3.12.2010 | 11:41
Ekki eftir helgi, en strax á næsta ári
Loksins er komið fram samkomulag þeirra aðila sem hlut eiga að máli um endanlega afgreiðslu á skuldavanda heimilanna, sem boðaðar hafa verið "eftir helgi" í heilt ár og vegna þeirra tafa hefur fólk ekki gert það sem þurft hefði að gera í skuldamálunum og því ástandið eingöngu farið versnandi og fleiri endað með eignamissi, en annars hefði orðið.
Nú verður farið í ýmsar aðgerðir til að létta skuldabyrði vegna húsnæðislána, en líklega eru stærstu vandamál heimilanna ekki tilkomin vegna þeirra lána, heldur ýmissa neyslulána sem tekin voru ótæpilega í "lánærinu" mikla og margir hefðu lent í erfiðleikum vegna þó ekkert bankahrun hefði komið til.
Það sem óneitanlega vekur upp spurningu er, hvers vegna miðað sé við fasteignamat en ekki brunabótamat, eins og alltaf hefur verið gert í fasteignaviðskiptum fram til þessa. Um það var fjallað áður í þessu bloggi HÉRNA
Ef til vill breytist verð fasteigna til samræmis við fasteignamatið í framhaldi af þessu. Það verður auðvitað til þess að mun stærri hópur tapar á fasteignakaupum sínum en ef áfram hefði verið miðað við brunabótamatið.
Þessar aðgerðir munu víst ekki koma til framkvæmda strax "eftir helgi" og ekki heldur í "næstu viku", heldur á næsta og þarnæsta ári.
Allt er gott sem endar vel, a.m.k. er gott að þetta strögl virðist vera að taka enda og þá ætti að vera hægt að snúa sér að öðrum brýnum málum sem plaga þjóðfélagið.
![]() |
60 þúsund heimili njóta góðs af |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
3.12.2010 | 10:53
Fasteignamat en ekki brunabótamat?
Svo langt aftur sem elstu menn muna miðuðust húsnæðislán við ákveðið hlutfall af brunabótamati fasteignar, en breyting varð á þessu með innrás bankanna á þennan markað á haustdögum 2004, en þeir tóku að lána allt að 100% af kaupverði eigna, burtséð frá mati þeirra, en kaupendum var gert að kaupa viðbót við skyldutrygginguna, sem miðaðist við brunabótamat, þ.e. að tryggja mismuninn á kaupverði og brunabótamati eignarinnar.
Íbúðalánasjóður var og er með hámark á sínum lánum, þannig að á árunum fyrir hrun var hámarkslán hans átján milljónir króna, en er nú tuttugu milljónir króna og má þó aldrei fara upp fyrir 80% kaupverðsins, þannig að ólíklegt er að margir séu í erfiðleikum vegna Íbúðasjóðslánanna einna og sér, en hafa sjálfsagt lent í vanskilum með þau í framhaldi vanskila vegna annarra neyslulána, svo sem bílalána, yfirdráttar og greiðslukortaskulda.
Kaupverð fasteigna hefur sem sagt aldrei miðast við fasteingnamat þeirra, en nú þegar afskrifa á skuldir, þá verður miðað við 110% af því mati þannig að um leið og fasteignamarkaðurinn kemst í "eðlilegt" horf verður sjálfsagt farið að miða við brunabótamatið aftur og þá verða þeir sem nú fá niðurfellingar fljótir að komast í "gróða" á ný.
Samkvæmt vef Þjóðskrár er eftirfarandi mismunur á fasteigna- og brunabótamati:
Fasteignamat
Fasteignamat er gangverð sem ætla má að eign hefði haft í kaupum og sölum. Matið er gert í maí mánuði ár hvert og miðast við verðlag í febrúar. Hið nýreiknaða mat tekur gildi í árslok. Fasteignamat tekur bæði til húss og lóðar og skiptist í húsmat og lóðarmat.
Tilgangur fasteignamats er fyrst og fremst að skapa grundvöll fyrir álagningu opinberra gjalda en fasteignamatið er stofn fasteignagjalda og erfðafjárskatts.
Brunabótamat
Í brunabótamati felst mat á því hvað það myndi kosta að reisa hús á ný ef það yrði eldi að bráð. Brunabótamat miðast við byggingarkostnað og tekur tillit til aldurs, slits, viðhalds og ástands eignar.
Matið er vátryggingarfjárhæð og út frá því er lögbundin brunatrygging reiknuð út.
Lesa meira um brunabótamat
Fram að þessu hefur engum dottið í hug að óska eftir hækkun á fasteignamatinu, enda hefur það verið notað til álagningar fasteignagjalda og annarra skatta, en brunabótamatið hafa menn hins vegar viljað hafa sem hæst, vegna þess að fasteigna- og lánamarkaðurinn miðaði lengst af við það.
Nú verður gósentíð fyrir þá sem búa við lágt fasteignamat íbúða sinna.
![]() |
Telur kostnaðinn 174 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.12.2010 | 09:17
Már viðurkennir björgunarafrekið frá 2008
Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, viðurkennir í samtali við Bloomberg fréttastofuna að ríkisstjórn Geirs H. Haarde og þáverandi stjórnendur seðlabankans hafi í raun bjargað þjóðfélaginu frá algeru hruni með setningu neyðarlaganna í október 2008, en ef rétt er munað var Már á annarri skoðun á þeim tíma.
HÉRNA var þann 23/11 s.l. fjallað um það ótrúlega björgunarafrek sem unnið var í þröngri stöðu og í kapphlaupi við tímann á þessum haustdögum árið 2008, þegar bankakerfi heimsbyggðarinnar riðaði til falls og margar ríkisstjórnir hlupu upp til handa og fóta í örvæntingaræði og lýstu yfir ríkisábyrgð á bankakerfum landa sinna og hafa síðan dælt stjarnfræðilegum upphæðum inn í þau til að halda þeim gangandi og skattgreiðendur munu strita fyrir þeim skuldbindingum næstu áratugina.
Hér á landi var lengi vel lítill skilningur á því réttlæti sem fólst í neyðarlögunum, þ.e. að láta tap af óviturlegri og áhættusækinni lánastarfsemi erlendra fjármálafyrirtækja til ennþá óviturlegri og áhættusæknari íslenskra banka, lenda á þeim sem áhættuna tóku en ekki leggja tapið á íslenska skattgreiðendur, eins og núverandi stjórnvöld reyna að gera við hluta þessara bakaskulda, þ.e. Icesave.
Skammsýni og þó frekar pólitískt ofstæki hefur hins vegar orðið til þess að björgunarmennirnir íslensku eru svívirtir og niðurníddir og þurfa jafnvel að sæta ákærum fyrir Landsdómi, í stað þess að hljóta þær þakkir þjóðarinnar sem þeir eiga inni hjá henni.
Allt er þetta að koma betur og betur í ljós og tíminn og sagan mun kveða upp endanlega dóminn í þessu máli, sem öðrum.
![]() |
Seðlabankastjóri: Íslensk stjórnvöld brugðust rétt við |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)