Gengistryggð lán ekki sama og erlend lán?

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt skuldara í vil, í máli sem Landsbankinn höfðaði á hendur honum til innheimtu á "gengistryggðu" láni, þar sem upphaflegur höfuðstóll var tilgreindur í íslenskum krónum, sem síðan átti að "gengistryggja" miðað við jen og svissneska franka.

Dómarinn vísar í áður genginn dóm frá 12. febrúar s.l. og segir í sinni niðurstöðu, eftir að hafa rakið röksemdir fyrri dómsins:  "Dómari þessa máls er í einu og öllu sammála þeirri niðurstöðu sem er svo skýrlega orðuð í þessum dómi.  Telur hann m.ö.o. að ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.  Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar."

Það atriði, að ekki mætti reikna annars konar verðtryggingu í stað gengistryggingarinnar, kom ekki fram í fyrri dómnum, en hefur valdið nokkrum heilabrotum síðan, þ.e. hvort lánveitanda myndi verða heimilt að setja verðtryggingu miðaða við neysluverðsvísitölu á lánin í staðinn fyrir "gengistrygginguna", enda hefðu bæði lánveitandi og skuldari ætlað að hafa lánsupphæðina verðtryggða með einhverjum hætti.  Þessi dómur kveður upp úr með það, að það sé alls ekki heimilt og upphaflegi höfuðstóllinn sé þar með algerlega óverðbættur og umsamdir vextir gildi einnig, þó gera megi ráð fyrir að þeir hafi verið mjög lágir, eins og var í flestum tilfellum "gengistryggðu" lánanna.

Tveir dómar hafa nú fallið á sama veg, um að óheimilt sé að gengistryggja lán, þar sem upphaflegur höfuðstóll er tilgreindur í íslenskum krónum, en ekki hafa ennþá fallið dómar, ef rétt er munað, vegna lána, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendum myntum.  Því verður ekki hægt að líta á þessa dóma, sem fordæmisgefandi vegna slíkra lána, þannig að nú verða allir að skoða vel afrit af skuldabréfum sínum og bílalánasamningum til að sjá hvernig þeir eru upp settir, til að sjá undir hvora skilgreininguna þeir falla.

Spennan eftir úrskurði Hæstaréttar vex með hverjum deginum sem líður.


mbl.is Ekki heimilt að gengistryggja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Theódór Norðkvist

Íslenska krónan er lögeyrir landsins samkvæmt lögum nr. 22/1968 um gjaldmiðil Íslands. Í athugasemd við það frumvarp sem varð að lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál segir auk þess:

Rétt er að vekja athygli á því að það fer eftir búsetu útgefanda hvort verðbréf eru flokkuð sem innlend eða erlend en ekki myntinni sem verðbréfið er gefið út í……

Svipað gildir um erlend lán. Í samræmi við notkun hugtaka í þessu frumvarpi er um að ræða erlent lán þegar innlendur aðili fær lán hjá erlendum aðila. Mynt lánsins ræður hér engu um.

Í þeim tilvikum, þegar innlendur aðili tekur lán hjá erlendum aðila og endurlánar lánsféð öðrum innlendum aðila, telst fyrra lánið erlent lán en hið síðara innlent.

Gunnlaugur Kristinsson löggiltur endurskoðandi skýrir þetta betur út hér. Það skal tekið fram að ekki hefur reynt á þessi lagarök, hvorki fyrir Héraðsdómi né Hæstarétti. Ég er samt viss um að þau myndu halda.

Annars er ánægjulegt að Héraðsdómur skuli staðfesta réttlát og sanngjörn rök sem mjög margir hafa haldið fram eftir úrskurðinn frá í febrúar:

Eini þátturinn í þessum lánasamningum sem var dæmdur ólöglegur er gengistryggingin. Aðrir þættir samninganna eiga að gilda óbreyttir, þar á meðal vaxtaákvæðin.  Oftast hinir svokölluðu LIBOR vextir, 3-4% óverðtryggt að sjálfsögðu.

Theódór Norðkvist, 1.5.2010 kl. 01:33

2 Smámynd: Axel Jóhann Axelsson

Það verður fróðlegt að fylgjast með dómsmlum um þau lán, þar sem höfuðstóllinn er tilgreindur í erlendum gjaldmiðlum, en ekki í íslenskum krónum, eins og "gengistryggðu" lánin.  

Ekki eru allir sammála í þessum efnum, frekar en öðrum, enda væri þá lítið að gera hjá lögfræðingum, sem endalaust geta túlkað lögin í allar áttir, þannig að enginn botn fæst í þau, fyrr en Hæstiréttur hefur kveðið upp hinn endanlega dóm.

Axel Jóhann Axelsson, 1.5.2010 kl. 09:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband