asterus og ferðaskrifstofuna Iceland Express, eins og ekkert hafi í skorist.

Ekki munu hafa fundist miklar eignir í þrotabúi Fons og t.d. virðist ekki vera hægt að finna neina skýringu í bókhaldi félagsins á þriggja milljarða millifærslu til skúffufyrirtækis í Panama og voru peningarnir afskrifaðir í bókhaldi Fons stuttu fyrir gjaldþrotið.  Eingöngu það, að ekki skuli finnast eðlilegar viðskiptalegar skýringar á þessari millifærslu, hlýtur að vera brot á bókhaldslögum og þar með saknæmt athæfi, hvort sem peningarnir finnast nokkurn tíma aftur, eða ekki.

Ef þessir peningar hafa á endanum runnið í vasa Jóns Ásgeirs og annarra viðskiptafélaga Pálma, þá er það auðvitað stórkostlegt auðgunarbrot og vonandi finnst skýring á þessu öllu og sé um enn eina svikafléttu þeirra félagana að ræða, til viðbótar við önnur meint svik þeirra, þá verða þeir auðvitað að svara til saka fyrir þessar gjörðir allar.

Þetta vekur líka upp þá spurningu, hvort ekki þurfi að rekja öll viðskipti milli þessara kumpána í gegnum tíðina og finna út, hvað varð um 80 milljarða hagnaðinn, sem reyndar hefur að öllum líkindum aðeins verið bókhaldsbrella til að búa til veð, þannig að rán Glitnis innanfrá liti vel út í bókhaldi bankans.

Pálmi og Jón Ásgeir hafa alltaf haldið því fram, að þeir væru snillingar.  Eftir á að koma í ljós, í hverju mesta snillin var fólgin.


mbl.is RÚV: Þriggja milljarða leitað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það þarf kjark til að neita klofningi innan VG

Björn Valur Gíslason, þingmaður VG, harðneitar að nokkur ágreiningur sé innbyrðis á milli þingmanna flokksins, þrátt fyrir að Lilja Mósesdóttir, samþingmaður hans í VG, hafi sagt sig úr fjárlagahópi ríkisstjórnarinnar, einmitt vegna ágreinings við ríkisstjórnina vegna fyrirhugaðs niðurskurðar í ríkisfjármálum og skattahækkana.

Allir vita einnig um ágreininginn milli foringjanna í flokknum, þeirra Steingríms J. og Ögmundar og skiptingu flokksins í fylkingar að baki þeirra.  Nánast allir reikna með að fyrr eða síðar muni VG klofna í tvo flokka og jafnvel spurning hvað Lilja gerir, en hún hefur lýst yfir eindregnum stuðningi við tillögur Sjálfstæðismanna um skattlagningu séreignarsparnaðar við inngreiðslu í stað útgreiðslu, eins og nú er gert.

Til að hnykkja á samstöðunni í flokknum, sendir Björn Valur samþingmanni sínum, Lilju, tóninn með þessari setningu:  "Nú þarf bara að fara að taka ákvarðanir, þótt það muni reynast einhverjum erfitt.“

Samstaðan og einingin innan VG leynir sér auðvitað ekki í þessum orðum.


mbl.is Þarf kjark til að stoppa í gatið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Silvía Nótt og stjórnleysissúrrealistiskur Gnarrismi

Í gær setti upplýsingafulltrúi "Besta" brandarans fram ákveðna tengingu framboðsins við Silvíu Nótt, sem auðvelt var að skilja þannig, að hugmyndafræði framboðsins væri frá þeirri góðu konu komin, en í grein á DV.is kom þetta fram frá Gauki Úlfarssyni vegna gagnrýni á brandaraframboðið frá þeim óvandaða "álitsgjafa" Hallgrímí Helgasyni, rithöfundi og klappstýru útrásarvíkinganna: 

"Hallgrímur gagnrýndi frambjóðendur Besta flokksins fyrir að hafa ekkert gert á árunum fyrir hrun, og ekki hafi þau verið sýnileg í búsáhaldabyltingunni. Gaukur segist einungis geta tekið dæmi af sjálfum sér en hann hafi tekið þátt í búsáhaldarbyltingunni og svo megi ekki gleyma því að Silvía Nótt hafi verið hrein ádeila á hvernig íslenskt samfélag hafi verið fyrir hrun. „Silvía nótt sýndi þjóðina, gráðuga, andlausa og lausa við öll gildi sem að gott fólk þarf að hafa, þetta var ekkert annað en gangrýni á góðærið,“ segir Gaukur."

Frambjóðandi brandarans hefur mótmælt því að þessi tenging við Silvíu Nótt sé réttmæt, en í annars nokkuð kjánalegu viðtali við tímaritið Grapevine, lýsir Jón Gnarr stefnu sinni og framboðsins þannig (tekið úr lauslegri þýðingu Illuga Jökulssonar): 

"Ég hef sagt að Besti flokkurinn sé stjórnleysingja- og súrrealistaflokkur, og sameini það besta úr anarkismanum og súrrealismanum. Og þetta hefur alltaf verið mín pólitíska sannfæring, stjórnleysissúrrealismi. En ef ég færi nú og segði það á Stöð 2, að við værum anarkistaflokkur, þá myndi fólk líta öðruvísi á okkur. "Þetta er ekki Jón Gnarr, þetta er einhver brjálaður anarkistaflokkur," myndi fólk segja. Kannski stendur flokkurinn bara fyrir Gnarrisma?"

Þetta er semsagt sú stjórnmálastefna, sem ótrúlega margir virðast ætla að kjósa í komandi kosningum.

Í sjálfu sér er ekkert meira um það að segja, foringinn hefur sagt það sem segja þarf. 


Bloggfærslur 24. maí 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband