Verður unnið hratt og vel, enda Árni Páll víðsfjarri

Á blaðamannafundi í dag kynnti Árni Páll, efnahags- og viðskiptaráðherra, ásamt fulltrúum bankanna og Samtaka atvinnulífsins, samkomulag um skuldaafskriftir bankanna vegna lítilla og meðalstórra fyrirtækja og sagði m.a. að þetta væri brýnasta efnahagsverkefnið á næstu mánuðum. Munu þessar skuldaniðurfellingar ná til á milli 5.000 og 7.000 fyrirækja.

Einstaka sinnum ratast kjöftugum satt orð á munn og það henti Árna Pál þarna, en allar framkvæmdir og aðgerðir sem Árni hefur boðað fram að þessu, hafa átt að koma til framkvæmda "eftir helgi", þegar hugmyndirnar hefðu "verið útfærðar", en svo hefur hver vikan liðið af annarri án þess að útfærðu hugmyndirnar hafi tíma komið fram í dagsljósið. 

Að þessu sinni snýr framkvæmd aðgerðanna ekkert að Árna Páli, eða ríkisstjórninni yfirleitt, enda verður þeim ýtt úr vör fljótlega og stefnt að því að þeim verði lokið fyrir vorið.  Bráðnauðsynlegt er að flýta skuldaafskriftum fyrirtækjanna, smárra, meðalstórra og stórra, ef nokkur von á að vera til þess að innlend fyrirtæki fari að fjárfesta á ný og skapa verðmæti, þannig að mannaráðningar fari að komast í gang, en það er alger forsenda þess að efnahagslífið taki við sér og ráðstöfunartekjur almennings aukist.

Mikið er búið að ræða um nauðsyn þessara skuldaafskrifta á fyrirtækin, en um leið og skriður kemst á málið má búast við miklum bollaleggingum í fjölmiðlum og á netinu um framkvæmdina og söngurinn um að það sé glæpur að fella niður skuldir af fyrirtækjum þegar aldrei sé nóg gert af slíku fyrir almenning.

Nú þýðir ekkert að láta þann söng tefja lengur fyrir endurreisn fyrirtækjanna og þar með von almennings um bættan efnahag og möguleika til að standa við skuldbindingar sínar, ásamt því að framfleyta fjölskyldunum og gefa þeim möguleika á að veita sér einhvern óþarfa til viðbótar. 

 


mbl.is Brýnasta verkefnið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kröfuharðir þiggjendur

Mikil ásókn hefur verið í úthlutanir sjálfboðaliðasamtaka á mat og öðrum nauðsynjavörum til fólks sem ekki er í færum til að sjá sér farborða á annan hátt.  Sjálfboðaliðarnir leggja á sig ómælda vinnu og erfiði við hjálparstörf sín, en uppskera alls ekki í öllum tilfellum þakkir fyrir fórnirirnar sem þeir þurfa að færa í þágu hjálparsamtakanna.

Ekki alls fyrir löngu fékk Fjölskylduhjálpin mikla dembu yfir sig vegna þess að setja átti þá reglu að konur með börn fengju forgang í biðröðinni og síðar kom í ljós að dæmi væru um að konur fengju börn "lánuð" til að hafa með sér í röðina og reyna þannig að komast í forgang fram yfir aðra.

Í dag var óvenju mikil aðsókn að Fjölskylduhjálpinni, enda engin önnur samtök að gefa nauðsynjavörur og myndaðist því nokkuð löng biðröð "viðskiptavina" sem ekki höfðu allir vitað að í dag var einungis úthlutað til þeirra, sem skráð höfðu sig á lista fyrirfram og ekki er samkennd þiggjendanna meiri en svo, að nánast kom til átaka á staðnum og starfsmenn Fjölskylduhjálparinnar þurftu að sitja undir skömmum og svívirðingum vegna frekju og yfirgangs þeirra sem ekki höfðu skráð sig fyrirfram.

Útvarpið birti viðtal við konu, sem sagðist hafa verið búin að bíða lengi í röðinni, þegar hún hafi fengið nóg af svo slakri "þjónustu" og því hafi hún farið heim tómhent, enda "léti hún ekki bjóða sér svona lagað" eins og hún orðaði það svo snyrtilega.

Fólk sækir sér ekki aðstoð hjálparsamtaka að gamni sínu, en lágmark er að það kunni lágmarkskurteisi og sýni ekki fólki sem leggur á sig ómælt erfiði í sjálfboðavinnu yfirgang og frekju. 


mbl.is „Aðrir voru ævareiðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESA sammála snilldinni við Neyðarlögin

Eftirlitsstofnun EFTA hefur nú kveðið upp úrskurð vegna kæra frá nokkrum lánadrottnum gömlu bankanna, en þeir töldu sér mismunað með Neyðarlögunum, sem sett voru í miklum flýti við hrun bankanna í október 2008.  Með Neyðarlögunum voru bankainnistæður gerðar að forgangskröfum í þrotabú bankanna og urðu þar með grundvöllur að stofnun nýrra banka á rústum þeirra gömlu.

Með setningu Neyðarlaganna á ögurstundu og að það tókst að halda opnum öllum greiðslumiðlununarkerfum kortafyrirtækjanna og tölvuaðgangi almennings og fyrirtækja að bankareikningum sínum var nánast ótrúlegt kraftaverk og forðaði algerri stöðvun og upplausn þjóðfélagsins.

Fram til þessa hefur þetta afrek ekki fengið þá athygli og viðurkenningu sem það á svo sannarlega skilið, enda hefur ríkisstjórninni sem við tók í febrúar 2009 tekist svo hörmulega upp við endurreisn atvinnulífsins og þar með í glímunni við atvinnuleysið, að öll einbeitning þjóðarinnar hefur nánast farið í að lifa frá degi til dags og glíma við það skattahækkanabrjálæði sem á henni hefur dunið og ekki sér fyrir endan á ennþá.

Í stað þess að heiðra og virða þá sem heiður eiga skilinn vegna þeirra aðgerða sem gripið var til á þessum örlagaríka tíma, þá hafa þeir verið ofsóttir af pólitískum ofstopamönnum, sem meira að segja leggjast svo lágt, að reyna að sverta mannorð þeirra með ákærum fyrir dómstólum.

Sagan mun dæma þessa ofstopamenn og víst er að þeir geta ekki reiknað með að þá verði nokkur miskunn sýnd.


mbl.is Neyðarlögin ekki brot á EES-samningi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Gnarrandi alkóhólismi

Okkar stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði leiðtogi, Gnarr, hélt innblásna ræðu við umræður um fjárhagsáætlun borgarinnar, um afleiðingar dagdrykkju og áhrif hennar á fjölskyldu alkóhólista.  Ræðan, sem var mjög góð, enda flutt eftir fyrirframsömdu handriti góðra höfunda og vel æfð fyrir flutninginn í ræðustólnum, en tók þó ekki alls kostar rétt á umræðuefninu, þar sem sagt var að þjóðin hefði verið bláedrú og meðvirk með alkóhólista sem bruðlaði með fé sitt og annarra, þar til allt var komið í rúst og þá hafi hann farið í meðferð og skilið fjölskylduna (þjóðina) eftir með hrunið sem ofdrykkjan olli.

Það hefði verið miklu réttara að segja að stór hluti fjölskyldunnar (þjóðarinnar) hafi tekið fullan þátt í drykkjunni og því ætti þessi lýsing leiðtogans mikla við þjóðina sjálfa, en ekki eingöngu mestu drykkjuhrútana:  "Alkohólistinn er ennþá í meðferð. Við vitum ekki hvort hann verður breyttur maður þegar hann kemur tilbaka. Við vitum ekki hvort hann hefur látið af hrokanum. Kannski er honum ekki viðbjargandi. Við vitum það ekki. Við vonum það auðvitað."

Leiðtoginn stórkostlegi, mikilhæfi, dáði og elskaði, varpaði fram nokkrum spurningum í þessari annars ágætu ræðu og meðal annars þessum:  "Ætlum við að halda áfram að ásaka hvert annað hás og finna okkar einu huggun í að tala um HANN og hvað HANN sé mikið helvítis fífl? Ætlum við að halda áfram að vera sjúkir aðstandendur og fórnarlömb?"

Alkóhólisti verður aldrei fær um að takast á við vandamál sitt fyrr en hann viðurkennir vandann og í þessu tilfelli þarf fjölskyldan (þjóðin) að takast á við sinn eigin sjúkdóm og fyrsta skrefið er að viðurkenna að hún sé/hafi verið eyðslu- og lánasjúk og að á löngu árabili fyrir hrun hafi hún vanið sig á að kaupa allt sem hana langaði í og gat fengi lán til að kaupa, án þess að gera sér nokkrar grillur um hvernig ætti að vera mögulegt að endurgreiða öll lánin öðruvísi en að taka nýn og hærri lán.

Þegar sá hluti fjölskyldunnar (þjóðarinnar) sem sjálfur var í langtímaofdrykkju viðurkennir sjúkdóm sinn, þá fyrst verður hægt að taka á og lækna þessi verstu og langvinnustu veikindi, sem þjóðina hafa þjakað í marga áratugi.


mbl.is Líkti þjóðinni við fjölskyldu alkóhólista
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 15. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband