Kreppan varir næstu tíu til fimmtán ár

Ríkisstjórnin keppist við að að blekkja þjóðina með síendurteknum yfirlýsingum um að nú sé botni kreppunnar náð og smjör fari að drjúpa af hverju strái strax næsta vor.  Einnig slá ráðherrarnir úr og í varðandi aðgerðir í skuldamálum heimilanna og þrátt fyrir að vera búin að slá flata skuldaniðurfellingu allra fasteignalána  út af borðinu, kom Jóhanna Sigurðardóttir fram í sjónvarpi, skelfingin uppmáluð og með hellur fyrir eyrum eftir tunnuslátt á Austurvelli þann 4. Október s.l., og lofaði að farið yrði í 15,5% niðurskurð allra slíkra lána og yrði það nánar kynnt "í næstu viku", þegar búið yrði að "útfæra" tillögurnar nánar.

Kjarkinn hefur Jóhanna verið að endurheimta smátt og smátt og er farin að gefa í skyn aftur að ekki sé "hagkvæmt" að fara í flata skuldaniðurfellingu, en það sé ekki af því að hún vilji það ekki sjálf, heldur vegna þess að bankar, lífeyrissjóðir og aðrar lánastofnanir séu þau illu öfl, sem hún ráði ekkert við.

Ríkisstjórnin er nú búin að sitja við völd í tæp tvö ár og í stað þess að leiða þjóðina út úr kreppunni hefur hún unnið að því öllum ráðum að lengja hana og dýpka með því að berjast gegn hvers konar atvinnuuppbyggingu og nægir að nefna svik hennar við allt sem hún lofaði í Sólstöðusamningunum, sem endaði með því að bæði atvinnurekendur og ASÍ slitu samstarfinu og telja öll tormerki á að vinna með þessari ríkisstjórn framar.

Því hefur oft verið haldið hér fram að kreppan verði bæði djúp og löng og nú staðfestir OECD þau orð , en viðhangandi frétt hefst á þessum orðum:  "Greining Íslandsbanka segir að aukin svartsýni Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) varðandi efnahagsmálin á Íslandi komi ekki á óvart enda hafi efnahagsbatinn hér á landi dregist á langinn. OECD reiknar nú með því að samdrátturinn verði bæði dýpri og viðsnúningurinn hægari hér á landi en stofnunin reiknaði með fyrr á árinu."

OECD spáir því einnig að atvinnuleysi verði meira á næsta ári en því sem nú er að líða, eða aukist úr 7,5% í 8,1% og fari síðan afar hægt minnkandi frá og með árinu 2012.  Með áframhaldandi stjórnarstefnu og verið hefur við lýði hér á landi tvö síðustu ár, verður þjóðféagið varla komið upp úr kreppunni fyrr en á árabilinu 2020-2025 og er það skelfileg framtíðarsýn.

Við verðum að fara að gera okkur fulla grein fyrir þessu og hætta að reikna með einhverjum jákvæðum breytingum á afkomunni fyrr en að mjög mörgum árum liðnum. 

Næstu tíu til fimmtán árin verða ár hertrar sultarólar og fátæktar stórs hluta þjóðarinnar.


mbl.is Svartsýni OECD kemur ekki á óvart
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Landsdómur greiddur af heilbrigðiskerfinu

Mikill styrr hefur staðið undanfarnar vikur vegna niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu og ekki síst vegna nánast lokunar ýmissa sjúkrastofnana hringinn í kringum landið.  Útlit er fyrir að loka þurfi langlegudeildum og þjónustuheimilum fyrir aldraða vegna nokkurra tuga milljóna reksturskostnaðar, sem Steingrímur J. segir að ekki sé með nokkru móti hægt að fjármagna úr ríkissjóði lengur.

Fjölskylduhjálp Íslands sótti um fjögurra milljóna króna styrk af fjárlögum til starfsemi sinnar, en samtökin hafa, ásamt fleiri slíkum, annast neyðaraðstoð við fólk sem ekki getur séð sér og sínum farborða lengur.  Fjárlaganefnd Alþingis vísaði erindinu frá vegna þess að það barst ekki á réttum tíma til nefndarinnar og því ekki hægt að taka slíkar upphæðir til athugunar, því slíkt myndi rugla öllu skipulagi nefndarinnar.

Nú er birt kostnaðaráætlun við að rétta fyrir Landsdómi yfir einum fyrrverandi ráðherra með svo óraunhæfum sakargiftum, að allar líkur eru á algerri sýknu, en til að ná fram þeim dómi þarf að kosta til a.m.k. 150 milljónum og af gamalli reynslu má reikna með að upphæðin fari ekki undir 200 milljónir.

Vegna þessara vitlausu 200 milljóna króna aukaútgjalda þykir sjálfsagt að flytja breytingartillögu við fjárlögin, en 4 milljónir til Fjölskylduhjálpar Íslands verður sjálfsagt að vísa frá, enda niðurskurður í gangi og allt kapp lagt á að loka sjúkradeildum, lækka bætur og hækka skatta.

Er þeim sem þessu stjórna ekki sjálfrátt?


mbl.is Landsdómur kosti 113 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sömu kröfur til kröfugerðarsamtaka og þingmanna

Marinó G. Njálsson hefur sagt af sér stjórnarsetu í Hagsmunasamtökum heimilanna vegna ótta um að hans persónulegu skuldamál verði gerð opinber, en hagsmunasamtökin hafa barist fyrir flatri niðurfellingu húsnæðisskulda og hefur Marinó verið þeirra helsti talsmaður í þeim málum.

Miklar kröfur eru gerðar til þingmanna um að gefa upp öll sín hagsmunatengsl á vef Alþingis og því er ekki óeðlilegt að þeir sem harðastir eru í baráttunni fyrir ýmsum kröfum á hendur Alþigni um lagabreytingar gefi upp sína eigin hagsmuni vegna þeirra málefna, sem þeir eru að berjast fyrir.

Á vef Alþingis er hins vegar ekki að finna útlistun á skuldamálum Alþingismanna, heldur einungis hagsmunatengslum vegna starfa og tengsla við aðra vinnuveitendur, styrkveitendur og eignir, aðrar en íbúðarhúsnæði til eigin nota.  Upptalning eignanna segir hins vegar ekki neitt, ef skulda þeirra vegna er ekki getið, því eins og allir vita geta skuldir verið miklu hærri en eignunum nemur og því ekki um neinar raunverulegar eignir að ræða, ef til vill aðeins óviðráðanlega skuldasúpu.

Eðlilegt væri að þingmenn tilgreindu skuldir sínar, ekki síður en eignir, þannig að allir hagsmunir þeirra kæmu fram vegna þeirra málefna sem þeir berjast fyrir og þá ekkert síður skuldahagsmunir en eigna-, atvinnu- og styrkjahagsmunir.

"Allt uppi á borðum" er vinsælt slagorð á hátíar- og tyllidögum.  Er ekki tími til kominn að raunverulegir hagsmunir þeirra, sem gefa sig í baráttu fyrir hinum ýmsu hagsmunamálum geri hreint fyrir sínum dyrum og gefi upp sína eigin hagsmuni af baráttumálum sínum?

Sömu kröfur þarf að gera til þeirra, sem stjórna kröfugerðarsamtökum sem aðallega gera kröfur til þingmanna og gerðar eru til þingmannanna sjálfra.


mbl.is Ekki greint frá skuldum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 19. nóvember 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband