25.11.2010 | 19:31
Svíðingsverk Sparisjóðs Vestmannaeyja
Sparisjóður Vestmannaeyja hefur sýnt af sér ótrúlegan svíðingsskap gagnvart ábyrgðarmönnum á láni konu sem var áður búin að fá skuldina fellda niður. Fréttin skýrir svo frá þessu máli: "Konan fékk greiðsluaðlögun á síðasta ári og voru allar samningskröfur gefnar eftir að fullu, þar á meðal kröfur Sparisjóðs Vestmannaeyja á hendur henni. Sjóðurinn taldi hins vegar að ábyrgð ábyrgðarmannanna væri ekki fallin niður og höfðaði mál á hendur þeim þegar þeir neituðu að greiða."
Svona framkoma í samningum er með algerum ólíkindum og líkist ekki neinu öðru en innheimtuaðgerðum handrukkara og annarra glæpamanna. Að skrifa undir niðurfellingu skuldarinnar gagnvart konunni og innheimta hana svo hjá ábyrgðarmönnunum er svo ósvífið að engin orð ná yfir svona níðingsverk opinberrar lánastofnunar.
Annað hvort samþykkja lánastofnanir niðurfellingu skulda, eða þær samþykkja hana ekki. Að þykjast fella niður skuldir og innheimta þær svo síðar hjá ábyrgðarmönnum, sem að sjálfsögðu reikna með að ábyrgð þeirra falli niður með eftigjöf skuldarinnar, eru vinnubrögð sem ekki eru sæmandi lánastofnun, sem vill láta taka sig alvarlega.
Stjórnendur Sparisjóðs Vestmannaeyja eiga að skammast sín og biðja fórnarlömbin afsökunar á þessari glæpsamlegu framkomu sinni.
![]() |
Lög um ábyrgðarmenn andstæð stjórnarskrá |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
25.11.2010 | 15:29
Eru einhverjar framkvæmdir umhverfisvænar?
Skipulagsstofnun hefur birt niðurstöðu sína um umhverfisáhrif framkvæmda við Kröfluvirkjun II, Þeistareykjavirkjunar og Álvers á Bakka ásamt tilheyrandi háspennulínum og er niðurstaðan að sjálfsögðu sú, að framkvæmdirnar hafi mikil umhverfisáhrif og sum óafturkræf.
Varla er nokkur maður undrandi á þeirri niðurstöðu, því naumast er til sú framkvæmd sem ekki hefur áhrif á umhverfið og í flestum tilfellum varanleg og óafturkræf. Varanlegustu og mestu lýti á umhverfi sitt og flest hver óafturkræf, hefur uppbygging Reykjavíkur vafalaust haft og standa þau landsspjöll yfir enn þann dag í dag og sér alls ekki fyrir endann á þeim. Svipað má segja um alla aðra þéttbýlisstaði landsins og einnig á þetta við um hvern einasta sveitabæ og raunar hvert einasta atriði, sem skert hefur svo mikið sem eitt grasstrá í náttúrunni.
Úrskurður Skipulagsstofnunar setur þessar umhverfismetnu framkvæmdir alls ekki sjálfkrafa út af borðinu, heldur þarf að meta út frá öllum hliðum málsins hvort ásættanlegt sé, miðað við þann hag sem af framkvæmdunum má hafa, að ráðast í þær og koma þá atvinnumál á svæðinu til skoðunar ásamt öðru sem arðsamt gæti orðið vegna þessara framkvæmda. Einnig verður að meta hvort aðrir atvinnukostir, sem kalla á minna jarðrask séu í stöðunni, en hver sem verksmiðjan á Bakka yrði, þyrfti væntanlega að fara í virkjanirnar og línulagnirnar, annað hvort óbreyttar eða í eitthvað minna formi.
Ekkert mannanna verk sem hreyfir stein í náttúrunni er eða verður óumdeilt. Stundum þarf að meta mannlíf á móti gróðurlífi og meta hvort þeirra á meira tilkall til ákveðinna landssvæða og aldrei verða allir á eitt sáttir um hvort lífsformið á meiri rétt til lífssvæðanna.
Austur á Héraði hefur verið plantað ógrynni af barrtrjám, sem skerða munu allt útsýni á þessu fagra landssvæði í framtíðinni og mun því vafalaust verða þeim ferðamönnum til ama, sem hefðu viljað njóta náttúrunnar þarna óspjallaðrar áfram.
Hefur slík gróðursetning ekki varanleg landsspjöll í för með sér og fór sú ákvörðun um landbreytingu í umhverfismat?
![]() |
Umtalsverð umhverfisáhrif |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2010 | 11:24
Einn fyrir Landsdóm og annar ekki fyrir sambærilega hluti
Jóhanna Sigurðardóttir hefur nú í tæpa tvo mánuði boðað að aðgerðir vegna skuldavanda heimilanna verði lagðar fram "eftir helgi" og ítrekaði það loforð á Alþingi í morgun. Hún segist hafa setið marga fundi undanfarið með fulltrúum bankanna og lífeyrissjóðanna, en því miður vilji þeir ekki fara sömu leið og stjórnvöld í málinu, þ.e. þeir vilja ekki taka á sig kostnaðinn vegna aðgerðanna.
Forsætisráðherrann segir að ríkisstjórnin hafi ekkert boðvald yfir bönkunum og geti því ekki skipað þeir að gera eitt eða neitt, eða eins og segir í fréttinni: "Jóhanna sagði að talið hefði verið nauðsynlegt að reyna að ná samningum við fjármálastofnanir og fara ekki í aðgerðir í andstöðu við bankana sem gætu leitt til skaðabótakrafna á hendur ríkisins."
Þetta segir forsætisráðherra þeirrar ríkisstjórnar sem beitti sér fyrir því að láta Alþingi samþykkja ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fyrir að hafa ekki skipað bönkunum að gera hitt og þetta á árinu 2008, þar á meðal að hafa ekki nánast upp á sitt einsdæmi flutt Icesave reikninga Landsbankans í dótturfélag í Bretlandi.
Núverandi ríkisstjórn segist sem sagt ekki hafa heimildir til að skipa bönkunum fyrir um eitt eða neitt vegna hættu á skaðabótakröfum frá þeim á hendur ríkissjóði vegna slíkra afskipta.
Hvað hefur breyst í þessum efnum frá þeim tíma þegar ætlast var til að ríkisstjórn Geirs H. Haarde handstýrði einkabönkum úr stjórnarráðinu?
Hvernig stendur á því að fyrrverandi ráðherra er ákærður fyrir afskiptaleysi af fyrirtækjum sem núverandi ráðherra segjast ekki hafa neitt umboð til að skipta sér af, þó nú hafi meira að segja sú breyting oðið að ríkið á einn bankann nánast alveg og hlut í hinum tveim?
![]() |
Skuldaaðgerðir að skýrast |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.11.2010 | 09:27
Klíka Jóns Ásgeirs skilningslaus á málssóknina
Jón Ásgeir í Bónus og klíka hans skilur ekki upp né niður í málssókn Glitnis á hendur sér, eða eins og segir í greinargerð lögmanns Jóns Ásgeirs fyrir dómstólnum: "Svo virðist sem bera eigi stefndu fjárhagslegu ofurliði í málinu, enda verður ekki séð að annar tilgangur geti verið fyrir málsókninni."
Málssóknin snýst um skaðabótakröfu á hendur klíkunni vegna þess tjóns sem hún olli bankanum með "bankaráni innanfrá", eins og meðferð klíkunnar á fjármunum bankans hefur verið kölluð, en Glitnir krefst sex milljarða skaðabóta frá sexmenningunum, sem aðallega er tilkomin vegna um sex milljarða króna lánveitingu til FS38 ehf, félags í eigu Fons hf, sem var í eigu Pálma í Iceland Express til kaupa á hlut í öðru félagi í eigu klíkufélaga. Ef rétt er munað munu tveir milljarðar króna hafa horfið í þessum viðskiptum, líklega inn á einkareikninga Jóns Ásgeirs og Pálma.
Svo blind er þessi klíka og sjálfhverf, að hún telur málssóknina vera einhverskonar herferð til að gera þá klíkufélagana fjárhagslega ósjálfstæða, en skilja ekki það tjón sem þeir ollu bankanum og þjóðfélaginu og að krafan sé til þess gerð að láta þá félaga bæta skaðann, að því leyti sem það dugar, með þeim fjármunum sem enn eru í þeirra fórum af þeim feng, sem þeir kröfsuðu til sín persónulega í vægast sagt vafasömun viðskiptum með fjármuni bankans.
Sjálfsagt er ekki hægt að ætlast til þess að siðblindingjar öðlist nokkurn tíma eðlilega sjón á ný.
![]() |
Kom að ýmsum málum en réð ekki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)