1.12.2010 | 21:43
Það vantar kynjasamþættingu í ákvarðanirnar
Nú er að koma í ljós skýringin á því, að lítið sem ekkert þokast með aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahags-, atvinnu- og skuldamálum, en beðið hefur verið í heilt ár eftir að þær litu dagsins ljós "eftir helgi", en hver helgin, vikan og mánuðurinn líður án þess að nokkuð bóli á framkvæmdum.
Skýringin á því að ekki hefur unnist neinn tími til að sinna þessum smærri málum er, að stjórnsýslan hefur öll verið upptekin upp fyrir haus við að móta "Fimmtu framkvæmdaáætlun stjórnvalda til að ná fram jafnri stöðu og jöfnum rétti kvenna og karla á Íslandi" og til þjóðinni til mikils léttis og gleði, hefur áætlunin nú verið lögð fram í formi þingsályktunartillögu og á að gilda fyrir árin 2011-2014.
Líklega tefst í nokkur ár ennþá að koma í verk einhverjum aðgerðum í efnahags-, atvinnu, og málefnum heimilanna, því strax hlýtur að þurfa að setja kraft í að móta sjöttu framkvæmdaáætlunina um kynjasjónarmiðin, enda þarf hún að vera tilbúin tímanlega áður en sú fimmta rennur út 2014.
Stórkostleg markmið eru fram sett í þeirri fimmtu og má t.d. vitna í þessa dásamlegu setningu, sem í raun dregur saman á skorinorðan hátt, allt sem þjóðin þarfnast sér til heilla á næstu árum: "Átak verði gert í að samþætta kynjasjónarmið inn í alla ákvarðanatöku og stefnumótun stjórnkerfisins, og áhersla lögð á kynjaða hagstjórn sem felst í því að kynjasamþættingu er beitt í öllu fjárlagaferlinu."
Furðulegt er, að kynjasamþættingu skuli ekki hafa verið beitt í lausn annarra verkefna, sem ríkisstjórnin þyrfti helst að fara að beina kröftum sínum að, enda kjörtímabilið nánast hálfnað.
![]() |
Jafnréttisáætlun stjórnvalda lögð fram |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
1.12.2010 | 10:12
Stjórnlagaþingsmenn með hroka og yfirlæti
Varla var búið að tilkynna úrslit í kjöri fulltrúa á Stjórnlagaþing, þegar tveir þeirra komu fram í fjölmiðlum með hroka og yfirlæti og töluðu eins og þeir hefðu verið kjörnir til umbyltinga á þjóðfélaginu og hefðu umboð sitt beint frá guði.
Þorvaldur Gylfason, prófessor, talaði eins og hans einkaskoðanir væru orðnar að samþykkt nýrrar stjórnarskrár og þar skyldi verða kveðið á um helmings fækkun þingmanna á Alþingi og ráðherrum fækkað niður í fimm. Með þessum tillögum sínum sagðist hann í raun vera að setja Alþingi af og stjórnarskrártillögur hans færu þar með beint í þjóðaratkvæðagreiðslu, án nokkurrar aðkomu Alþingismanna og þrátt fyrir ákvæði núverandi stjórnarskrár um tvöfalt samþykki Alþingis og kosningar skuli halda á milli afgreiðslna þingsins.
Eiríkur Bergmann, ESBáróðursmeistari, talaði á svipuðum nótum í viðræðuþætti í útvarpi, en Inga Lind Karlsdóttir, fjölmiðlakona, sagðist hvergi hafa séð það í lögum um Stjórnlagaþingið að þannig mætti fara með tillögur að stjórnarskrárbreytingu, en Eiríkur gerði lítið úr slíkum smámunum, sem honum og Þorvaldi þykja lagaheimildir vera, ef þeim finnst eitthvað annað prívat og persónulega.
Þessir hrokagikkir og hugsanlega aðrir, sem ætla sér að taka sæti á Stjórnlagaþinginum með slíku yfirlæti, ættu að rifja það upp að þeir eru einungis kjörnir til að leggja tillögur að breyttri stjórnarskrá fyrir Alþingi, sem síðan yfirfer þær og annaðhvort breytir eða samþykkir, boðar svo til kosninga og leggur tillögurnar aftur fyrir nýtt þing, sem saman kemur að loknum þeim kosningum.
Yfirlætisfullir hrokagikkir á Stjórnlagaþingi verða að skilja og muna, að þeim hefur alls ekki verið falið að setja þjóðinni nýja stjórnarskrá, aðeins að leggja fram tillögur til Alþingismanna til nánari umfjöllunar.
Það er lágmarkskrafa að Stjórnlagaþingsmenn byrji ekki á að boða brot á núverandi stjórnarskrá.
![]() |
Vörpuðu hlutkesti 78 sinnum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)