Gífurlega mikilvægt fyrir efnahag landsins

Útflutningur hins nýja álvers á Reyðarfirði var að verðmæti 74 milljarða króna og sýnir sú upphæð vel, hve drjúg búbót þetta fyrirtæki er fyrir íslenskt efnahagslíf.

Á síðasta ári nam verðmæti útfluttra iðnaðarvara, aðallega áls, í fyrsta skipti hærri upphæð en sjávarútvegur skilaði, því veðmæti iðnaðarvaranna var um 240 milljarðar króna, eða um 48% alls útflutnings, en sjávarafurðanna um 209 milljarar króna, eða um 42% alls útflutnings.

Þetta sýnir vel, hvað stóriðjan er farin að skipta gífurlega miklu máli fyrir íslenskan efnahag og hverslags skemmdarverk á honum þingmenn og ráðherrar VG eru að vinna, með því að spilla fyrir og tefja alla atvinnuuppbyggingu í landinu, ekki síst í orkufrekum iðnaði.

Það þyrfti að stefna Svandísi Svavarsdóttur fyrir rétt, til að fá endanlega úr því skorið hvort hún hafi ekki brotið gegn lögum og eðlilegum stjórnsýsluháttum með síðasta úrskurði sínum um skipulag vegna virkjana í neðri hluta Þjórsár.

Einnig gæti Alþingi borið fram vantraust á hana og ef eitthvað væri að marka þingmenn Samfylkingarinnar, myndu þeir greiða atkvæði með því. 

Það gæti verið leið til að koma einhverjum málum til að snúast, því þjóðfélagið þolir ekki þessa stöðnun lengur.


mbl.is Fluttu út vörur fyrir 74 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skýrslunni hlýtur að seinka ennþá meira

Rannsóknarnefnd Alþingis sendi í gær út bréf til þeirra, sem fá á sig ávirðingar í væntanlegri skýrslu nefndarinnar, þar sem þeim er gefið tækifæri til andmæla.  Andmælafrestur mun vera tíu dagar, en lílegt verður að telja, að margir muni sækja um viðbótartíma, til þess að semja varnarræðurnar, þannig að ekki munu þær allar skila sér í hús, fyrr en um, eða eftir, mánaðamótin febrúar/mars.

Upphaflega átti skýrsla rannsóknarnefndarinnar að koma út þann 1. nóvember s.l., en var síðan frestað til 1. mars n.k., en nú virðist útséð um að hún verði ekki tilbúin fyrr en í fyrsta lagi um miðjan mars.  Einhvern tíma mun taka nefndina að fara yfir andmælin og vinna úr þeim, sjálfsagt þarf að taka tillit til einhverra þeirra, en annarra ekki.

Steingrímur J., hafði áhyggjur af því, að ekki væri gott að fá skýrsluna stuttu fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave þrælalögin, þó þetta tvennt séu aðskildir hlutir, en nú virðast þær áhyggjur hans vera úr sögunni, þar sem ólíklegt er, að skýrslan verði tilbúin fyrr en eftir atkvæðagreiðsluna.

Líklega hefur verið ákveðið að bíða með að ljúka skýrslunni með tilliti til dagsetningar þjóðaratkvæðagreiðslunnar.


mbl.is Senda út athugasemdabréf
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tamdi sér lífsstíl útrásarvíkinga

Micahael Carrol, sorphirðumaður, vann stóra pottinn í breska lottóinu fyrir átta árum, en potturinn nam um tveim milljörðum króna.  Hann er nú kominn á atvinnuleysisbætur, því hann sólundaði öllum peningunum í lúxus, íbúðir, veislur, skartgripi, gjafir til góðgerðarfélaga og ættingja og í gleðikonur.

Þessi skjótfengni gróði, virkaði á Michael á nákvæmlega sama hátt og nýrýka íslenska banka- og útrásarskúrka, en þeir kepptu hver við annan í gjálífinu, með kaupum á lúxusíbúðum, snekkjum, flugvélum, þyrlum og bílum.  Þeir héldu dýrustu veislur, sem um getur og voru örlátir á styrki til góðgerðar- og menningarmála og ýmsar sögur fara af svalli og gleði í veiðiferðum þeirra í dýrustu laxveiðiám landsins.

Þó er einn meginmunur á Michael og sukkkollegum hans íslenskum, þ.e. hann sukkaði fyrir sína eigin peninga, en banka- og útrásarskúrkarnir fyrir lánsfé, sem þeir ætluðu sér aldrei að borga til baka, enda hafa þeir ekki gert það og lánadrottnar þeirra sitja eftir með þúsundir milljarða sárt enni.

Annar munur er sá, að Michael er kominn á atvinnuleysisbætur, en íslensku skúrkunum er haldið uppi af þjóðinni og nýju bönkunum og þeir halda flestum sínum eignum, eins og ekkert hafi í skorist.

Þetta er sem sagt dæmisaga um það, að það er miklu farsælla að sukka fyrir annarra manna fé, en sitt eigið.


mbl.is Vann tvo milljarða í lottói en er kominn aftur á bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lífeyrissjóðirnir ekki búnir að fá nóg af Jóni Ásgeiri í Bónus

Ágúst Einarsson, formaður stjórnar Framtakssjóðs, segir að vel komi til greina að kaupa verulegan hlut í Högum hf., en sjóðurinn var stofnaður af 16 lífeyrissjóðum til að taka þátt í endurreisn atvinnulífsins.

Nú hefur komið fram, að Hagar hf. sé ekki í neinni gjaldþrotahættu og skili þokkalegum arði, þannig að óskiljanlegt er með öllu, að aðstandendum Framtakssjóðs skuli yfirleitt láta sér detta í hug, að eyða stórfé til kaupa á hlutabréfum í því fyrirtæki.  Skuldavandi Baugsfeðga liggur ekki inni í Högum hf., heldur í 1988 ehf., en af því félagi mun Avion banki þurfa að afskrifa tugi milljarða króna, eins og hefur þurft að gera vegna allra fyrirtækja Baugsmanna, annarra en Haga, og nemur tap lánadrottna feðganna að minnsta kosti 700 milljörðum króna.

Stjórn Framtakssjóðs væri nær að halda sig við upphaflegan tilgang og fjárfesta í lífvænlegum fyrirtækjum, sem eiga í skuldavanda, en geta skapað mikla vinnu og helst gjaldeyristekjur.

Lífeyrissjóðirnir, eins og aðrir lánadrottnar, hafa tapað óheyrilegum upphæðum á viðskiptum sínum við Bónusliðið og því ættu þeir að beina sjónum sínum annað í þetta sinn.  Samstarf með þessum aðilum ætti að vera fullreynt.

Ef til vill á hér við, sem oft áður, að þangað leitar klárinn, sem hann er kvaldastur.


mbl.is Hagar vafalítið skoðaðir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 9. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband