Nú ætti að sparka boltanum út af vellinum og flauta leikinn af

Hollendingar og Bretar segja, að boltinn í Icesave málinu sé hjá Íslendingum, eftir þjóðaratkvæðagreiðsluna, sem Jóhanna og Steingrímur j. sögðu að væri algerlega marklaus og peningaaustur.  Fjárkúgurunum hefur a.m.k. brugðið við úrslitin og þá hörku gegn kúgunartilraununumi, sem þjóðin sýndi með niðurstöðunni í kosningunum.

Fyrst ofbeldisseggirnir hafa nú gefið boltann frá sér og til Íslendinga, er auðvitað það eina rétta í stöðunni, að sparka boltanum út af vellinum og flauta leikinn af, enda nennir enginn að hafa þetta mál hangandi yfir höfði sér lengur, frekar en Svavar Gestsson og Indriði H., sem aldrei nenntu að standa í neinu þrefi og samþykktu alla skilmála kúgaranna strax í fyrravor.

Líki Bretum og Hollendingum ekki, að leikurinn verði flautaður af, þá geta þeir alltaf skotið þeirri ákvörðun til dómarans, sem þeir hafa að vísu aldrei viljað láta koma nálægt leiknum, því þeir vildu semja leikreglurnar sjálfir, enda verið spilað eftir þeirra höfði hingað til.

Nú loksins er tími dómarans runninn upp.

 


mbl.is Boltinn er hjá Íslendingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vaxandi skilningur íslenskra ráðamanna

Upp á síðkastið hefur farið að örla á vaxandi skilningi íslenskra ráðamanna á hagsmunum íslenskra skattgreiðenda í baráttunni gegn fjárkúgunartilraunum Breta og Hollendinga.  Það hefur að vísu tekið níu mánuði að síast inn hjá þessum ráðamönnum, aðallega Jóhönnu og Steingrími J., að Svavarssamningurinn var enginn samningur, heldur fjárkúgunarkröfur, sem Svavar nennti ekki að berjast gegn og Jóhanna og Steingrímur ætluðu síðan að láta Alþingi samþykkja, óséðar.

Í allt fyrrasumar var strögglað á Alþingi við að koma saman fyrirvörum við þá ríkisábyrgð, sem kúgararnir kröfðust og hafðist það að lokum í ágústlok, s.l., þrátt fyrir harða andstöðu flestra ráðherra ríkisstjórnarinnar.  Þar sem fjárkúgararnir áttu svo trygga bandamenn innan ríkisstjórnar Íslands, voru enn settar fram nýjar kröfur, sem meirihlutinn keyrði með offorsi í gegnum Alþingi, en öllum að óvörum nýtti forsetinn stjórnarskrána til að vísa málinu til afgreiðslu þjóðarinnar, sem auðvitað snerist öndverð gegn allri undanlátssemi við fjárkúgunarkröfum ofbeldisseggjanna.

Nú segir Össur, að skilningur sé að aukast á norðurlöndunum á málstað Íslendinga og helst það í hendur við skilningsauka íslenskra ráðamanna, sem aldrei virðast hafa talað máli þjóðarinnar á erlendum vettvangi, sem varla er von, fyrst hún hafði engan skilning á honum, fyrr en nú.

Skilningur Dana, Svía og Finna dugar hins vegar ekki til, því þeir bjuggu svo snilldarlega um hnútana, þegar þing þeirra samþykkti lánveitingu til Íslands í tengslum við endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS, að binda í samþykktir þinganna, að ekkert lán yrði veitt, fyrr en Íslendingar hefðu gengið að fjárkúgunarkröfum félaga þeirra í ESB.

Það er hinsvegar skref í rétta átt, að íslenskum ráðamönnum skuli vera að aukast skilningur á hagsmunum sinnar eignin þjóðar. 


mbl.is Sterkari skilningur en áður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vextir þyrftu nú að lækka niður í 2%

Greining Íslandsbanka spáir, að peningastefnunefnd Seðlabankans muni ekki lækka stýrivexti um nema 0,25-0,50% við vaxtaákvörðun sína, núna í vikunni.

Enn og aftur vekur það furðu, að í þeirri algeru stöðnun sem hér ríkir á öllum sviðum framkvæmda, skuli vöxtum ennþá vera haldið þeim hæstu í Evrópu, ef ekki í heiminum öllum og að Seðlabankinn skuli beita þveröfugum aðferðum við alla aðra Seðlabanka í vaxtamálum.  Nánast alls staðar annarsstaðar eru stýrivextir seðlabanka frá 0-2% og er það auðvitað gert til þess að örva efnahagslífið og halda hjólum atvinnulífsins gangandi.

Hér er borið við, að verðbólga sé ennþá há, en það skýrist nær eingöngu af skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar, sem dregur úr allri eftirspurn í þjóðfélaginu, sem aftur eykur vanda fyrirtækjanna og eykur atvinnuleysið.  Ef vel ætti að vera, ætti Seðlabankinn núna að snara stýrivöxtum sínum niður í 2% og innlánsvöxtum bankanna niður í 1%, sem yrði til þess að þeir færu að lána til arðbærra verkefna úti í þjóðfélaginu, en það gera þeir ekki á meðan Seðlabankinn greiðir þeim hærri vexti, en bankarnir geta fengið á almennum markaði.

Furðulegast af öllu er þó, að bera því við, að ekki sé hægt að lækka vexti hér innanlands vegna þess að ekki sé búið að leysa Icesave málið, því vandséð er hvernig sú fjárkúgunarkrafa getur haft áhrif á vexti í viðskiptum milli íslenskra aðila í íslenskum krónum, enda mun erlent fjármagn ekki flæða hér inn í landið, hvorki þó fjárkúguninni verði hrundið, eða undan henni látið.

Það eru ódýr rök, að halda vöxtum háum núna vegna verðbólgu, sem mun fara hratt niður, þegar áhrif skattahækkanabrjálæðisins verða að fullu komin fram, enda myndu lágir vextir við þessar aðstæður frekar leiða til enn hraðari lækkunar verðbólgunnar.

 


mbl.is Spá vaxtalækkun í vikunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. mars 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband