20.4.2010 | 23:51
Er þetta fólk ekki með réttu ráði?
Allt frá stofnun stjórnmálaflokka á Íslandi hafa þeir rekið starfsemi sína með betli um fjárframlög frá fyrirtækjum og einstaklingum og framan af voru þetta tiltölulega litlar upphæðir frá hverjum og einum, án þess þó að nokkrar reglur væru til um hámarksfjárhæðir slíkra styrkja.
Þetta var alkunn og viðurkennd leið til að reka starfsemi stjórnmálahreyfinga og þegar prófkjörin komu til sögunnar fóru frambjóðendur sömu leið til að fjármagna kosningabaráttu sína og betluðu styrki hvar sem hægt var að fá slíka fyrirgreiðslu og flest fyrirtæki létu eitthvað af hendi rakna til allra flokka og frambjóðenda. Styrkirnir voru smáir í sniðum á meðan allt var eðlilegt í þjóðfélaginu, en eftir að banka- og útrásarfyrirtækin komu til sögunnar og virtust ekki vita aura sinna tal, tóku þau að ausa háum styrkjum í allar áttir, jafnt til góðgerðarfélaga, stjórnmálaflokka og einstakra frambjóðenda.
Allir sáu að þetta var farið að ganga út í öfgar, eins og allt annað í þjóðfélaginu og þá gerðu flokkarnir með sér samkomulag um að setja 300 þúsund króna þak á styrki frá hverjum einstökum aðila, en létu ríkið taka yfir að fjármagna starfsemina að öðru leyti. Þetta fyrirkomulag tók gildi í lok árs 2006 og eftir það hafa þessi styrkjamál verið í föstu formi. Á tímum þeirra nornaveiða, sem nú tröllríða þjóðfélaginu eftir bankahrunið, þar sem reynt er að ræna alla stjórnmálamenn ærunni, vegna ásakana um að allt sem miður hefur farið sé þeim að kenna, þá eru þeir nú hundeltir, sem þáðu styrki til starfseminnar, sérstaklega ef þeir komu frá bönkum, eða útrásarskúrkum. Á þeim árum voru þeir aðilar reyndar í guðatölu í þjóðfélaginu og almenningur dýrkaði þá og dáði, jafnmikið og hann hatar þá nú.
Nornaveiðarar og mannorðsmorðingjar eru nú farnir að hanga fyrir utan heimili stjórnmálamanna, sem á sínum tíma þáðu fé til stjórnmálastarfsemi sinnar af þessum áður elskuðu aðilum og krefjast afsagnar þeirra vegna "mútuþægni", sem þó engar sannanir eru fyrir.
Þessir "mótmælendur" virðast vera fullorðið fólk, en varla getur það verið algerlega með réttu ráði, að stunda ofsóknir gegn einstaklingum, kvöld eftir kvöld, við heimili þeirra. Þetta er algerlega siðlaust athæfi og á ekki að líðast.
![]() |
Mótmælt við heimili þingmanns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
20.4.2010 | 19:27
Sammála Ólafi Ragnari - aldrei þessu vant
Þegar gosið hófst á Fimmvörðuhálsi lýstu ferðaþónustuaðilar yfri mikilli ángju með þetta "túristagos", enda virtist það ætla að verða mikil lyftistöng fyrir ferðaiðnaðinn og bókanir hrúguðust upp. Þessari Þórðargleði lauk þegar gosið fluttist í Eyjafjallajökul og aska fór að dreifast um nágrennið og með loftstraumum suður um Evrópu og setti allar loftsamgöngur heimsins úr skorðum.
Þá breyttist tónninn í forsvarsmönnum ferðamála og nú er mikið gert úr því, að gosið geti haft hin verstu áhrif á ferðamannastraum, enda hefst varla undan að taka við afpöntunum vegna áður fyrirhugara ferða til landsins.
Ekki hefur þessi skrifari verið hrifinn af Ólafi Ragnari í gegnum tíðina og nánast aldrei verið sammála honum, en ekki er hægt annað en að vera sammála honum um það, að ástæða sé til að vara umheiminn við hugsanlegu Kötlugosi, ekki síst eftir að komið hefur í ljós hve flugfélög og aðrir ferðaþjónustu aðilar eru berskjaldaðir vegna öskufallsins nú, en Katla gæti haft miklu meiri, verri og lengri áhrif en gosið í Eyjafjallajökli.
Líklega þyrfti að benda framleiðendum þotuhreyfla á að tími sé kominn til að endurhanna þá, með það að markmiði að þeir þyldu að fljúga í gegnum öskuský.
![]() |
Óábyrgt að draga fjöður yfir goshættuna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.4.2010 | 15:58
Staðfestir vafasama viðskiptahætti
Ragnhildur Geirsdóttir, fyrrverandi forstjóri FL-Group hefur með yfirlýsingu sem hún hefur sent frá sér staðfest ýmislegt, sem þó var talið víst áður, en það er að Hannes Smárason, þá stjórnarformaður FL-Group hafi upp á sitt eindæmi millifært þrjá milljarða króna út af reikningum FL-Group til Kaupþings í Luxemburg og að hún hafi séð skjal, sem benti til þess að peningarnir hefðu verið millifærðir til Fons, sem aftur notaði þá til að kaupa flugfélagið Sterling.
Pálmi í Fons keypti Sterling á fjóra milljarða króna og síðar flugfélagið Maersk fyrir lítið sem ekkert fé, jafnvel var talað um að hann hefði fengið greitt með því við yfirtökuna vegna skulda, sem á því hvíldu. Bæði félögin áttu við alvarlegan rekstrarvanda að stríða á þessum tíma og stefndu að óbreyttu í gjaldþrot.
Ekki verður séð að Pálmi hafi gert nokkurt krafaverk í rekstri félaganna á þeim fáu mánuðum, sem liðu þangað til hann seldi vini sínum Hannesi félagið fyrir fimmtán milljarða króna, en svo keypti Pálmi það reyndar aftur til baka tiltölulega stuttu síðar á tuttugu milljarða króna og ekki leið á löngu þar til Sterling varð gjaldþrota og Fons stuttu síðar, en þá hafði Pálmi náð að koma Iceland Express undan gjaldþrotinu og rekur nú það félag eins og ekkert sé í góðri samvinnu við endureistu bankana, enda virðast þeir telja hann einn þeirra, sem eigi "að njóta trausts".
Því sem menn vildu ekki trúa um þessa kappa áður, vegna þess hve lygilegt það var, fá nú daglega að heyra sannar sögur af þessum "viðskiptajöfrum" sem slá út öllu, sem hægt hefði verið að skálda um þá.
![]() |
Staðfestir millifærslu frá FL |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
20.4.2010 | 11:52
Einkavæðing er ekki sama og glæpavæðing
Þegar Landsbanki og Búnaðarbanki voru seldir á sínum tíma mynduðust engar biðraðir fyrir utan ráðuneytin af áhugasömum aðilum, sem ólmir vildu kaupa bankana. Leitað var með logandi ljósi að erlendum bönkum sem hægt væri að fá til að kaupa þó ekki væri nema annan bankann, en ekki einn einasti hafði á því nokkurn áhuga.
Að endingu var tekin "pólitísk" ákvörðun um að selja bankana til Samsonar og S-hópsins, en þó ákvörðunin hafi verið tekin af pólitíkusum, er það ekki það sama og ákvörðunin hafi ekki verið eftir öllum lögum og heimildum, enda kemur fram í fréttinni: "Steingrímur Ari sagðist ekki vera að halda því fram að lög hefðu verið brotin í tengslum við söluna. Ríkisendurskoðun hefði staðfest að ráðherrunum hefði verið heimilt lögum samkvæmt að víkja reglum til hliðar."
Í ljósi reynslunnar má auðvitað segja að það hafi verið mistök að selja þessum aðilum bankana, en það gat enginn séð fyrirfram, að þessir nýju eigendur myndu reka bankana eins og einkaspaibauka sjálfra sín og sinna og stunda að því er virðist hreina glæpastarfsemi í tengslum við rekstur þeirra og annarra fyrirtækja sinna.
Sala á einhverju til óheiðarlegra manna gerir seljandann ekki samsekan um glæp, sem kaupandinn kann að nota hið selda til að fremja.
![]() |
Þetta var pólitísk ákvörðun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
20.4.2010 | 08:41
Leynibankar
Eignarhald Arion banka og Íslandsbanka er að verða ein af stærri ráðgátunum núna á tímum opinnar og gegnsærrar stjórnsýslu, þar sem allt er uppi á borðum, en hverjir eigendurnir eru er svo mikið leyndarmál, að enginn í stjórnsýslunni virðist hafa hugmynd um hverjir þeir séu, eða hvaðan þeir koma.
Ábyrgð á rekstri þessara banka virðist hvergi vera, því bæði fjármála- og viðskiptaráðherra segjast ekki geta haft nein afskipti af rekstri þeirra og Fjármálaeftirlitið, sem skipaði skilanefndirnar, telur sig ekki hafa neinar heimildir til að skipta sér af málum þessara banka umfram aðra.
Nú segist Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður Viðskiptaráðuneytisins, vera að kanna hvort einhver geti upplýst um þetta eignarhald, en hann sé bara ekki viss um að nokkur viti það. Eftir reynsluna af eignarhaldi og rekstri gömlu bankanna, hefði mátt ætla að yfirvöld hefðu lært eitthvað af því dýra námi, að eignarhald bankanna og hvernig með það er farið, skiptir höfuðmáli.
Að því er virðist eru það skilanefndirnar sem öllu ráða um þessa tvo banka, rekstur þeirra og skuldaniðurfellingar til útrásarglæpona og síðast en ekki síst um launagreiðslur til sjálfra sín.
Allt ýtir þetta undir þá kröfu, að ný rannsóknarnefnd verði skipuð, sem hafi það hlutverk að fara ofan í saumana á verkum skilanefndanna og starfsemi nýju bankanna.
![]() |
Kanna hvort hægt sé að birta nöfn eigenda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)