Mónakó að skapa sér samningsstöðu vegna Eiðs Smára

Eiður Smári er ánægður hjá Tottenham og hefur verið að styrkja stöðu sína hjá liðinu og Harry Redknapp, knattspyrnustjóri félagsins, er mjög ánægður með Eið Smára og vill halda Eiði áfram í sínum herbúðum.

Mónakó, sem virtist lítið geta notað Eið í leikjum liðsins, þykist nú vilja fyrir alla muni fá hann til baka og framtíð hans sé hjá þeim og þeir séu alls ekki til viðtals um nein tilboð í kappann.

Með þessu er Mónakó sjálfsagt eingöngu að reyna að skapa sér betri samningsstöðu gagnvart Tottenham, þar sem þeir sjá að bæði Eiður sjálfu og knattspyrnustjórinn eru hæstánægðir með frammistðuna hjá Tottenham og Eiður á hvergi betur heima en í enska boltanum.

Fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu og hvort Eiður verður lánaður áfram til Tottenham, eða seldur og þá á hvaða kjörum.

Hvað sem öðru líður er Eiður Smári kominn aftur í rétta gírínn.


mbl.is Mónakó vill fá Eið Smára til baka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það bráðvantar öryggisfangelsi, ekki nýtt fangahótel

Rætt herur verið um það í áratugi að reisa nýtt fangelsi, en alltaf hefur því verið slegið á frest og aðrir "brýnni" hlutir verið teknir fram fyrir.  Þetta kom ekki að mikilli sök á meðan íslenskir krimmar voru nánast eingöngu smáglæpamenn, sem aðallega stunduðu innbrot í fylleríi eða uppdópaðir, en voru í raun bestu skinn, sem lentu á glapstigum vegna óreglu.

Nú eru runnir upp aðrir tímar og íslenskir glæpamenn orðnir skipulagðari og harðskeyttari en áður fyrr og þar við bætist stöðug ásókn erlendra glæpagengja, sem sífellt láta meira til sín taka og líklega verður þess skammt að bíða, að vopnuð átök verði milli glæpahópa, eins og algilt er erlendis.  Sú harka sem farið er að bera á hjá glæpagengjunum innlendu og erlendu kallar á ný úrræði í fangelsismálum og erlendir glæpamenn sem fá á sig dóma hérlendis líta ekki á það sem refsingu, að vera vistaðir á Litla Hrauni, heldur sem þægilega hótelvist.

Það er stórhættuleg þróun að fá stór glæpagengi inn á Hraunið, því þróunin mun verða sú sama og annarsstaðar, að þau munu taka öll völd innan fangelsins og kúga aðra fanga og jafnvel fangaverði og þá styttist í að ástandið verði óviðráðanlegt.

Því er brýn nauðsyn á að hefjast handa nú þegar og byggja stórt og traust öryggisfangelsi eins og þau gerast rammlegust annarsstaðar, ef einhver von á að vera til þess að hægt verði að berjast við þá stórhættulegu þróun sem fyrirséð er á næstu árum í undirheimum landsins.

Í þessa byggingu verður að ráðast strax á þessu ári.  Öll bið getur orðið dýrkeypt.

 

 

 

 


mbl.is Lífeyrissjóðir fjármagni byggingu fangelsis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tími kominn til að segja sannleikann, allan sannleikann og ekkert nema sannleikann

Gylfi Magnússon, lausráðinn starfsmaður í Viðskiptaráðuneytinu, segist ennþá vera bjartsýnn um að önnur endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS fari fram í aprílmánuði, enda hafi fundur hans og Steingríms J. með Strauss-Kahn, AGSstjóra, verið afar "gagnlegur".

Strauss-Kahn hefur hins vegar sagt að ekki sé víst um stuðning meirihluta stjórnar AGS, nema búið verði að ganga að fjárkúgunarkröfum Breta og Hollendinga vegna Icesave, þó sjóðurinn setji engin skilyrði um frágang málsins, þá sé það nú samt skilyrði stjórnarmannanna, hvernig sem á að fara að því að túlka afstöðu stjórnarinnar öðruvísi, en sem afstöðu AGS.

Gylfi segist vongóður um að það takist að afla pólitísks og fjárhagslegs stuðnings í tíma, þannig að hann sé ennþá bjartsýnn á að AGS taki endurskoðunina fyrir í aprílmánuði, en segir ekkert um hvaðan sá pólitíski og fjárhagslegi stuðningur eigi að koma. 

Líklegt verður þó að telja, að Norðmenn séu að gangast inn á það að veita lán til Íslendinga, óháð hinum norðurlandaþjóðunum, enda er nú komið í ljós að lánsfjárþörfin er mun minni en upphaflega var talið.  Fyrir nokkrum dögum var því velt upp á þessu bloggi, hvort ný áætlun væri í raun að fæðast með stuðningi Norðmanna og má sjá þá færslu hérna

Eins og venjulega skýra ráðherrarnir ekki rétt frá því sem þeir eru að fást við og segja að minnsta kosti aldrei allan sannleikann.


mbl.is Gylfi enn bjartsýnn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kann Strauss-Kahn hvorki að segja satt, eða ljúga sennilega?

Dominiqe Strauss-Kahn hefur alltaf reynt að láta líta svo út, að AGS hafi aldrei sett nein skilyrði um að búið yrði að ganga að fjárkúgunarkröfunum vegna Icesave fyrir því að endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS gæti frarið fram, en hinsvegar væru það norðurlöndin, sem neituðu að standa við sín lánsloforð, nema Íslendingar samþykktu að gerast skattþegnar Breta og Hollendinga til næstu áratuga.

Nú birtist hins vegar eftir Strauss-Kahn algerlega óborganleg yfirlýsing um afstöðu AGS, en hún er svona:  „Ég hef alltaf sagt, að Icesave sé ekki skilyrði af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en við þurfum að hafa meirihluta í stjórn sjóðsins," hefur Bloomberg eftir Strauss- Kahn.  „Ef Icesave-deilan er leyst er ég viss um að slíkur meirihluti er fyrir hendi. Ef Icesave-deilan er ekki fullkomlega leyst veit ég ekki hvort það er meirihluti í stjórninni."

Sem sagt, AGS setur Icesave ekkert fyrir sig, en stuðningur við endurskoðunina fæst samt ekki, fyrr en Íslendingar gefast upp fyrir ofsækjendum sínum.  Þar með hefur Strauss Kahn afhjúpað sig sem mann sem hvorki kann að segja satt, né ljúga á sannfærandi hátt.

Það er ekki hægt að halda áfram samvinnu við alþjóðastofnun, sem stjórnað er af lygalaupum, sem ekki geta einu sinni sett lygar sínar fram á nógu sannfærandi hátt til þess að hægt sé að túlka þær sem stuðning.

Ísland þarf enga óvini á meðan það á norðurlöndin og AGS fyrir vini.

  


mbl.is Ísland kann að skorta stuðning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óþolandi samkeppni við bankana

Samkeppniseftirlitið skoðar nú 15 yfirtökur bankanna á fyrirtækjum, sem þeir hafa yfirtekið og halda áfram rekstri í fullri samkeppni við önnur fyrirtæki á markaði, sem oft eru viðskiptavinir sömu banka.  Slíkt er óþolandi fyrir þau fyrirtæki, sem komist hafa í gegnum allar þrengingar hingað til vegna varkárs rekstrar á "bullárunum", en þurfa nú að keppa við bankafyrirtækin, þegar eftirspurn er í lágmarki og útboðsmarkaður nánast dauður.

Gera veður ríka kröfu til að þessi "bankafyrirtæki" séu ekki að undirbjóða hin, hvorki í vöruverði eða með undirboðum á öðrum sviðum, því vonlaust er fyrir önnur fyrirtæki að keppa við fyrirtæki, sem hafa bankana sem rekstraraðila og grunur leikur á að fjármagni taprekstur þeirra í von um að úr rætist innan fárra ára.

Því verður að gera þá kröfu, að "bankafyrirtækin" séu rekin fyrir opnum tjöldum og birti uppgjör á þriggja mánaða fresti, sem verði aðgengileg, og rekstri þeirra verði hætt umsvifalaust, ef þau verða rekin með tapi í eðlilegri samkeppni við þau einkafyrirtæki, sem enn berjast fyrir lífi sínu með seiglu og hagsýni.

Eðlilegast væri að bankarnir styddu við bakið á viðskiptafyrirtækjum sínum með því að stuðla að sameiningu "bankafyrirtækjanna" við þau, með eðlilegri lánafyrirgreiðslu.  Þannig mætti ná fram miklum rekstrarsparnaði fyrirtækjanna, enda í mörgum tilfellum of mörg fyrirtæki að keppa á hinum litla markaði sem enn er til staðar.

Allt varðandi "bankafyrirtækin" verður að vera framkvæmt fyrir opnum tjöldum og rekstur þeirra má alls ekki verða til að drepa þau einkafyrirtæki, sem enn ná að halda í sér lífinu, þrátt fyrir erfiðan markað.


mbl.is Skoðar yfirtöku 15 fyrirtækja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband