Hvað ætti að valda óróa?

Ragna Árnadóttir, dómsmálaráðherra, hvetur fólk til að halda ró sinni og stillingu við útkomu skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, en ekkert kemur fram um, hvað ætti að valda einhverri sérstakri ólgu, umfram það, sem verið hefur í samfélaginu vegna bankahrunsins og afleiðinga þess.

Stöðugt hafa verið að síast út fréttir af framferði eigenda bankanna og lánveitingum þeirra til sjálfra sín, sem voru svo geðveikislegar og lítið í ætt við viðskiptavit, að fólk hefur orðið agndofa vegna þeirrar siðblindu þessarar manna sem afhjúpast betur og betur.

Þó fólk sé ekki orðið ónæmt fyrir þessum fréttum, er engin ástæða til að almenningur hafi ekki meiri stjórn á sjálfum sér en svo, að hann fari að æða út á götur og torg með skrílslæti og uppþot, þó út komi skýrsla, sem setur þessar gjörðir allar í samhengi og hverjir séu ábyrgari en aðrir fyrir því hvernig fór.

Aðeins brot almennings hefur það hugarfar, sem þarf til að fremja glæpi eins og þá sem skýrslan mun vafalaust afhjúpa og því ætti að vera lítil hætta á, að fólk flykkist út á götur til að aflífa sökudólgana.

 


mbl.is Fólk haldi ró sinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Árni Páll enn að "útfæra"

Árni Páll boðaði það með miklum hvelli fyrir rúmum mánuði síðan, að hann væri að ganga frá frumvarpi til laga um að lækka höfuðstól allra erlendra bílalána niður í 110% af matsverði bifreiðar, breyta þeim síðan í verðtryggð lán með 15% vöxtum, en aðeins ætti eftir að "útfæra" hugmyndina nánar.  Frumvarpið átti hins vegar að leggja fram í "næstu viku".

Stuttu síðar kom yfirlýsing frá Árna um að nú væri hann kominn í viðræður við bílalánafyrirtækin um erlendu lánin og gengju þær bara vel, en að vísu ætti eftir að "útfæra" lausnirnar á málinu, en von væri á niðurstöðu í "næstu viku".

Enn skeiðar Árni Páll fram á völlinn og segist búinn að vera í miklum og ströngum viðræðum við lánafyrirtækin, en þau hafi bara ekki efni á að afskrifa neitt, enda muni Deutse Bank stefna ríkinu, ef það neyði þessum afskriftum upp á sig, því það er þýski bankinn, sem á flestar kröfurnar og er þar að auki vanur því, að fá sín útlán endurgreidd og skilur ekki íslenska hugsunarháttinn um lántökur og endurgreiðslur þeirra.

Vænta má frumvarps frá Árna Páli í "næstu viku", þegar búið verður að "útfæra" hugmyndirnar.


mbl.is Lög sett um bílalán náist ekki samkomulag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þessu fólki er ekki viðbjargandi

Það bregst nánast aldrei, að þegar gefnar eru út viðvaranir um óveður og fólki ráðlagt að halda ekki til fjalla, jökla eða á hálendið yfirleitt, að þá bregst varla að kalla þurfi út björgunarsveitir til að leita að einhverjum, stundum rjúpnaskyttum, stundum göngufólki og stundum jeppa- og vélsleðafólki, sem álpast upp á jökla.

Það er minna hægt að hneykslast á útlendingum, sem þekkja ekki staðhætti og vita jafnvel ekki hvernig og hversu snögg veðrabrigðin eru oft, en þegar Íslendingar eiga í hlut, gilda engar afsakanir og liggur við að viðvörunum um óveður ætti að fylgja yfirlýsing um að ef fólk tekur ekki mark á þeim, þá fari það til fjalla á eigin ábyrgð og ekki verði haft fyrir því að kalla út leitarflokka.

Nú síðustu daga hafa glumið í öllum fjölmiðlum viðvaranir um óveður á gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi, en þrátt fyrir það er fólk að lenda þarna í vandræðum, eins og þessi setning úr fréttinni ber með sér:  " Að sögn lögreglu þurftu nokkrir frá að hverfa sem reyndu að komast að eldgosinu um Mýrdalsjökul í gær, vegna bleytu, krapa og slæmrar færðar."´

Erlenda göngufólkið, sem lætur fyrirberast í Baldvinsskála hefur líklega lagt í göngutúrinn áður en veðrið skall á og er ekki í sérstakri lífshættu, en þeim sem láta sér detta í hug að fara í bíltúr upp á jökul, eftir þær viðvaranir sem dunið hafa undanfarið, er ekki viðbjargandi og því ætti ekki heldur að gera neinar tilraunir til að bjarga þeim.


mbl.is Föst á Fimmvörðuhálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 11. apríl 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband