Það var lán í óláni að lánið var borgað með láni

Björgólfsfeðgar mótmæla því hástöfum, að þeir hafi ekki borgað lánið frá Búnaðarbankanum, sem þeir fengu í tengslum við kaupin á Landsbankanum, sem aftur lánaði S-hópnum til að kaupa Búnaðarbankann. 

Þeir segjast að sjálfsögðu hafa greitt þetta lán upp í topp á árinu 2005, en að vísu fengið annað lán svipaðrar upphæðar til að kaupa eitthvað allt annað, án þess að muna nákvæmlega hvað það var.  Þess vegna er upphalega lánið alls ekki í vanskilum, heldur er lánið sem var tekið til að koma gamla láninu í skil í vanskilum og þar sem svo vildi til, að heimsins óréttlæti setti allt batteríið á hausinn á haustdögum 2008, er hvorki hægt að borga þetta lán, né önnur, sem voru tekin til að borga einhver allt önnur og eldri lán.

Svona gengu öll viðskipti banka- og útrásarbraskara, þ.e. að lán voru tekin til "kaupa" á hverju sem var og sama hvað það kostaði og svo voru þau lán borguð með nýjum lánum, sem hækkuðu við hvern snúning, vegna þess að þá þurfti alltaf að lána líka fyrir áföllnum vöxtum og því hlóð boltinn alltaf utan á sig, við hvern einasta hring, sem hann skoppaði.

Það var mikið lán fyrir alla, þegar alltaf var hægt að fá nýtt lán og ólánið dundi fyrst yfir, þegar ekki fékkst neitt lán lengur og einhverjum datt í hug að ætlast til þess að lán yrðu borguð til baka.


mbl.is Samson greiddi lánið árið 2005
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gott ráð til Samfylkingarinnar

Austurrískir þingmenn á Evrópuþinginu virðast hafa talsverðar áhyggjur af því að varla fyrirfinnist lengur sá Íslendingur, sem áhuga hafi á að landið verði innlimað sem áhrifalaus smáhreppur inn í stórríki ESB.

Ernst Strasser, formaður þingflokks ÖVP, sagði að Evrópusambandið væri ekki í því að deila út gjöfum og ekki þýddi fyrir Íslendinga að leita til ESB eftir "jólagjöfum".  Vegna þessara ummæla, væri fróðlegt að fá það upp á "hreina borðið" hvort Samfylkingin hafi verið að sækjast eftir einhverjum "gjöfum" frá ESB, t.d. í sambandi við Icesave.

Hannes Swoboda, varaformaður sósíaldemókrata á Evrópuþinginu lýsti hins vegar yfir áhyggjum vegna fremur neikvæðrar afstöðu Íslendinga til ESB. Ef stemmingin á Íslandi breyttist ekki væri um tvennt að ræða, annað hvort héldu Íslendingar þjóðaratkvæði um hvort yfirhöfuð ætti að semja við Evrópusambandið eða viðræðum yrði hætt.

Þessi snilldarhugmynd kom upp á Alþingi, áður en umsóknin var send til ESB, en stjórnarflokkarnir felldu tillögu um að þjóðaratkvæðagreiðsla skæri úr um, hvort sótt yrði um eða ekki.

Nú þegar sama hugmynd kemur frá sósiademókratískum hugsjónabróður Samfylkingarinnar, ætti hún að taka hana til alvarlegrar athugunar.  Reyndar væri nóg að fara eftir seinni hluta tillögunnar, því óþarfi er í þessu tilfelli að fara út í þann "penignaaustur" sem þjóðaratkvæði er, eins og Steingrímur J. orðaði það, svo snyrtilega.

Þar sem Samfylkingin er sérstaklega veik fyrir erlendum herrum, hljóta heilræði þessa útlendings að falla í góðan jarðveg þar á bæ.


mbl.is Ísland vinni heimavinnuna sína
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tekur Steingrímur mark á þeim núna?

Nú hefur verið upplýst, að áður en skrifað var undir Svavarssamninginn, illræmda, þann 5. júní s.l., hafi öll stjórnarandstaðan og a.m.k. fimm þingmenn VG verið búin að tilkynna Steingrími J. að þau væru algerlega andvíg samningnum, eins og hann lá fyrir.  Þrátt fyrir að Steingrímur vissi, að samningurinn nyti ekki stuðnings meirihluta Alþingismanna, lét hann Svavar og Indriða samþykkja fjárkúgunarkröfurnar fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, enda var stjórnin þá þegar búin að sverja Bretum og Hollendingum hollustueiða.

Þessir sömu þingmenn VG hafa enn á ný komið þeim boðum til Steingríms, að þeir myndu ekki styðja neina nýja samninga óséða, þeir vilji þó halda viðræðum áfram, en muni ekki vera tilbúnir til að samþykkja hvað sem er, allra síst óséð.

Steingrímur J. tók ekkert mark á stjórnarandstöðunni og sínum eigin flokksmönnum í fyrra, sem leiddi til þess,  að ennþá er málið óleyst og þjóðin hefur hefur kastað Svavarssamningnum út í hafsauga í þjóðaratkvæðagreiðslu og þar með sent skýr skilaboð til kúgaranna, að hún muni ekki láta beygja sig í duftið fyrir erlendum ofbeldisseggjum.

Steingrímur hefur gert litið úr þjóðinni og hennar skoðunum opinberlega.

Mun hann hunsa skoðanir flokksfélaga sína áfram, á sama hátt og þjóðarviljann?


mbl.is Heita ekki stuðningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband