Voru bankarnir alger glæpabæli?

Kastljós sjónvarpsins fjallaði í kvöld ýtarlega um skýrslu franskra rannsakenda, sem Sérstakur saksóknari og Eva Joly fengu til að fara yfir rekstur Glitnis árin fyrir bankahrunið og samkvæmt henni er ekki annað að sjá, en að Glitnir hafi verið rekið sem hreint glæpafyrirtæki síðustu árin og hafi í raun verið orðinn gjaldþrota á árinu 2007, en líf hans verið framlengt með tómum blekkingum og svikum fram á haustmánuði 2008.

Ekki hefur verið nóg með að bankanum hafi verið haldið á floti með sviksamlegum aðferðum síðustu árin, heldur styður rannsóknin ljóslega við það sem vitað var áður, þ.e. að eigendur bankans og stjórnendur rændu hann innanfrá og komu ótrúlegum upphæðum á glæpsamlegan hátt til fyrirtækja í sinni eigu og eigin vasa.  Upphæðir sem eigendur hafa krafsað ofan í eigin vasa sýnast hafa numið milljörðum, eða tugmilljörðum króna, sem þessir stórglæpamenn hafa falið í hinum ýmsu bankaskjólum alþjóðlegra fíkniefnabaróna og annars glæpalýðs.

Kastljós boðaði jafnframt að á morgun yrði fjallað um skýrslur sem vörðuðu Landsbankann, sem sýndu að hann hafi í raun verið orðinn gjaldþrota á árinu 2007, eins og Glitnir, en verið einnig verið haldið á lífi með vafasömum hætti fram í október 2008.  Endurskoðendur virðast hafa verið samverkamenn bankanna um þessa svindlstarfsemi og ef það er á rökum reist, er það gífurlegt áfall fyrir þá sem treyst hafa á heiðarleika endurskoðenda og uppáskriftum þeirra á reikninga fyrirtækja.

Samkvæmt þessum skýrslum sem Kastljós hefur undir höndum, ásamt öðrum sönnunum sem hljóta að hafa hlaðist upp hjá Sérstökum saksóknara undanfarin tæp tvö ár, hlýtur að fara að verða grundvöllur til að taka höfuðpaurana fasta og setja í gæsluvarðhald, þar sem refsing fyrir þau glæpaverk sem þeir virðast hafa framið hlýtur að vera margra ára fangelsisvist.

Ef refsing fyrir glæpi sem til rannsóknar eru, er talin varða meira en tveggja ára fangelsi eru sakborningar nánast undantekningarlaust látnir sitja í gæsluvarðhaldi á meðan að á rannsókn máls stendur og dómur hefur verið kveðinn upp.  Má t.d. benda á morðrannsóknir sem dæmi.


mbl.is Segja að bókhald Glitnis hafi verið í molum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skríllinn aftur á ferðinni

Sá hluti þeirra sem stóð að mótmælum eftir bankahrunið og stundaði mestu skrílslætin við og í Alþingishúsinu þann 8. desember 2008, sem enduðu með ofbeldi og líkamsmeiðingum á að minnsta kosti einum starfsmanni þingsins, virðist vera kominn á kreik í enn eitt skiptið og enn á ný með dólgslæti á áhorfendapöllum Alþingis.

Skrifstofustjóri Alþingis kærði innrásina í þinghúsið á sínum tíma og rannsókn Ríkislögreglustjóra leiddi til ákæru á hendur níu af ofbeldisseggjunum og er kæran nú til meðferðar í Héraðsdómi Reykjavíkur, eins og landslög gera ráð fyrir, en ekki hefur heldur fengist mikill vinnufriður þar, við fyrirtökur málsins, fyrir skrílslátum þess rustalýðs sem segist vera "stuðningsmenn níumenninganna" og ætla sér að koma í veg fyrir eðlilega dómsmeðferð með ofbeldi og rustaskap.

Það er óskiljanlegt að þetta fólk skuli ekki sætta sig við löglega meðferð málsins fyrir dómstólum, fyrst niðurstaða rannsóknaraðila var sú að allt útlit hefði verið að framin hefðu verið lögbrot í þinghúsinu.  Héðan af kveður enginn endanlega upp úr með sýknu eða sakleysi nema dómstólarnir.  Fari svo að sakborningar sætti sig ekki við niðurstöðu íslenskra dómstóla er það þeirra réttur að geta vísað málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. 

Dómur um sekt eða sakleysi varðandi skrílslæti og ofbeldi verður a.m.k. ekki kveðinn upp með ennþá meiri skrílslátum og ofbeldi.

 


mbl.is Tvö ár frá uppþoti á Alþingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Velferðin lækkuð - bensínið hækkað

„Það er ekki hægt að kalla það nýjar hækkanir eða sérstakar álögur, að þessi gjöld fylgi verðlagi,“ sagði Steingrímur J. aðspurður um fyrirhugaðar hækkanir á bensíni og olíu um áramótin, en hækkaðar álögur á þessar vörur eiga að skila tveim milljörðum í auknar tekjur í ríkissjóð, og eru að sjálfsögðu teknar úr vösum almennings í landinu, sem þar með hefur tveim milljörðum króna minna til kaupa á matvörum og öðrum nauðsynjum til heimilanna.  

Á sama tíma og Steingrímur J. segist einungis vera að láta gjöldin fylgja verðlagi, leggur hann fram fjárlagafrumvarp sem ekki gerir ráð fyrir að elli- og örorkulífeyrir "fylgi verðlagi" eins og orkugjafaálögur ráðherrans, en eins og allir vita segist Steingrímur J. vera ráðherra í "norrænni velferðarstjórn".  Laun á vinnumarkaði hafa ekki heldur "fylgt verðlagi" undanfarið, þannig að ekki aukast ráðstöfunartekjur fólks við þetta nýjasta skattahækkanabrjálæði "velferðarstjórnarinnar", sem reyndar er á góðri leið með að eyðileggja það velferðarkerfi, sem stóreflt var og endurbætt undanfarin tuttugu ár, áður en "velferðarstjórnin" tók við.

Margt af þessum toga einkennir störf þessarar "norrænu velferðarstjórnar" og er almenningur vægast sagt farin að vonast til að stjórnartíma hennar fari að ljúka sem allra fyrst. 

 


mbl.is Ekki verið að auka álögur á eldsneyti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 8. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband