Eru Reykvíkingar ónýtt auðlind?

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur ákveðið að hækka útsvarið úr 13,03% í 13,20% og þykir víst flestum meira en nóg um slíka hækkun þegar tekjur og atvinna allra borgarbúa hafa dregist gífurlega saman og fólk á í erfiðleikum með að treina laun sín, eða bætur, út mánuðinn. 

Einum borgarbúa þykir þó ekki nóg að gert með þessari hækkun og hefði viljað hækka útsvarið upp í 13,28%, enda finnst henni engin hemja að láta þessi 0,08% "ónýtt" enda þýddu þau 230 milljóna króna tekjuauka fyrir borgarsjóð.  Þessi Reykvíkingur er Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, sem lýtur á Reykvíkinga sem ónýtta auðlind, sem sjálfsagt sé að ganga í, enda hafi borgarbúar ekkert við þessa peninga að gera í heimilishaldi sínu.

Það er alveg ótrúlegur hugsunarháttur að líta svo á, að sé skattpíning ekki algerlega keyrð í botn eftir gildandi lagabókstaf, þá sé þar um "ónýtta" auðlind að ræða, en sjá ekki að einfaldlega er verið að kafa dýpra í vasa launþega og gera þeim þar með erfiðara fyrir í lífsbaráttunni.

Ef og þegar sá skilningur vaknar að fólkið í borginni og landinu eru einstaklingar með vonir, væntingar, þarfir og langanir en ekki "ónýttur" tekjustofn fyrir eyðsluglaða pólitíkusa, þá gæti orðið einhver von til þess að lífvænlegt yrði í landinu aftur. 


mbl.is Hefði viljað hækka útsvar meira
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ágætis fulltrúar á Stjórnlagaþing

Nú er búið að opinbera listann yfir þá frambjóðendur sem náðu kjöri til Stjórnlagaþings og við fyrstu sýn virðist hann vera ágætis blanda af fulltrúum flestra aldurshópa, stjórnmálaskoðana, ESB sinna og andstæðinga, þannig að reikna má með heilmiklu fjöri í umræðum á þinginu.

Nú er bara að sjá hvort allir frambjóðendur sætti sig við niðurstöðuna, eða hvort kærur koma fram vegna talningar og síðan eiga sjálfsagt eftir að skapast líflegar umræður um lélega kosningaþátttöku og hvað hafi valdið því að tveir þriðju hluti kjósenda skyldu hundsa málið algerlega.

Sjálfsagt verða allir sárir sem ekki náðu kjöri og margir þeirra telja sig hafa verið hæfasta til að taka þátt í samningu nýrrar stjórnarskrár og t.d. hefur Jónas Kristjánsson, f.v. DVritstjóri, lýst þjóðinni sem samansafni hálfvita fyrir að hafa ekki mætt á kjörstað og greitt sér atkvæði.

Ekki er líklegt að margir séu eins svekktir og Jónas, enda er mikilmennska hans og ófyrirleitni í garð kjósenda áreiðanlega einsdæmi.

 

 


mbl.is 25 kjörin á stjórnlagaþing
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á að nota eftirlaunin til að viðhalda sjóðum borgarinnar?

Reykjavíkurborg á í varasjóðum rúmlega sautjánmilljarða króna, þar af tíumilljarða til að grípa til lendi OR í vandræðum, en rúma sjömilljarða í varasjóði borgarinnar.

Þrátt fyrir þetta góða bú, sem Besti flokkurinn og Samfylkingin taka við í borginni, er ætlun þeirra að hækka útsvar á borgarbúa, ásamt því að hækka öll þau þjónustugjöld sem fyrirfynnast, en áður hefur gjaldskrá OR verið hækkuð um tugi prósenta.

Í því árferði sem nú ríkir eru Reykvíkingar ekki borgunarmenn fyrir hærra útsvari og þjónustugjöldum ofan á allt skattahækkanabrjálæði ríkisstjórnarinnar til viðbótar tekju- og atvinnumissi sem nú eru farin að sverfa alvarlega að.

Reykjavíkurborg ætti að dreifa byrðunum á fleiri ár og ganga frekar að einhverju leyti á sjóði sína, frekar en að hækka álögur á borgarbúa, því þeir hafa enga sjóði að ganga í lengur, nema ef vera skyldi séreignarlífeyrissjóðina, en margir eru þegar búnir með allar inneignir sínar í þeim.

Það er illa gert af borgaryfirvöldum að ætlast til þess að íbúar á besta aldri gangi á eftirlaunin sín til að geta viðhaldið varasjóðum borgarinnar.


mbl.is Gert ráð fyrir afgangi hjá Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

492 eða 498 verða ósáttir

´Seinnipartinn í dag verða birt 25 nöfn þeirra sem kosnir voru á Stjórnlagaþingið, eða 31 nafn ef rétta þarf af kynjahlutföll. Þá verða 492 eða 498 frambjóðendur fúlir og munu fara mikinn á næstunni við að kenna öllu mögulegu um, að þeir hafi ekki náð kosningu.

Það verður kosningafyrirkomulagið sem verður gagnrýnt, að ríkisstjórnin skuli ekki hafa séð um að kynna frambjóðendur nógu vel, tíminn frá því að framboðsfrestur rann út til kosninga hafi verið of stuttur, kynning fyrir Íslendingum erlendis hafi ekki verið næg, sjómenn gátu ekki kosið margir hverjir og svona mætti lengi telja.

Tveir, þrír, frambjóðendur misnotuðu Úrvarp Sögu sér í vil og ráku gengdarlausan áróður fyrir sjálfum sér vikurnar fyrir kosninguna og taugaveiklun þeirra er slík, á meðan þeir bíða úrslitanna, að stöðin hefur verið undirlögð kvörtunum þeirra vegna kosninganna í morgun og hafa þeir nefnt allt til, sem hér að ofan var nefnt og margt fleira.  Svo langt var komið að farið var að krefjast erlendrar rannsóknarnefndar til að fara ofan í saumana á kosningunum og til að komast að því hvort hér hafi ekki verið á ferðinni eitt allsherjar samsæri, án þess þó að hugmyndaflugið næði til þess, hverjir stæðu á bak við það.

Nái Þessir frambjóðendur Útvarps Sögu ekki kosningu, munu þeir aldrei láta sér detta í hug að það hafi verið vegna þess að þeir væru ekki hæfastir frambjóðenda, heldur mun það vera öllu mögulegu öðru um að kenna.

Sama mun verða uppi á tengingnum hjá mörgum hinna 492 eða 498. 


mbl.is Úrslitin kynnt síðdegis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Áttundi hver kjósandi skilaði "vafaatkvæði"

Margt á sjálfsagt eftir að ræða og rita um kosninguna til Stjórnlagaþings, sem fram fór á Laugardaginn var og tveir þriðju hlutar kosnigabærra manna hunsaði og liggja sjálfsagt margar ástæður þar að baki.

Eitt það merkilegasta við kosninguna er að áttunda hvert atkvæði skyldi vera "vafaatkvæði" vegna þess að það var vitlaust fyllt út að einhverju leyti, t.d. með númerum sem ekki voru til, auðum línum eða óskýrum tölustöfum.  Það verður að teljast ótrúlega mikill fjöldi "vafaatkvæða" í þó ekki flóknari kosningu en þarna var um að ræða.

Það sem hins vegar er flókið við svona kosningu er útreikningurinn og úthlutun sæta á þingið, en afar erfitt verður fyrir kjósandann að átta sig á því eftirá hverjum nýttist atkvæðið hans, a.m.k. ef fleiri en einn af hans kjörseðli nær kosningu.  Ekki er ólíklegt að þessi kosning drepi að mestu niður allar kröfur um persónukosningar í Alþingiskosningum og jafnvel kröfuna um að gera landið að einu kjördæmi.

Hvað sem því líður þá erum það við, rúmur þriðjunugur kjósenda, sem tókum að okkur að velja þá fulltrúa, sem eiga að leggja drög að stjórnarskrá fyrir alla þjóðina, hvað sem meirihlutinn meinti með því að skipta sér ekki af kosningunni.


mbl.is Skilja ekki „hrufóttu“ atkvæðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband