Jafnast Kaupþing á við svikamyllu Madoffs?

Luxemborg hefur verið eitt lokaðasta bankaland heims og bankleynd svo ströng, að Luxemborg hefur verið draumaríki þeirra, sem hafa viljað fela peninga sína, hvort sem þeri hafa verið vel eða illa fengnir.  Frá Luxemborg hafa síðan legið þræðir til allra helstu peningafelustaðanna, svo sem til Tortola og annarra álíka fjármagnsfelustaða.

Ólafi Haukssyni, séstökum saksóknara, tókst að fá heimild yfirvalda í Luxemborg til að framkvæma leit í fyrrum höfuðstöðvum Kaupþings þar í landi, ásamt leit á a.m.k. einu einkaheimili, sem tengdist rannsókninni.  Aðeins einu sinni áður hefur slíkt leyfi verið veitt í Luxemborg og var það í tengslum við svikamyllu bandaríkjamannsins Bernards Madoffs, en viðskiptavinir hans töpuðu 65 milljörðum dollara á glæpum hans.

Að yfirvöld í Luxemborg skuli hafa heimilað leitina hjá Kaupþingi getur ekki bent til annars, en að Ólafi hafi getað sýnt fram á að hann væri að rannsaka meint svik Kaupþingsmanna, sem hægt væri að líkja við svik Madoffs, án þess þó að hægt sé að reikna með að hin meintu svik séu af sömu peningalegu stærðargráðu.

Húsleitirnar og samþykkið fyrir þeim, sýnir algerlega í hnotskurn hvaða mat lagt er á starfsemi íslensku bankanna fyrir hrun.

Sýnir þetta ef til vill, að í íslenska bankakerfinu hafi starfað margir jafokar Madoffs í fjársvikum?


mbl.is Svipað leyfi og vegna Madoffs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er réttarstaðan ótvíræð?

Björn Þorri Viktorsson, hrl., fagnar nýjum dómi héraðsdóms um gengistryggð lán, en dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ólöglegt væri að gengistryggja lán, þar sem höfuðstóllinn væri tilgreindur í íslenskum krónum.  Annar héraðsdómari hafði komist að þveröfugri niðurstöðu í sambærilegu máli í desember s.l.

Þrátt fyrir þennan tímamótadóm, sem verður áfrýjað til Hæstaréttar, telur Björn Þorri að lántakendur gætu hafa glatað réttindum, með því að gera ekki fyrirvara við lánasamningana, hafa samþykkt frystingu eða skilmálabreytingu lánanna.  Ef slíkar aðgerðir hafa rýrt réttarstöðu lántakenda, þá er þessi dómur sýnd veiði, en ekki gefin, því þorri lántakenda hefur gert einhverjar slíkar ráðstafanir með lán sín og væntanlega ekki margir, sem hafa gert það með því að árita fyrirvara á nýju pappírana.  Líklega hefur enginn tekið slík lán með því að árita fyrirvara á upphaflega lánasamninginn, enda hefði lánið þá líklega aldrei verið veitt.

Því vekja þessi ummæli Björns Þorra upp nýjum spurningum við þessi lánamál, til viðbótar við ýmsar aðrar spurningar, sem bloggað var um í morgun og má sjá hérna


mbl.is Sigur fyrir réttarríkið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vonandi finnur deCode markaðinn

Newsweek segir að deCode hafi verið árangursríkustu mistök í heimi, ekki vegna þess að fyrirtækinu hafi mistekist vísindaleg ætlunarverk sín, heldur vegna þess að því hafi ekki tekist að skapa tekjur úr mörgum merkum niðursöðum rannsókna sinna.

Ef til vill má rekja þessi rekstrarlegu mistök til upphafs fyrirtækisins, en þá var Hannes Smárason fjármálastjóri þess og hans helsta "afrek" var að tala upp gengi hlutabréfa fyrirtækisins, með þeim árangri að verð þeirra fór upp úr öllu valdi, sjóðir fyrirtækisins urðu digrir, en fljótlega féllu bréfin aftur í verði, þegar tekjur af rekstri létu standa á sér.

Hannes fór tiltölulega fljótlega frá fyrirtækinu og nýtti sér reynsluna af markaðssetningu þess, til þess að leika sama leikinn í fjölda annarra fyrirtækja, sem öll eru nú gjaldþrota, en sjálfur býr hann í lúxusvillu í auðmannahverfi London, án þess að nokkur maður viti hvaðan honum kemur fé til að fjármagna lúxuslíf sitt.

Líklega hefur sá gífurlegi sjóður, sem deCode áskotnaðist í upphafinu deyft skilning forystumanna félagsins á nausyn þess, að koma uppgötvunum félagsins í söluvænlegt horf, enda urðu tekjurnar aldrei miklar í samanburði við útgjöldin, enda varð félagið gjaldþrota, þegar sjóðina þraut.

Nú hafa nýjir fjárfestar komið inn í fyrirtækið, með nýtt fjármagn og bandarískan framkvæmdastjóra, með reynslu af rekstri á þessu sviði og verður það vonandi til þess að koma fyrirtækinu á nýjan rekspöl, sem treysti rekstur þess til frambúðar.

Kári Stefánsson hefur sannað sig á vísindasviðinu, en ekki sem rekstrarmaður, en nú verður vonandi breyting á, þegar hann fær góðan fjármálalegan framkvæmdastjóra sér við hlið.

Íslensk erfðagreining er geysilega mikilvægt fyrirtæki, sem skapar verðmæt störf, sem ekki standa annarsstaðar til boða á Íslandi og því bráðnauðsynlegt fyrir land og þjóð, að það nái að vaxa og dafna.


mbl.is Fjallað um deCODE í Newsweek
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mörgum spurningum ósvarað

Dómurinn, sem nýfallinn er í héraðsdómi, um að ólöglegt sé að binda lán í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla, er stórmerkilegur, ekki síst vegna þess að hann varpar ljósi á vankunnáttu og flumbrugang lánastofnana við lánveitingar.  Í lögum er þetta alveg skýrt, þ.e. að bannað sé að gengistryggja lán í íslenskum krónum, en hins vegar er ekki óheimilt að veita erlend lán, en það er tvennt ólíkt.

Í skuldabréfi þar sem tekið er fram að lántakandi sé að taka að láni ákveðna íslenska upphæð, er óheimilt að binda greiðslur við erlenda gjaldmiðla, en ef höfuðstóllinn er í erlendum gjaldmiðli, er eðlilegt að afborganirnar séu einnig í þeim sama gjaldmiðli.  Þetta tvennt er gjörólíkt, það fyrra ólöglegt, en það síðara löglegt.

Í tilefni af þessum dómi vakna margar spurningar, sem dómurinn sjálfur svarar ekki, þar sem einungis segir að gengisviðmiðunin sé ólögleg, en sjálfur lánssamningurinn ekki.  Er þá lánastofnuninni heimilt að endurreikna afborganirnar miðað við vísitölu neysluverðs, eða á að líta svo á að lánið sé algerlega óverðtryggt?  Hvað með vexti?  Væntanlega hafa vextir verið lægri á þessu láni, en venjulegum lánum í íslenskum krónum, allavega óverðtryggðum lánum.  Teljist lánið algerlega óverðtryggt, standa þá lágu vextirnir, eða er lánastofnuninni heimilt að endurreikna vextina, miðað við önnur óverðtryggð lán?

Þetta eru stórar spurningar, sem enn er ósvarað.  Þessum dómi verður örugglega áfrýjað til hæstaréttar, sem trúlega staðfestir hann.  Þá er líklegt að ný málaferli hefjist um aðra þætti, svo sem verðtryggingu og vexti.

Það verður spennandi að fylgjast með framhaldi þessa máls.


mbl.is Gengislánin dæmd óheimil
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 13. febrúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband