Ribbarldarnir komnir aftur á kreik

Ekki var hægt að rétta í máli óaldarlýðsins, sem réðst inn í Alþingishúsið og slasaði þar starfsfólk, í Héraðsdómi í dag, vegna skrílsláta félaga hinna ákærðu og varð að kalla til lögreglu til að hafa stjórn á ólátabelgjunum.

Þessi lýsing er höfð eftir Ragnari Aðalsteinssyni, lögmanni ribbaldanna:  „Þetta er algjörlega nýtt. Samfélagið breytist ótrúlega ört úr þessu litla friðsama samfélagi í þetta óhugnanlega hörkulega samfélag, þar sem ofbeldið á að ráða öllu.“

Þó ótrúlegt sé, er verjandi innrásarmanna í þinghúsið, sem eins og áður sagði slösuðu þar starfsfólk, að tala um að lögreglan skyldi kölluð í dómshúsið en ekki framkomu og yfirgang "stuðningsmanna" skjólstæðinga sinna.

Óþjóðalýðurinn hlýtur að vera ánægður með svona verjanda.


mbl.is „Þinghald undir lögreglustjórn“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mótmæli og grín

Framboð Besta flokksins er tómt grín, eins og Jón Gnarr og aðrir frambjóðendur "flokksins" taka alltaf skýrt fram í öllum viðtölum við þá og til að byrja með var grínið gott, en er nú orðið ansi þreytt og verður hreinlega orðið leiðinlegt þegar kemur að kosningum.

Fylgi flokksins í skoðanakönnunum sýnir óánægju kjósenda með hrunið og framgöngu stjórnmálamanna í aðdraganda þess, sem ekki fær háa einkunn í rannsóknarskýrslunni.  Þessari óánægu veitir fólk útrás í skoðanakönnunum, en þegar í kjörklefann verður komið, mun fólk ekki grínast neitt með kjörseðilinn, enda kosningarétturinn helgari en svo, að heilu kosningarnar verði eyðilagðar vegna einhvers stundargamans.

Kjörtímabilið er fjögur ár og þegar horft er til baka, til fyrstu tveggja ára yfirstandandi tímabils og þess nánast upplausnarástands sem þá ríkti í borgarstjórn, mun enginn láta sér detta í hug að kjósa slíkt ástand yfir sig aftur.  Þess vegna verður því ekki trúað, að Besti flokkurinn fái mörg atkvæði talin upp úr kjörkössunum að kvöldi kjördags.

Svona grín getur verið dauðans alvara.


mbl.is Besti flokkurinn fengi fjóra kjörna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gengistryggð lán ekki sama og erlend lán?

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt skuldara í vil, í máli sem Landsbankinn höfðaði á hendur honum til innheimtu á "gengistryggðu" láni, þar sem upphaflegur höfuðstóll var tilgreindur í íslenskum krónum, sem síðan átti að "gengistryggja" miðað við jen og svissneska franka.

Dómarinn vísar í áður genginn dóm frá 12. febrúar s.l. og segir í sinni niðurstöðu, eftir að hafa rakið röksemdir fyrri dómsins:  "Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar."

Það atriði, að ekki mætti reikna annars konar verðtryggingu í stað gengistryggingarinnar, kom ekki fram í fyrri dómnum, en hefur valdið nokkrum heilabrotum síðan, þ.e. hvort lánveitanda myndi verða heimilt að setja verðtryggingu miðaða við neysluverðsvísitölu á lánin í staðinn fyrir "gengistrygginguna", enda hefðu bæði lánveitandi og skuldari ætlað að hafa lánsupphæðina verðtryggða með einhverjum hætti.  Þessi dómur kveður upp úr með það, að það sé alls ekki heimilt og upphaflegi höfuðstóllinn sé þar með algerlega óverðbættur og umsamdir vextir gildi einnig, þó gera megi ráð fyrir að þeir hafi verið mjög lágir, eins og var í flestum tilfellum "gengistryggðu" lánanna.

Tveir dómar hafa nú fallið á sama veg, um að óheimilt sé að gengistryggja lán, þar sem upphaflegur höfuðstóll er tilgreindur í íslenskum krónum, en ekki hafa ennþá fallið dómar, ef rétt er munað, vegna lána, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendum myntum.  Því verður ekki hægt að líta á þessa dóma, sem fordæmisgefandi vegna slíkra lána, þannig að nú verða allir að skoða vel afrit af skuldabréfum sínum og bílalánasamningum til að sjá hvernig þeir eru upp settir, til að sjá undir hvora skilgreininguna þeir falla.

Spennan eftir úrskurði Hæstaréttar vex með hverjum deginum sem líður.


mbl.is Ekki heimilt að gengistryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband