9.12.2010 | 14:59
Ný þjóðaratkvæðagreiðsla í mars 2011?
Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á málskotsrétti forsetans, þá var sá réttur nýttur í janúarbyrjun þessa árs með því að forsetinn neitaði Icesave-"samningi" Steingríms J. og annarra Bretavinnufélaga hans til afgreiðslu þjóðarinnar sjálfrar, sem afgreiddi málið á eftirminnilegan hátt þann 6. mars s.l.
Með afgreiðslu forsetans á málinu var málið komið í hendur þjóðarinnar og þar hlýtur það að vera ennþá, því svo afgerandi var niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar, að nánast verður að líta á það sem yfirgang og dónaskap gagnvart kjósendum, að koma nú enn einu sinni með "samning" um að hneppa þjóðina í skattaþrældóm til næstu áratuga fyrir erlendar yfirgangsþjóðir, jafnvel þó þær eigi samverkamenn og málsvara innan íslenska stjórnkerfisins.
Ríkisstjórnin hlýtur að fresta undirritun á þetta nýja plagg þar til þjóðin er búin að afgreiða það fyrir sitt leyti í kosningum, sem stjórnin hlýtur að boða til um málið fljótlega eftir áramót. Það hlýtur hún að gera sjálf og án atbeina forsetans að þessu sinni, enda var málinu vísað til þjóðarinnar og þar er það ennþá.
Ríkisstjórnin talar um það á hátíðarstundum að auka lýðræði í landinu og áhrif kjósenda á ýmis mál, sem til umfjöllunar eru hverju sinni og því er það ekkert vafamál að þessum nýja "samningi" verður vísað beint í þjóðaratkvæðagreiðslu án millilendingar á Alþingi.
![]() |
Hollendingar staðfesta samkomulag |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.12.2010 | 12:33
Hverjir ætla að lána eftir svikasamninginn?
Samtök atvinnulífsins hafa birt á vef sínum einskonar réttlætingu á stuðningi sínum við svikasamningana við Breta og Hollendinga, sem Steingrímur J., Svavar Gestsson og Indriði H. hafa í tvígang reynt að þvinga inn á íslenska skattgreiðendur, sem hrundu þeirri þrælasölu þjóðarinnar í eftirminnilegri atkvæðagreiðslu þann 6. mars s.l.
Meðal þess sem SA notar til að afsaka stuðning sinn við svikin, er að með því að selja Íslendinga í skattaáþján til erlendra kúgunarþjóða myndu allar gáttir opnast fyrir erlend lán til íslenskra fyrirtækja og erlendir fjárfestar myndu nánast standa í biðröð fyrir framan Iðnaðarráðuneytið til að fá að fjárfesta hérlendis.
Ekki verður hægt að taka mark á þessum skýringum SA nema samtökin nafngreini þær lánastofnanir sem bíða í óþreyju með lánsfé til að veita íslenskum fyrirtækjum um leið og Icesave-þrælaklafinn hefur verið bundinn um háls skattgreiðenda hér á landi.
Geti samtökin ekki sannað málflutning sinn með ábendingum og staðfestingu þessara erlendu lánastofnana, sem þau segja að muni ausa lánum inn í landið við frágang Icesavemálsins, verður ekki hægt að taka nokkurt einasta mark á þessum afsökunum þeirra fyrir stuðningi við fjárkúgun Breta og Hollendinga.
Samtökum atvinnulífsins væri nær að berjast fyrir því að ríkisstjórnin hætti að standa í vegi fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu, því engin hætta er á að fjármagn fáist ekki í arðbær verkefni, hvað sem svikasamningum við Breta og Hollendinga líður.
![]() |
Telja nauðsynlegt að leysa Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.12.2010 | 09:09
Skaðabætur frá Bretum?
Fundum samninganefndar Íslands vegna Icesave með Bretum og Hollendingum er lokið, samkvæmt tilkynningu Fjármálaráðuneytisins og mun samninganefndin kynna formönnum þingflokka stöðu mála seinna í dag.
Þar sem íslenskum skattgreiðendum ber alls ekki að borga fyrir skuldbindingar einkafyrirtækja og reyndar er það bannað samkvæmt tilskipunum ESB að skattar séu lagðir á vegna tryggingasjóða einkabanka, verður fróðlegt að sjá hver niðurstaða funda þessara nefnda hefur verið, því varla hefur það verið að brjóta reglur ESB og leggja byrðar á Íslendinga, sem þeim ber ekki að taka á sig.
Eina skynsamlega niðurstaða fundanna væri að íslensku nefndinni hefði tekist að ná samningum um þær skaðabætur sem Bretum ber að greiða íslensku þjóðarbúi vegna þess tjóns sem ráðamenn þeirra ollu með yfirlýsingum sínum um að Ísland væri orðið gjaldþrota og að beita síðan hryðjuverkalöggjöf sinni gegn íslenskum fyrirtækjum, stofnunum og hagsmunum í kjölfarið.
Sé tilgangur funda samninganefndarinnar með formönnum þingflokka að kynna slíka niðurstöðu, ber að fagna því, en sé svo ekki, hefði hún betur setið heima og sparað flugfargjöldin og gistikostnaðinn.
![]() |
Fundum um Icesave lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)