Flókið kerfi fyrir einfalda niðurstöðu

Fimm þeirra sem teljast hafa náð kjöri á Stjórnlagaþing, voru alls ekki meðal þeirra tuttuguogfimm sem flest atkvæði fengu í kosningunni. Kosið var eftir flóknu kerfi, þar sem fólki var talin trú um að setja þann sem það vildi helst í fyrsta sæti og setja síðan þann sem það vildi næsthelst í annað sætið á kjörseðlinum. Svona skyldi fólk raða frambjóðendum í öll tuttuguogfimm sætin á seðlinum, eftir þeirri áherslu sem það legði á hvern frambjóðanda fyrir sig.

Á þetta var lögð mikil áhersla í allri kynningu á kosningunum og þetta fyrirkomulag var stór þáttur í því að valda þeirri arfaslöku kjörsókn sem raun varð á, því fólki fannst þetta fyrirhafnarmikið kerfi og mikill tími færi í "heimavinnuna" sem nauðsynleg var við að velja úr 523 frambjóðendum og skrifa þá inn á handrit að kjörseðli, sem síðan átti að hafa með sér á kjörstað og hreinrita þar á raunverulegan kjörseðil.

Eftir allt þetta umstang með undirbúning og framkvæmd kjörsins, þurfti að leigja flókinn tölvubúnað erlendis frá til þess að reikna út úr kjörseðlum þess þriðjungs kjósenda, sem létu sig hafa það að taka þátt í þessari tilraun, sem tók þrjá daga að fá botn í eftir kosninguna.  Þegar málið er svo skoðað nánar eftir að úrslitin voru kynnt, kemur í ljós að öll fyrirhöfnin var til einskis og algerlega óþörf.

Það skipti frambjóðanda sem sagt engu máli hve margir kusu hann á þingið, aðeins skipti máli hve margir settu hann í fyrsta sæti á kjörseðli sínum, því einungis þeir 25 sem oftast voru settir í það sæti töldust rétt kjörnir, en heildaratkvæðafjöldi skipti engu máli.

Fyrst svona átti að vera í pottinn búið hefði einungis átt að láta hvern kjósanda velja aðeins eitt nafn og þá hefðu væntanlega nákvæmlega þeir sömu komist á þingið og raunin varð og allt fyrirkomulagið fyrir og eftir kosningarnar orðið miklu einfaldara, auðskildara, þægilegra, fljótlegra og ódýrara.

Úrslitin hefðu þá einnig orðið sanngjarnari en raun varð á, en þegar ríkið stendur fyrir verkunum, þá skal það ekki bregðast að valin sé flóknari og dýrari leiðin, ef nokkur möguleiki er á því. 


mbl.is Ekki nóg að koma oftast fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nekt og kynlíf alltaf vinsælt

Miðað við "vinsældarlista" frétta á mbl.is í dag er ungt fólk stór hópur lesenda síðunnar, því mest lesna fréttin fjallar um niðurhal á kvikmyndum og það er athöfn sem unga fólkið kann á, en við gömlu brýnin vitum ekkert hvernig á að framkvæma og hvað þá að finna myndir á netinu til að hala niður.´

Í þrem næstu þrem sætum á "vinsældarlistanum" koma blautlegar fréttir, sem þeir eldri hafa gaman af, ekki síður en þeir ungu, en fimmta vinsælasta fréttin fjallar svo um skuldir Símans, sem unga fólkið hefur líklega minni áhuga á, en þeir eldri.

Svona lítur vinsældalisti fréttanna út, þegar þetta er skrifað.

  1. Níu húsleitir vegna ólöglegs niðurhals
  2. Stundaði sjálfsfróun í kvikmyndahúsi yfir Harry Potter
  3. Berbrjósta konur valda usla
  4. Héldu að ég hefði verið í klámmynd
  5. Móðurfélag Símans þarf að greiða 74 milljarða fyrir 2014

Nekt og klám er sívinsælt umfjöllunarefni, ekki síst hjá feministum sem aldrei þreytast á að skoða það, að eigin sögn eingöngu til að geta hneykslast á því.


mbl.is Berbrjósta konur valda usla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bjöggi og banki til rannsóknar

Lítið hefur farið fyrir fréttum af rannsóknum á Landsbankanum, eigendum hans og stjórnendum upp á síðkastið og var það farið að þykja nokkuð undarlegt hversu hljótt var orðið um þennan banka og gengið sem átti hann og rak.

Björgólfur Thor hefur, að því er fregnir herma, samið um allar sínar skuldbindingar svo ekkert þurfi að afskrifa eða lækka af hans skuldum og ef það gengi upp yrði það einsdæmi með þá "snillinga" sem öllu réðu í íslensku viðskiptalífi á tímum lántöku og eyðslurugls, sem að lokum leiddi til hruns bankanna og allra helstu atvinnufyrirtækja landsins.

Nú bregður hins vegar svo við að fréttir berast af því að Sérstakur saksóknari hefur nú til rannsóknar kaup Landsbréfa á skuldabréfi af Björgólfi Guðmundssyni á árinu 2005, að upphæð 400 milljóna króna, þrátt fyrir að sjóðnum væri óheimilt að kaupa slík bréf af einstaklingum.   Þetta hlýtur að flokkast undir alvarlegt brot, þar sem Björgólfur var aðaleigandi Landsbankans og stjórnarformaður hans.  Undarlegast er, hve seint þetta mál virðist koma á borð þess sérstaka, en fimm ár eru liðin frá þessum viðskiptum og tvö ár frá hruni.

Einnig hefur skilanefnd Landsbankans stefnt fyrrverandi bankastjórum vegna vanrækslu í starfi og krefur þá um 38 milljarða í skaðabætur, sem telja verður afar lága upphæð í ljósi þess tjóns sem þeir ollu bankanum og þjóðfélaginu með starfsháttum sínum.  Ef til vill er þetta þó aðeins krafa vegna örlítils hluta skaðans sem hlaust af gerðum þeirra og að á næstunni komi fram hrina slíkra skaðabótakrafna.

Gott er til þess að vita, að rannsóknir á þeim gengjum sem þjóðfélagshruninu ollu skuli vera í fullum gangi og það eina sem skyggir á, er hvað þetta tekur allt langan tíma og að á meðan skuli meðlimir gengjanna ganga lausir og allt að því hæðast að rannsakendum og raunar þjóðinni allri.


mbl.is Skuldabréf Björgólfs til sérstaks saksóknara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Allir óánægðir með alla

Samkvæmt skoðanakönnunum er stór meirihluti þjóðarinnar hundóánægður með ríkisstjórnina og telur hana alls ófæra um að leysa úr vandamálum þjóðfélagsins.

Samkvæmt sömu könnunum er mikill meirihluti einnign óánægður með stjórnarandstöðuna, sem þó ræður engu og fær engin mál samþykkt í þinginu, þrátt fyrir að hafa lagt fram margar góðar tillögur og allar betri en ríkisstjórnin hefur komið með.  Samt telur meirihlutinn að stjórnarandstöðunni væri ekkert betur treystandi en stjórninni til að leysa úr vandamálunum.

Það sem vantar í þessar kannanir eru svör við því, hver á að stjórna landinu, ef það á ekki að vera ríkisstjór með þingmeirihluta á bak við sig. 

Gefa þessi svör til kynna að almenningur sé að kalla á einhverskonar einræði í landinu? 

Sýna þessar niðurstöður ef til vill að almenningur í landinu sé búinn að gefast upp og telji að landinu og vandamálum þess verði hreint ekki bjargað úr þessu?


mbl.is Fáir ánægðir með stjórnarandstöðuna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 2. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband