11.3.2010 | 19:41
Hafa Svíar ausið skattfé í Íslendinga?
Norðurlandaþjóðirnar hafa ekki þorað að viðurkenna, fyrr en alveg nýlega, að það séu þær, ekki síður en Bretar og Hollendingar, sem barist hafa gegn endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og AGS og þar með tafið allt ferlið um marga mánuði, með kröfu sinni um að Íslendingar gangist skilyrðislaust að fjárkúgunarkröfum ofbeldisseggjanna.
Norski utanaríkisráðherrann er örlítið að linast í sinni afstöðu, vegna þrýstings almenningsálitsins í Noregi, en engan bilbug er að finna á utanríkisráðherrum annarra norðurlanda, þeir eru ennþá jafn forhertir og svara út og suður, þegar spurt er um þeirra afstöðu til málsins.
Í sjónvarpsfréttum í kvöld var utanríkisráðherra Svía hortugastur af öllum og sagði blákalt, að Svíar væru búnir að ausa milljónum sænskra króna af skattfé til Íslendinga, fyrir utan það lánsloforð, sem gefið var og ekki hefur verið staðið við.
Fréttamaðurinn hafði auðvitað ekki rænu á, að spyrja ráðherrann nánar út í þessa stórmerkilegu yfirlýsingu, því aldrei hafa íslensk yfirvöld svo mikið sem gefið í skyn, að Svíar hafi veitt Íslendingum ríflega ölmusu af sænsku skattfé.
Þetta er svo merkilegt mál, að fjölmiðlar hljóta að vakna og upplýsa þetta, því ef þetta er ekki rétt, þá verður utanríkisráðherra Svía að éta þetta ofan í sig og þar með ómerkingur heita.
![]() |
Ósammála um lán til Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
11.3.2010 | 09:26
Eyðilegging samkeppnismarkaðar
Á verktakamarkaði hefur alltaf ríkt mikil samkeppni og hart barist um hvert verkefni, sem boðið er út. Svo hefur alltaf verið og meira að segja í góðærinu voru undirboð risanna á þessum markaði allsráðandi, því keppikeflið var að blása fyrirtækin út og þau tóku virkan þátt í gulldansinum, með því að ráðast sjálf í byggingar á alls kyns húsnæði, bæði íbúðum og atvinnuhúsnæði, rekin áfram af græðginni, sem gróðavonin af sölu eignanna magnaði.
Nú eru þessi stóru fyrirtæki flest komin að fótum fram vegna gífurlegra erlendra skulda, sem þau steyptu sér út í, á "lánæristímanum" og komin með neikvætt eigið fé upp á tugi milljarða króna, sem í öllum venjulegum skilningi þýðir einfaldlega gjaldþrot.
Nýlega bárust fréttir af því, að búið væri að "endurskipuleggja" Íslenska aðalverktaka og fólst sú "endurskipulagning" í því, að Arion banki situr uppi með tugmilljarða skuldir, en fyrri eigendur halda sínu í einhverskonar felubúningi. Enn berast fréttir af slíkri "endurskipulagningu" byggingarverktaka, nú Eyktar hf., en sú samstæða var með neikvætt eigið fé upp á tæpa tuttugu milljarða króna og ætti því samkvæmt öllum eðlilegum viðskiptalögmálum að vera búið að lýsa sig gjaldþrota. Það hefur samsteypan hins vegar ekki gert og tekur þátt í öllum útboðum sem bjóðast og býður oft svo lág verð, að önnur fyrirtæki á markaðinum geta alls ekki keppt við þau.
Ef til vill lýsir eftirfarandi málsgrein vel, þeim hugsunarhætti sem ríkir hjá mörgum þeim aðilum, sem bíða bara eftir tugmilljarða skuldaafskriftum hjá bönkunum, í þessu tilfelli Íslandsbanka:
"Pétur Guðmundsson, eigandi Holtasels ehf., segir í Viðskiptablaðinu stöðu félagsins og dótturfélaga þess vera fína. Verið sé að vinna að þeim málum sem þurfi að vinna að með viðskiptabanka samsteypunnar. Hann hefur ekki áhyggjur af stöðunni."
Ef hægt er að meta þessa stöðu fína, þá er það væntanlega vegna þess, að bankinn mun afskrifa skuldirnar og eftir það mun Eyktin hafa betri stöðu en nokkru sinni fyrr, til að undirbjóða aðra verktaka á markaðinum, sem ekki hafa fengið slíka "endurskipulagningu" fjármála sinna, enda farið varlegar í sínum rekstri, heldur en Íslenskir aðalverktakar, Eyktin og fleiri.
Svona "hreingerningar" í skuldasukki einstakra fyrirtækja enda á þann veg, að þau fyrirtæki sem hafa verið rekin á varlegan hátt, fram að þessu, verða rekin í þrot vegna þess að þau munu ekki geta keppt við "hreinsuðu" fyrirtækin í framtíðinni.
Í nafni sanngjarnrar samkeppni ætti að leysa þessi skuldafyrirtæki upp og gefa betur reknu fyrirtækjunum kost á að kaupa rekstur þeirra, enda engin sanngirni í því fyrir þau, að þurfa að keppa á hörðum markaði við fyrirtæki, sem í raun eru í eigu bankanna.
![]() |
Eykt skuldar 44 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.3.2010 | 00:07
Bjargar þá evran engu?
Í mörg ár hefur Samfylkingin reynt að telja fólki trú um, að ESB væri slíkt töfrabandalag, að umsókn um aðild, ein og sér, myndi auka svo traust og trúnað á íslensku þjóðarbúi, að hér færi að drjúpa smjör af hverju strái.
Þar fyrir utan hefur hún haldið því fram, að ekki nokkur einasti möguleiki gæti verið á efnahagserfiðleikum, hvað þá kreppu, ef Íslendingar kæmust í klúbb þeirra einstaklega heppnu ríkja, sem hafa evru sem gjaldmiðil. Sá gjaldeyrir væri slíkum eiginleikum gæddur, að varla þyrfti að hugsa um efnahagsmál því evran ein og útaf fyrir sig myndi vernda landið fyrir öllum áföllum.
Svo fóru að berast fréttir af því, að mörg lönd innan ESB, sérstaklega þau sem hafa tekið upp evruna, ættu í gífurlegum efnahagserfiðleikum og þar ríkti slík kreppa, að jafnverl íslensk kreppa, eftir bankahrun og allt sem því fylgdi, væri eins og hjóm eitt í samanburði. Samfylkingin hefur ekki getað gefið neinar viðhlýtandi skýringar á þessum ósköpum sem hrjá evrulöndin, aðra en þá sem Árni Páll Árnason gaf, en hann sagði að þessum löndum væri stjórnað af fíflum.
Ef evran ver þjóðirnar ekki gegn því, að þeim sé stjórnað af fíflum, er til lítils barist, því ef Íslendingar þurfa virkilega á einhverju að halda, þá væri það trygging fyrir betri stjórnmálamönnum.
Fyrst evran tryggir hvorki stöðugt efnahagslíf né skárri stjórnmálamenn, til hvers er þá barist?
![]() |
Munu skoða hugmynd um Gjaldeyrissjóð Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)