17.3.2010 | 15:21
Þessar tillögur þarfnast nánari skýringa
Ríkisstjórnin er að kynna nýjar tillögur til aðstoðar við skuldug heimili og samkvæmt fyrstu frétt af þessum blaðamannafundi, þarfnast ýmislegt nánari skýringa, því sumar tillögurnar virka hálf einkennilega á mann við fyrstu sýn.
Í fyrsta lagi er sú arfavitlausa hugmynd að stofna nýtt embætti Umboðsmanns skuldara, þerar fyrir hendi er illa nýtt embætti Talsmanns neytenda, en undir það embætti ættu þessi lánamál að heyra, enda eru þau neytendamál.
Eftirtaldar tillögur virka einkennilegar, en þær eru:
hóflegar skuldbreytingar skattfrjálsar
stórfelldar niðurfellingar skattlagðar
dregið úr vægi verðtryggingar.
Eftir er að fá skýringar á því, hvað séu hóflegar og hvað stórfelldar niðurfellingar. Ekki virkar það vel á mann, að fólk, sem ekki ræður við að borga skuldir sínar, sé í stakk búið til að bæta í staðinn á sig "stórfelldri" skattaskuld.
Varðandi að leggja til að dregið verði úr vægi verðtryggingarinnar, hefði verið viturlegra til lengri tíma, að ríkisstjórnin legði til við sjálfa sig, að leggja áherslu á að draga úr verðbólgunni, enda er hún vandamálið, en ekki verðtryggingin.
Ekki eru komnar viðbótarfréttir af hringsnúningstillögu Árna Páls vegna Hummera og Range Rovera, en væntanlega skýrist þetta allt betur síðar.
Miðað við fyrri "afrek" þessarar ríkisstjórnar er ekki vert fyrir fólk að gera sér miklar væntingar.
![]() |
Dregið úr vægi verðtryggingar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (28)
17.3.2010 | 13:35
Mótsagnakennd rök Peningastefnunefndar
Peningastefnunefnd Seðlabankans réttlætir þá ákvörðun, að halda vöxtum í landinu áfram háum, m.a. með því, að ekki sé nógu greiður aðgangur að ódýru erlendu lánsfé. Á meðan erlendum lánum var ausið inn í landið, var röksemdin fyrir háum stýrivöxtum, að verið væri að reyna hemja eftirspurnina eftir lánsfénu, en auðvitað hafði það ekki áhrif, einmitt vegna þessa greiða flæðis erlends fjármagns inn í hagkerfið.
Nú segja spekingar Seðlabankans að vextir verði að vera háir, vegna þess að ekki fáist erlend lán, eða eins og segir í yfirlýsingu nefndarinnar: "Að því gefnu að gjaldeyrishöftin haldi mun töfin ekki hafa umtalsverð skammtímaáhrif á gengi krónunnar. Hins vegar væri áhættusamt að afnema gjaldeyrishöftin eða lækka vexti í stórum skrefum á meðan lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Norðurlöndum fást ekki, eða aðgangur að alþjóðlegum fjármálamörkuðum á viðunandi kjörum er ekki greiður."
Þetta hljómar eins og öfugmæli miðað við fyrri rökfærslur Seðlabankaspekinganna. Svo heldur yfirlýsing nefndin áfram, með öfugmæavísurnar, þegar hún segir: "Haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist, og verðbólga hjaðnar eins og spáð er, ættu forsendur fyrir frekari slökun peningalegs aðhalds að vera áfram til staðar. Svigrúm peningastefnunefndarinnar til vaxtalækkunar verður þó takmarkað meðan veruleg óvissa ríkir um aðgengi Íslands að alþjóðlegum fjármálamörkuðum."
Þetta eru vægast sagt þokukennd rök, því einmitt á meðan gjaldeyrishöftin eru við lýði og enginn kemst úr landi með peninga, hefði maður haldið að kjöraðstæður væru til að lækka vexti niður úr öllu valdi, til að reyna að koma þeim peningum, sem liggja aðgerðarlausir í bönkunum til vinnu úti í atvinnulífinu og reyna þannig að koma hjólunum til að snúast á ný.
Einnig væri það gjaldeyrissparandi, þar sem krónubréfabraskararnir fengju lægri vexti af bréfum sínum, en á vaxtagjalddögum hafa þeir heimild til að skipta vaxtatekjunum í erlendan gjaldeyri og flytja hann úr landi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2010 | 08:36
Háleynileg skýrsluprentun
Prentun á skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis fer einungis fram um helgar, til þess að almennt starfsfólk prentsmiðjunnar geti ekki með nokkru móti rekið augun í eitt einast orð, hvað þá lagt á minnið, sem í skýrslunni stendur. Um helgarnar er lágmarksfjöldi starfsmanna viðstaddur og hver hreyfing vöktuð af Securitas og prentarkirnar læstar inni í gámi jafnóðum og þær renna út úr prentvélunum.
Þetta eru allt að því eins miklar öryggisráðstafanir og viðhafðar eru við seðlaprentun og illskiljanlegt, að draga útkomu skýrslunnar fram yfir páska, einungis vegna þessa vantrausts á prentsmiðjustarfsfólkinu. Vel ætti að vera framkvæmanlega að prenta skýrsluna, undir ströngu eftirliti á venjulegum vinnudögum, enda lítil hætta á að hægt sé að lesa hana til nokkurs gagns, rétt á meðan að á prentuninni stendur.
Þar fyrir utan verður ekki séð, að það skipti máli þó eitthvað síaðist út um innihaldið einum til tveim dögum áður en hún birtist í heild, því þarna eru á ferðinni upplýsingar, sem allan almenning varðar og búið er að bíða eftir frá því í nóvember.
Það hlýtur að vera hægt að hætta þessu pukri og koma skýrslunni út á næstu dögum.
![]() |
Skýrslan tefst enn |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)