Jón Ásgeir er "traustur" lántakandi

Bandaríska tímaritið Time hæðist að einhverjum mestu og bestu banka- og viðskiptajöfrum þjóðarinnar (að eigin mati) á lýðveldistímanum.  Björgólfur Guðmundsson, Jón Ásgeir og Heiðar Már fá umsögn um sig, sem óvíst er að þeim sjálfum þyki réttlátar, eftir þær fórnir sem þeim finnst þeir hafa fært fyrir þjóð sína.

Svona var umsögnin um Jón Ásgeir:  „Þegar þú ert myndarlegur gaur sem selur fatnað, þá þarftu virkilega að klúðra málum til að fólk safnist saman á úti á götu til að mótmæla þér. Og fyrir fyrrum ástkonu þína að ræða um kynlíf þitt við réttarhöld í bókhaldsbrotamáli. Hvað sem því líður, þá mun enginn lána þér pening. Ekki einu sinni krónu."

Íslenskir bankamenn þekkja Jón Ásgeir miklu betur en þessir óláns skriffinnar hjá Times, því varla var búið að birta þessa dellu, þegar Jón Ásgeir var búinn að fá nýtt 440 milljóna króna kúlulán til tíu ára, óverðtryggt og með lágum vöxtum.

Bankamennirnir vita af langri reynslu hverjum er treystandi fyrir peningum og hverjum ekki.

Fólk getur sofið svo miklu rólegar, þegar það veit að íslenskum fjármálastofnunum er stjórnað af eintómum snillingum.

 

VIÐBÓT:

Að betur hugsuðu máli þá kemur maður því ekki heim og saman, að nokkur einasti aðili myndi lána Jóni Ásgeiri á þessum kjörum.  Þetta hljóta að vera heimatilbúin skuldabréf sem verið er að þinglýsa á fasteignir þeirra hjóna til að verjast kyrrsetningu fasteignanna og jafnvel að þegar og ef þær verða gerðar upptækar vegna t.d. skattaskulda eða sekta, að þá nýtist þessar 440 milljónir upp i greiðslu skattanna/sektanna.

Þetta er eina haldbæra skýringin á þessum veðsetningum.  Annað væri svo geggjað, að það er ekki ætlandi nokkrum fjármagnseiganda eða lánastofnun.


mbl.is Áhrifalitlir útrásarvíkingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er þjóðkirkjan að klofna vegna samkynhneigðar?

Prestastefna gat ekki komist að niðurstöðu um, hvort kirkjan skyldi styðja frumvarp dómsmálaráðherra um að ein hjúskaparlög skuli gilda fyrir alla, hvort sem um væri að ræða gagnkynhneigð eða samkynhneigð pör.

Óeiningin hefur greinilega verið mikil á prestastefnunni, þar sem 56 greiddu því atkvæði að vísa fyrirliggjandi tillögum til biskups og kenningarnefndar kirkjunnar, en 53 voru á móti því að þessir aðilar innan kirkjunnar fjölluðu nánar um málið, svo hægt væri að leggja það fyrir kirkjuþing í haust.

Fyrst ágreiningur er svona mikill innan prestastéttarinnar um málið, hlýtur að vera stórhætta á því að þjóðkirkjan klofni í tvær fylkingar, sem væntanlega mætti kalla hvítliða og svartstakka.  Séra Geir Waage er einn harðasti forystumaður svartstakka, en hann flutti tillögu á þinginu, sem við fyrstu sýn gæti bjargað þjóðkirkjunni frá því að klofna í herðar niður, en fréttin segir svo frá henni:  "

"Geir Waage, sókarprestur í Reykholti, lagði á móti fram tillögu á Prestastefnu um að beina því til Alþingis að létta af prestum Þjóðkirkjunnar umboði til þess að vera vígslumenn í skilningi hjúskaparlaga. Sagði Geir við mbl.is, að það myndi þýða, að prestar færu ekki lengur með hið lögformlega vígsluhlutverk. Fólk þyrfti þá formlega að gifta sig, t.d. hjá fógeta, en gæti eftir sem áður notið blessunar í kirkju óskaði það þess." 

Getur nokkuð bjargað þjóðkirkjunni frá klofningi vegna ágreinings um samkynhreigð, annað en að taka vígslukaleikinn af henni?

 


mbl.is Tóku ekki afstöðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hafa ESBsinnar ekkert um þetta að segja heldur

Vanalega þegar bloggað er um ESBskrímslið og efnahags- og skuldavanda þjóðanna sem mynda það, að ekki sé minnst á þegar evrunni er spáð skammlífi, hrúgast inn athugasemdir frá nytsömum ESBsinnum Samfylkingarinnar og mótmæla öllum slíkum ummælum hástöfum og reyna að skjóta allar spár um erfiðleika ESB ríkja í kaf, sem tóman þvætting.

Undanfarið hafa birst hver ummælina af öðrum, frá virtum hagspekingum austan hafs og vestan, um vanda ESB ríkjanna og galla evrunnar, en þá bregður svo við að ESBsinnar hafa algerlega horfið af bloggsíðum og engin rök virðast legnur tiltæk, til þess að mótmæla þessum "einangrunarsinnum", eins og ESBaðdáendur kalla alla, sem ekki eru á sama máli og þeir.

Noeriel Roubini, bandarískur háskólaprófessor, sem áður hefur spáð fyrir um fjármálakreppur, hefur nú bæst í hóp þeirra sérfræðinga, sem áhyggjur hafa af skuldavanda ýmissa ríkja og þá ekki síst stærstu hagkerfanna.  Hann segir m.a:  „Þótt markaðirnir hafi nú áhyggjur af Grikklandi þá er það land aðeins toppurinn á ísjakanum eða kanarífuglinn í kolanáminni en undirliggjandi eru mun víðtækari vandamál," sagði Roubini.

Hann sagði í samtali við Bloomberg, að Grikkir kynnu á endanum að neyðast til að yfirgefa evrusamstarfið. Það myndi leiða til gengisfalls evrunnar. Þá muni vandamál bandaríska ríkissjóðsins á endanum komast í sviðsljósið."

Íslendingar eru látnir halda, að erfiðlega gangi að fá erlend lán um þessar mundir vegna þess að fjármálagúrúar veraldarinnar hafi svo miklar áhyggjur af Icesave.  Líklegra er að þeir hafi litla sem enga vitneskju um það mál og lánatregðan stafi af miklu stærri og djúpstæðari vandamálum, sem heimurinn á við að kljást og almennt verði ekki mikið um laust lánsfé á næstu árum.

Hafa ESBelskendur ekkert um þetta að segja, eða eru engir eftir lengur?

 


mbl.is Roubini segir Grikkland aðeins toppinn á ísjakanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Engin lýðræðisást - baráttuþrekið þrotið

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður BÍ, dró framboð sitt til áframhaldandi setu, sem formaður félagisins, til baka í gær, einungis sólarhring fyrir aðalfund félagsins, sem haldinn verður í kvöld.  Samkvæmt fréttum undanfarna daga hafði ýmsum brögðum verið beitt gegn meðframbjóðandanum, m.a. með því að gefa í skyn að fjármál félagsins væru ekki í lagi og mótframbjóðandinn hefði óhreint mjöl í pokahorninu í þeim efnum.

Blaðamannafélagið er ekki stórt félag og ekki hefur farið miklum sögum af starfsemi þess á undanförnum árum, fyrir utan stóryrtar samþykktir og yfirlýsingar stjórnarinnar við ritstjóraráðningu á Mogganum, þó ekki hafi frést af slíkum samþykktum fyrr eða síðar, við yfirmannaskipti á nokkrum fjölmiðli öðrum.

Hvað sem líður innanfélagserjum í BÍ, þá er athyglisvert að formaðurinn skuli heykjast á framboði sínu daginn fyrir kosningarnar og bendir það til þess að frambjóðandinn hafi talið endurkjör sitt ólíklegt og því ákveðið að draga framboðið til baka, til þess að þurfa ekki að upplifa niðurlægingu, að eigin mati, eftir talningu atkvæða.

Það er enginn sérstakur mannsbragur að því, að gefast upp á síðustu metrunum í svona kosningum.

 


mbl.is Þóra Kristín hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábær borgarstjóri

Hanna Birna Kristjánsdóttir hefur staðið sig frábærlega í embætti borgarstjóra og ber höfuð og herðar yfir kollega sína, sem gegnt hafa embættinu á undanförnum árum.  Mikill órói og ósamstaða einkenndi störf borgarstjórnar árin áður en hún tók við, en eftir að hún settist í stólinn gjörbreyttust vinnubrögðin þar innandyra og mikil samvinna verið milli meiri- og minnihluta í borgarstjórninni.

Hanna Birna var í viðtali hjá Sölva á Skjá einum í kvöld og sýndi þar og sannaði með framkomu sinni og svörum, að þar er mikill leiðtogi á ferðinni og hugmynd hennar um "þjóðstjórn" í borginni afar athyglisverð, eða eins og hún sagði, þá er miklu skynsamlegra að fullnýta krafta allra fimmtán borgarfulltrúanna, heldur en að einhverjir átta myndi ávallt meirihluta og hinir sjö hafi nánast ekkert hlutverk, annað en að sitja og hlusta á meirihlutann.

Borgarbúar eru vel sæmdir af Hönnu Birnu í borgarstjórastólnum og vonandi bera þeir gæfu til þess að styðja hana til áframhaldandi góðra verka í borgarstjórnarkosningunum í vor.

Hún á það sklið og Reykvíkingar eiga það skilið.


mbl.is „Þjóðstjórn“ í borgarstjórn?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 29. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband