Ætlar Lilja að styðja Icesave-þrælalögin?

Jóhanna Sigurðardóttir hvetur Lilju Mósesdóttur til að styðja fjárlög ríkisstjórnarflokkanna, enda verði hún að gera upp við sig hvort hún ætli að vera í stjórnarliðinu, eða ekki.  Samkvæmt stjórnarskránni  er hver þingmaður einungis bundin af samvisku sinni og skal greiða málum atkvæði samkvæmt því, en hollusta við hvað sem Jóhönnu Sigurðardóttur dettur í hug er ekki stjórnarskrárbundið.

Nú hafa þau skötuhjúin Jóhanna og Steingrímur J. samþykkt fjárkúgunarkröfu Breta, Hollendinga og ESB í örlítið breyttri mynd frá "glæsilegu niðurstöðunni" sem Svavar Gestsson og Indriði H. náðu í Júní í fyrra, þegar þeir "nenntu ekki að hafa málið hangandi yfir sér lengur", eins og Svavar orðaði það svo snilldarlega í sæluvímunni yfir því að vera loksins laus við þau leiðindi sem fylgja því að vinna að hagsmunum þjóðar sinnar.

Nú er að sjá hvort þeir stjórnarþingmenn, sem áður börðust gegn erlendu árásinni á efnahag landsins og skattalegri ánauð þjóðarinnar í þágu útlendinga, munu snúa frá sannfæringu sinni og "vera í stjórnarliðinu" þegar kemur að atkvæðagreiðslu um þennan þriðja kúgunar- og uppgjafarsamning sem nú er boðað að sé "glæsileg niðurstaða"  á uppgjarfarskilmálunum sem hrottarnir hafa nú neytt upp á íslenska skattgreiðendur.

Blekkja á fólk með því að segja að vextirnir séu svo hagstæðir á fjárkúgunarkröfunni, að þetta sé samningur "sem ekki er hægt að hafna" eins og þeir samningar voru, sem aðrir glæpamenn buðu fórnarlömbum sínum uppá í frægum kvikmyndum um Mafíuna bandarísku.  Þessir vextir eru þó ekki betri en einkafyrirtækið Marel fékk nýlega hjá Hollenskum banka við endurfjármögnun lána sinna, en þar var samið um 3.2% vexti, sem eru sömu vextir og íslenskir þjóðsvikarar ætla að láta skattgreiðendur borga Bretum og Hollendingum, þeim síðarnefndu þó aðeins 3,0%.

Jóhanna hvetur til samstöðu um erfið mál.  Þjóðin sýndi fádæma og einstaka samstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni 6. mars s.l.

Varla þarf að efast um minni samstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave 3.

 


mbl.is Hvetur Lilju til að samþykkja fjárlögin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Icesave-upphæðin skiptir ekki máli.

Það er ekkert sérstakt faganaðarefni þó nýju samninganefndinni um Icesave hafi tekist að lækka fjárkúgunarfjárhæðina sem Bretar og Hollendingar eru að reyna að klína á íslenska skattgreiðendur að taka á sig til næstu ára og áratuga.

Takmarkið er að hrinda þessum skattaþrældómi í þágu erlendra yfirgangsþjóða, enda engar lagaheimildir fyrir þessari fjárkúgun, frekar en öðrum fjárkúgunum og glæpum yfirleitt.  Íslenskir kjósendur sögðu risastórt NEI við því að ganga í þessa ánauð þann 6. mars s.l. og því var ríkisstjórnin algerlega umboðslaus við þessa síðustu þrælasölusamninga.

Með því að samþykkja og skrifa undir þennan þrælasamning væri verið að samþykkja helstu kröfu Breta, Hollendinga og ESB um að Íslendingar samþykki að ríkisábyrgð hafi átt að vera á Tryggingasjóði innistæðueigenda og fjárfesta, þrátt fyrir skýr ákvæði í lögum og reglum ESB um að svo hafi ekki átt að vera.  Viðurkenning á þessum afarkostum er ein af kröfum ESB fyrir inngöngu Íslands í sambandið og því er ESB fullgildur aðili að þessum þvíngunum.

Upphæð Icesave skiptir íslenska skattgreiðendur engu.  Þeim kemur málið einfaldlega ekki við. 


mbl.is Mikil áhætta ríkissjóðs
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. desember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband