1.5.2010 | 22:56
Fáráðnleg krafa um eignaupptöku
Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB, setti í ávarpi sínu í tilefni dagsins fram fáráðnlegustu hugmynd, sem nokkur verkalýðsleiðtogi hefur látið frá sér fara, en það var krafa um að ríkið setti lög um eignaupptöku auðmanna, án þess að nokkrar sakir væru á þá sannaðar, hvað þá að þeir hefðu verið dæmdir fyrir nokkurn hlut.
Við hvaða eignamörk hún ætlaði að láta setja þessa heimild til upptökunnar kom ekki fram, en hún sagði m.a.: "Rætt er um að upptaka þessara eigna komi sterklega til greina, í hugum okkar BSRB félaga er það ekkert vafamál. Nauðsynlegt er gera ráðstafanir til þess að búa slíkri eignaupptöku, sem hluta af sáttargjörð í samfélaginu, viðeigandi lagagrundvöll. Fyrirheit stjórnvalda um að krefjast bóta frá þeim sem valdið hafa skaða verða að ganga eftir- það er krafa samfélagsins."
Er ekki lágmarkskrafa, að menn sem liggja undir grun um lögbrot, verði ákærðir og dæmdir, áður en farið er að tala um eignaupptöku? Þeir sem dæmdir verða, hljóta að fá háar sektir og dóma um miklar skaðabætur og að sjálfsögðu fylgir þá eignaupptaka í kjölfarið, borgi þeir ekki það sem þeir verða dæmdir til að greiða, og vafalaust verða illa fengnar eignir af þeim dæmdar. Umfram það á ekki að vera hægt að ganga að eignum manna.
Allar hugmyndir um aðrar eignaupptökur, en vegna ólöglera athafna, eru fáránlegar og spurning hvar þvílíkar aðgerðir eiga að enda.
Formaður BSRB ætti að láta sér kjaramálin nægja og skipta sér ekki af dómsvaldinu í landinu.
![]() |
Styðja upptöku eigna auðmanna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (19)
1.5.2010 | 10:20
Nú er komið að evrufræðingum að útskýra
ESB sinnar innan Samfylkingarinnar, en þar er þá aðallega að finna, hafa alltaf haldið því fram, að ef Íslendingar hefðu verið svo stálheppnir að vera hreppur í stórríkinu og hefðu haft evruna fyrir gjaldmiðil, þá hefði aldrei orðið neitt efnahagshrun hér á landi og Seðlabanki Evrópu, sem þrautavarabanki, hefði séð til þess að bankarnir hefðu aldrei farið á hausinn.
Í ljós hefur þó komið að margir bankar í Evrópu hafa farið á hausinn og ótölulegum fjölda þeirra hefur verið bjargað með gífurlegum framlögum úr ríkissjóðum viðkomandi ESB ríkja, en ekki hefur heyrst að Seðlabanki Evrópu hafi einn og sér bjargað nokkrum einasta banka. Eins hefur komið í ljós að mörg ESBríki, sem notast við evruna, eru í geysilega miklum fjárhags- og skuldavanda og það svo miklum, að þau eru í raun gjaldþrota og treysta nú á Þýskaland til að bjarga sér, enda stendur ESB og fellur með því efnahagsveldi.
Nú er röðin komin að evrufræðingum og ESBaðdáendum að útskýra þetta mál fyrir skilningsvana fólki, sem ekki hefur uppgötvað hinn eina sannleika um stórríkið, sem þessir sérfræðingar búa yfir. Til upprifjunar má nefna nokkur ríki, sem stórhætta er á að lendi í sömu vandræðum og Grikkland er nú að glíma við, en það eru t.d. Ítalía, Spánn, Portúgal og Írland, að ekki sé minnst á Eystrasaltslöndin, sem sum hver hafa gjaldmiðil sinn algerlega bundin við evruna.
Einnig verður fróðlegt að fá nánari skýringu á því, hvers vegna verðlag er ekki það sama í öllum löndum innan ESB og vextir misháir eftir löndum, en Íslendingum hefur alltaf verið sagt, að með innlimun í stórríkið muni verðlag í landinu snarlækka og vextir lækka niður í nánast ekki neitt. Í því sambandi má benda á að vextir í Grikklandi eru hærri en í Þýskalandi og ríkisskuldabréf Grikkja og margra annarra evruríkja eru með miklu hærri ávöxtunarkröfu á markaði en þýsk ríkisskuldabréf, ef bréf ríkjanna eru þá ekki þegar komin í ruslflokk og seljast alls ekki. Hverning yrðu hinir "samræmdu" vextir á Íslandi, eftir inngöngu og hvernig og hversu mikið myndi verðlag lækka?
Þó nafnið á þessum gjaldmiðli sé það sama, þá er evra í Þýskalandi alls ekki það sama og evra í Grikklandi, á Ítalíu, Spáni og Írlandi, svo dæmi séu tekin.
![]() |
Grikkir undir eftirliti AGS í tíu ár |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)