Nú er komið að evrufræðingum að útskýra

ESB sinnar innan Samfylkingarinnar, en þar er þá aðallega að finna, hafa alltaf haldið því fram, að ef Íslendingar hefðu verið svo stálheppnir að vera hreppur í stórríkinu og hefðu haft evruna fyrir gjaldmiðil, þá hefði aldrei orðið neitt efnahagshrun hér á landi og Seðlabanki Evrópu, sem þrautavarabanki, hefði séð til þess að bankarnir hefðu aldrei farið á hausinn.

Í ljós hefur þó komið að margir bankar í Evrópu hafa farið á hausinn og ótölulegum fjölda þeirra hefur verið bjargað með gífurlegum framlögum úr ríkissjóðum viðkomandi ESB ríkja, en ekki hefur heyrst að Seðlabanki Evrópu hafi einn og sér bjargað nokkrum einasta banka.  Eins hefur komið í ljós að mörg ESBríki, sem notast við evruna, eru í geysilega miklum fjárhags- og skuldavanda og það svo miklum, að þau eru í raun gjaldþrota og treysta nú á Þýskaland til að bjarga sér, enda stendur ESB og fellur með því efnahagsveldi.

Nú er röðin komin að evrufræðingum og ESBaðdáendum að útskýra þetta mál fyrir skilningsvana fólki, sem ekki hefur uppgötvað hinn eina sannleika um stórríkið, sem þessir sérfræðingar búa yfir.  Til upprifjunar má nefna nokkur ríki, sem stórhætta er á að lendi í sömu vandræðum og Grikkland er nú að glíma við, en það eru t.d. Ítalía, Spánn, Portúgal og Írland, að ekki sé minnst á Eystrasaltslöndin, sem sum hver hafa gjaldmiðil sinn algerlega bundin við evruna.

Einnig verður fróðlegt að fá nánari skýringu á því, hvers vegna verðlag er ekki það sama í öllum löndum innan ESB og vextir misháir eftir löndum, en Íslendingum hefur alltaf verið sagt, að með innlimun í stórríkið muni verðlag í landinu snarlækka og vextir lækka niður í nánast ekki neitt.  Í því sambandi má benda á að vextir í Grikklandi eru hærri en í Þýskalandi og ríkisskuldabréf Grikkja og margra annarra evruríkja eru með miklu hærri ávöxtunarkröfu á markaði en þýsk ríkisskuldabréf, ef bréf ríkjanna eru þá ekki þegar komin í ruslflokk og seljast alls ekki.  Hverning yrðu hinir "samræmdu" vextir á Íslandi, eftir inngöngu og hvernig og hversu mikið myndi verðlag lækka?

Þó nafnið á þessum gjaldmiðli sé það sama, þá er evra í Þýskalandi alls ekki það sama og evra í Grikklandi, á Ítalíu, Spáni og Írlandi, svo dæmi séu tekin.


mbl.is Grikkir undir eftirliti AGS í tíu ár
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góður pistill hjá þér Axel Jóhann.

Áróðusherferð ESB- trúboðsins á Íslandi frá því haustið 2008 gekk útá slagorðafrasann þeirra:

"ÞETTA HEFÐI ALDREI GERST HEFÐUM VIÐ VERIÐ Í ESB"

Þeir fóru mikinn og töluðu fjálglega um allt öryggið og um allt það slæma sem aldrei gæti komi fyrir undir stóru ESB regnhlífinni.

Allur þessi áróður þeirra er nú fallinn og ekki stendur mþar steinn yfir steini. Alveg þveröfugt þá hefur ESB apparatið sem aldrei fyrr afhjúpað alla sína veikleika og meingallaða regluverk, sem reynist mörgum þjóðum þess sem stórhættuleg tálsýn og efnahagsleg og félagsleg gildra.

Við ESB efasemdarmenn höfum ekki þurft mikið fyrir þessu að hafa því þetta hefur allt saman hellst yfir þá og þessir dómínó kubbar ESB valdsins eru nú að byrja hrynja yfir þegnanna. 

Svona rétt eins og þegar Sovétríkin sálugu molnuðu sundur.

Enginn furða að ESB trúboðið það litla sem eftir er af því, sé nú á hröðu og óskipulegu undanhaldi. 

Öll goðsögnin þeirra er hruninn og þeir standa eftir sem aðhlátursefni og sem einhverjir mestu lygalaupar Íslandssögunnar.

Persónulega þekki ég marga úr öllum flokkum sem algerlega hafa gengið af trúnni, sem betur fer fyrir land okkar og þjóð.

Einn fremsti ESB agentinn til langs tíma sjálf ISG vill nú draga ESB umsóknina til baka vegna fylgisleysis og einn sannfærðasti ESB yfirtrúboðinn til margra ára sjálfur Jón Baldvin Hannibalsson sagði nýlega daufur í dálkinn að sennilega gengi Ísland ekki í ESB í nánustu framtíð.

Undir þessi orð hans tók Æðsti prestur ESB trúboðsins á Íslandi sjálfur Eiríkur Bergmann Einarsson.

Þannig að við rekum þetta lið fyrir björg, það verður mikil þjóðarhreinsun fyrir land okkar og þjóð að losna við þessa óværu og þjóðar ófögnuð. 

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 11:03

2 identicon

Sæll Axel,

er ekki í samfylkingunni (né kaus þá) en ætla að reyna að útskýra hvernig evran virkar (virkar ekki)

1) Seðlabanki Evrópu sér um lausafjárstýringu evrusvæðisins. Eins og aðrir seðlabankar á hann ekki að bjarga skuldugum bönkum heldur að sjá til þess að vel stæðir bankar eigi nóg laust fé. Á móti tekur seðlabankinn veð í eignum bankanna. Íslensku bankarnir fengu lán hjá seðlabanka Evrópu og öðrum seðlabönkum (í gegnum önnur fjármalafyrirtæki reyndar) þangað til veðin þraut. Þeir hefðu því farið á hausinn hvort eð er, nema ef Evrópusambandið sem slíkt hefði lánað íslenska ríkinu fyrir björgun þeirra.  Svo er spurning hvað íslenska ríkið hefði gert Sjáum hvað gerist í Grikklandi.

2) Vextir eru ólíkir í löndum Evrópusambandsins vegna þess að ríkin reka sjálfstætt efnahagskerfi. Lönd með mikinn útflutning hafa nóg "gjaldeyri" og því nægt innstreymi fjár. þar eru því lágir vextir, fjárfestar í þessum löndum fjárfesta í framleiðsluiðnaði. Önnur lönd sem ekki hafa mikinn framleiðsluiðnað, reyna að hækka vexti í bankakerfi og á skuldabréfum til að laða fjárfesta að. Þessi lönd treysta þá á að geta endurgreitt þennan dýra "gjaldeyri" Ef það tekst ekki nema með lántökum verður viðskiptahalli.

Ísland fellur klárlega í seinni flokkinn ásamt Írum og Grikkjum. Þá er spurningin hver er munurinn á því ef Ísland safnar upp viðskiptahalla með krónu eða Evru...

a) Ísland er með krónu.  Það sem gerist til að rétta af viðskiptahallann er klassísk gengisfelling. Það veldur því að innflutningur hækkar í verði og verðlag hækkar því. Til að koma í veg fyrir að fjárfestar tapi eins mikið og almenningur er komið á verðtryggingu. Útflurningur örvast þar sem krónan er lægri , en þar sem margir erlendir fjárfestar færa sig burt vegna gengistaps vantar bönkunum pening. Til að halda þjóðfélaginu gangandi á sama stigi reynir seðlabankinn að prenta peninga handa bönkunum til að lána út. Það eykur svo aftur verðbólguna. Til að vega á móti henni og laða aftur að erlenda fjárfesta eru svo vextirnir hækkaðir aftur.

Kostir við leið a) eru: Einfaldast fyrir stjórnmálamenn sem fresta niðurskurði. atvinnustig helst þokkalega hátt. Sá sem borgar þetta er almenningur, þ.e. með hærri vaxtastigi og með verðtryggingu.

Gallinn við a) er augljós, þegar almenningur og fyrirtæki hætta að geta borgað hrynur allt. þess vegna verður að halda atvinnustigi háu, yfirleitt með dyggri hjálp ríkissins. fyrirtæki í slíku umhverfi verði yfirleitt verr samkeppnishæf.

b) Ísland er með Evru. það sem gerist við viðskiptahalla er að þjóðfélagið skortir peninga. Það er ekki að fara að gerast að Seðlabanki Evrópu sé að prenta seðla handa Íslendingum til að fjármagna viðskiptahalla. Ríkið á því val að taka fleiri erlend lán eða skera niður. Það er augljóst hvað gera má: Ef Ísland uppfyllir öll Maastricht-skilyrðin þá er í lagi að taka erlent lán. Ef skilyrðin eru ekki uppfyllt verður að skera niður. það þýðir aukið atvinnuleysi, en í staðinn verður tekið á skuldavandanum strax. Það kemur í veg fyrir áratugalanga uppsöfnun. Vextir yrðu alltaf hærri á Íslandi en annars staðar þar sem Ísland frameliðir ekki nægan gjaldeyri með framleiðsluiðnaði til útflutnings. þannig að verðólga og háir vextir yrðu áfram á Íslandi þrátt fyrir evru. Hins vegar færi verðtryggingin, en stöðuga atvinnuleysið yrði líklega hærra en undanfarna áratugi.

Ég persónulega tel betra að hafa Evru (leið b)) þar sem hún þvíngar fram aðhald og samkeppnishæfari fyrirtæki. einnig batnar umhverfið að því leyti að við losnum við verðtrygginguna. Í staðinn mun stöðugt atvinnuleysi hækka, allavegana eins og staða framleiðslugeirans og þjónustugeirans er í dag.

Gunnar Sigfusson (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 12:38

3 identicon

Gott innlegg Gunnar. Vandamál Grikkja er að þeir hafa alltaf rekið ríkissjóð með halla. Meira að segja í dag þegar það lítur allt út fyrir að þeir fari á hausinn ef þeir minnki ekki hallan flykkist fólk út á götur að mótmæla niðurskurði og aðhaldi. Grikkir halda að þeir geti eytt um efnifram og EU borgi hallan fyrir þá. Málið er bara að ef hallarekstur viðgengst legni, eins og í Grikklandi, þá endar allt með að fara á hausinn.

Ef menn kunna ekki að haga fjármálum sínum þá enda menn oftast á því að fara á hausinn, það skiptur engu máli hvað mynnt menn nota þá. 

Bjöggi (IP-tala skráð) 1.5.2010 kl. 12:49

4 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Þakka þér fyrir gott innleggg, Gunnar.  Þetta sem þú segir er að miklu leiti það sama og ég hef verið að halda fram hér á blogginu, það vantar ekki evru hér á landi, það vantar hagstjórn og hana hefur vantað frá lýðveldisstofnun.  Þess vegna er svona mikil viðvarandi verðbólga í landinu, ekki vegna krónunnar, sem slíkrar.

Það sem gerist hjá okkur við of mikla skuldasöfnun við útlönd, er að krónan fellur í verði og þannig minnkar kaupmáttur, þ.e. verðgildi launanna minnkar, en við venjulegar aðstæður hér á landi (ekki í hrunástandi eins og núna), helst atvinnustigið hátt og atvinnuleysi sáralítið.  Vextir eru og verða hærri hér, en erlendis, einmitt vegna þess að hér er minna fjármagn í umferð alla jafna, enda sáum við hvað gerðist þegar erlent fé streymdi inn í landið á lágum vöxtum.

Grikkland er með evru og getur því ekki fellt gjaldmiðilinn, en þarf þess í stað að draga saman á öllum sviðum, lækka ellilaun og skera grimmt niður í opinbera kerfinu, eins og við, og til viðbótar verða þeir að lækka laun á vinnumarkaði beint, þ.e. lækka tíma- og mánaðarlaun, þannig að almenningur þar verður ekki betur settur en Íslendingar, sem lækka í kaupmætti vegna gengisbreytingar.

Til viðbótar því sem þú segir um að viðvarandi atvinnuleysi verði miklu meira en venjulegt er á Íslandi, ef við værum í ESB og með evru, þá yrðu laun hér á landi miklu lægri en í iðnríkjum meginlandsins, verðlag yrði hærra og vextir svipaðir, eða hærri en þeir eru núna.

Þannig falla öll rök fyrir efnahagslegum ábata af inngöngu í ESB, þannig að tilgangslaust er að reyna að halda þeim á lofti, en hins vegar geta menn haft alls konar tilfinningar og drauma um samvinnu og vináttu í bland við ofurtrú á stóra bróður í Þýskalandi, sem rök fyrir því að fá að gerast hreppur í stórríkinu, en haldbær og vitræn rök fyrir því eru engin.

Axel Jóhann Axelsson, 1.5.2010 kl. 13:20

5 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

@Gunnar

"Kostir við leið a) eru: Einfaldast fyrir stjórnmálamenn sem fresta niðurskurði. atvinnustig helst þokkalega hátt. Sá sem borgar þetta er almenningur, þ.e. með hærri vaxtastigi og með verðtryggingu."

1.) Mergur málsins, taka upp €vru svo stjórnmálamenn þurfi ekki að vinna vinnuna sína sómasamlega, aumingjaskapur stjórnmálamanna sem er vandamál nr 1,2 og 3.

2.) Koma á atvinnuleysi, sem er verst allra meina, svo að stjórnmálamenn þurfi ekki að vinna vinnuna sína er atlaga að mannlegri reisn.

3.) Vextir verða alltaf hærri á Íslandi en á meginlandinu, draumar um Þýskalandsvexti af íbúðarlánum eru ekkert annað en draumórar.

4.) Allir launþegar ERU fjárfestar, skiptir ekki höfuð máli í hvorn vasann verðtryggingin rennur hjá launþegum,

     a) fyrir vertryggingu þá voru lán veitt í bankakerfinu og lífeyrissjóðakerfinu sem átust upp á mislöngum tíma eins og var fyrir 1980, lífeyrissjóðir höfðu stöðuga neikvæða ávöxtun og eru ekki færir um að sjá fyrir þessum sjóðsfélögum, þessir hópar, sem margir hverjir fengu lánin sín hreinlega gefins hjá lífeyrissjóðunum, ætlast til að kynslóðir sem ekki fengu þessa sérstöku meðferð, fjármagni lélegan lífeyri þessa fólks í dag með framtíðarskerðingu á sínum lífeyri. Nauðsynlegt að geta þess að ekki fengu allir þessa sérstöku meðferð en það réttlætir ekki að framtíðarkynslóðirnar eigi að borga þennan þjófnað.

     b) Ég er ansi hræddur um að þeir sem fjasast út í verðtrygginguna í dag myndu brjálast ef verðtryggingin væri afnumin og við tækju breytilegir vextir, þá sætu íbúðarkaupendur uppi með t.d 20% vexti í 15,5% verðbólgu og þessir vextir yrðu að greiðast STRAX t.d 40miljón krónu lán á 20% vöxtum = 8.000.000kr vaxtaafborgun á einu ári og þá á eftir að borga afborgun af láninu. Í því ástandi sem skapaðist þegar verðbólguskotið kom þegar kreppan hófst hefði sett 80% af almenningi með íbúðarlán á hvínandi kúpuna á "in no time".

     c) Vandamá Íslands Nr 1, 2 og 3 eru getulausir ábyrgðalausir siðspilltir gráðugir stjórnmálamenn sem eru uppaldir í siðspilltri smábæjarpólitík sem gengur út á að hygla frændum frænkum vinum  kunningjum sem skulda manni greiða "for live", almenningi sem horfir á í aðdáun á skattsvikara og þeirra sem liggja sem afætur á sameiginlegum sjóðum og auðlindum þessa lands, upprætum þetta og þá eigum við von sem sjálfstæð þjóð, við höfum ekkert að gera í ESB með allan þennan óþverra á bakinu enda lagast hið raunverulega vandamál ekkert þar eins og er að koma í ljós með Grikki.

Eggert Sigurbergsson, 1.5.2010 kl. 15:08

6 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Uppgjöf, það er ekki hægt að kalla ESB aðild annað. Það er hinsvegar ánægjulegt að sjá önnur rök frá ESB sinnum en "bull og vitleysa". Reyndar er ekki hægt að sjá annað en rök Gunnars Sigfússonar bendi eindregið til að ESB aðild sé ekki skynsamlegur kostur.

Hann bendir á þá staðreynd að þó við værum aðidarriki, þá stæðum við samt ein á báti. Þetta er rétt. 

Hann bendir á að hér yrðu að öllum líkindum hærri vextir en í sumum öðrum ESB löndum. Það er rétt.

Hann bendir á að með því að halda krónunni sé hægt að stjórna genginu og t.d. unnið gegn innfluttningi og til að halda uppi atvinnustiginu þegar illa árar. Þetta er rétt.

Einu rökin sem hann telur í raun til góða fyrir evru, eru að þá verði stjórnmálamenn undir þrýstingi til að stjórna efnahagsmálum af festu og skynsemi. Þetta er einnig rétt.

En hves vegna þurfum við að taka upp evru og fá yfir okkur aukið atvinnuleysi, til þess eins að stjórnmálamenn fari að vinna vinnuna sína? Eiga þessir menn sem við kjósum til að stýra landinu okkar ekki að gera það hvort eð er? 

Það er því ekki hægt að skilja ESB sinna öðruvísi en að þeir treysti ekki Íslendingum til að stjórna landinu, þar með talinn sá flokkur sem nú er búinn að vera við völd síðastliðin fjögur ár.

Það er því alger uppgjöf ef við göngum inn í ESB klúbbinn.

Gunnar Heiðarsson, 1.5.2010 kl. 17:36

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Það eru nú helst andsinnar sem halda því fram að evran leysi allan vanda á einhvern dularfullan hátt.  Eg hef séð fáa, ef nokkra, evrópusinna sem halda því fram.

Hinsvegar er alveg augljóst að evran mundi verða íslandi til hagsbóta.  Alveg borðliggjandi.  Að sjálfsögðu þarf agaða hagstjórn - og það er einmitt einn af kostum evrunnar fyrir ísland.  Hún myndi krefjast agaðari hagstjórnar sem svo sárlega hefur verið vöntun á.  Og má segja að evran hafi þegar sannað sig í agaðari hagstjórn evrópuríkja og hún hafi komið í veg fyrir krísur í sumum löndum.

Hún myndi einnig auka útflutning.  Það er næsta víst.

That said, þá er evran bara einn partur af þeim hagnaði sem ísland fellur í skaut við aðild að ESB.  Íslandi mun vegna best sem aðila að sambandi fullvalda lýðræðisríkja evrópu.  Og í rauninni er það svo fyrirsjánleg þróun að við erum að tala um tíma hérna.  Ekki hvort - heldur hvenær.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 2.5.2010 kl. 00:28

8 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

"Það eru nú helst andsinnar sem halda því fram að evran leysi allan vanda á einhvern dularfullan hátt.  Eg hef séð fáa, ef nokkra, evrópusinna sem halda því fram."  Þvílík öfugmæli, þetta er ekki einu sinni fyndið.

"Og má segja að evran hafi þegar sannað sig í agaðari hagstjórn evrópuríkja og hún hafi komið í veg fyrir krísur í sumum löndum."  Þessi öfugmæli eru hins vegar bráðfyndin í ljósi umræðunnar innan ESB sjálfs og stöðu Grikklands, Spánar, Portúgals, Írlands og fleiri landa á evrusvæðinu.

Kanntu fleiri svon góða, Ómar?

Axel Jóhann Axelsson, 2.5.2010 kl. 01:12

9 identicon

Spurninging er svo bara, hver ætlar að borga brúsann hjá okkur þegar það lítur út fyrir 100 milljarða fjárlagagat á næsta ári. Ef þetta heldur svona áfram, þá verðum við sem þjóð einnig fljótt gjaldþrota.

Bjarni (IP-tala skráð) 2.5.2010 kl. 04:47

10 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Bjarni, við borgum þann brúsa sjálf og erum þegar byrjuð á því með skattahækanabrjálæðinu, sem yfir þjóðina hefur dunið. 

Ríkisstjórnin treystir sér ekki til að spara í ríkisútgjöldum og því skulum við bara reikna með enn meiri skattahækkanaholskeflu um næstu áramót.

Á endanum greiðir enginn þennan halla, aðrir en Íslendingar sjálfir.  Í Grikklandi virðist eiga að taka á hallanum með grimmum niðurskurði ríkisútgjalda, en hér verður þetta aðallega fjármagnað með nýjum og stórhækkuðum sköttum.

Axel Jóhann Axelsson, 2.5.2010 kl. 08:24

11 Smámynd: Kristinn Karl Brynjarsson

Fjármögnunin upp í fjárlagagatið næst ekki hér á landi með þessari skattastefnu, því hún stuðlar ekki að vexti í atvinnulífinu og meiri veltu og hærri tekjum sem leiða svo til hærri skatttekna, án hækkunnar á sjálfu skattaálaginu.

Kristinn Karl Brynjarsson, 3.5.2010 kl. 01:17

12 identicon

þessi skattastefna á endanum fær fólk til að flýja land í umvörpum, það er þegar byrjað. og það fólk sem eftir er situr uppi með meiri byrgðar á bakinu sem aftur endar á því að yfirgefa skerið og það endar á því að það verður ekkert ísland lengur.

Þórarinn (IP-tala skráð) 3.5.2010 kl. 06:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband