14.10.2010 | 13:50
Gnarr fordæmir og Gnarr fagnar fordæmingunni
Í gær var bloggað HÉRNA um þá ótrúlegu samþykkt meirihlutans í borgarstjórn Reykjavíkur að skipta embætti borgarstjórans niður á aðra embættismenn, að því er virðist til þess að gefa Jóni Gnarr rýmri tíma til að semja handrit fyrir uppistand sitt og sjónvarpsþætti, en hann sagði nýlega í sjónvarpsþætti að hann notaði tímann í embættinu til að safna að sér efni í nýja gamanþætti og sagðist reikna með að hafa nóg efni eftir kjörtímabilið í heila sjónvarpsseríu.
Í dag berst hver drephlægilega fréttin af annarri úr herbúðum Besta flokksins og er af nægu að taka: Hugmynd um að hætta áfengissölu í vínveitingahúsum, hugmynd Jóns Grarr um að fjölga borgarstjórum í Reykjavík, eins og gert sé í öðrum sambærilegum stórborgum, t.d. London, New York, Tokyo og Sao Paulo, fordæming Gnarrs júniors og félaga í ungliðahreyfingu Besta flokksins á miðaldra félögum Besta flokksins og fögnuður Gnarrs eldra vegna fordæmingar sonarins.
Allt er þetta væntanlega gert í anda gamanseminnar og eingöngu til að skemmta landsmönnum í skammdeginu, en til eru þeir sem hafa engan húmor fyrir þessari vitleysu í stjórnmálum borgarinnar á tímum þar sem alvarleg verkefni bíða úrlausnar, ekki síst fjárlagagerð borgarinnar og uppsagnir starfsmanna í stofnunum hennar.
Ungliðahreyfing Besta flokksins segir að svo sé komið, að gerðir og ályktanir borgarfulltrúa flokksins séu farnar að fæla stuðningsmenn frá flokknum og ekki er nokkur minnsta ástæða til að draga það í efa.
Miklu merkilegra væri, ef nokkur einasti stuðningsmaður fyrirfinnst ennþá í borginni.
![]() |
Jón Gnarr fagnar fordæmingu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (14)
14.10.2010 | 10:19
Lífeyrisþegar greiði fyrir skuldaniðurfellingar
Vegna þeirrar skelfingar sem tunnubarsmíðarnar fyrir framan Alþingishúsið á meðan Jóhanna Sigurðardóttir flutti stefnuræðu sína þann 1. Október s.l., ollu meðal ráðherranna og stuðningsmanna þeirra á þinginu, hefur tímanum síðan verið varið til umfjöllunar um hvernig og hvort fara eigi út í flatar skuldaniðurfellingar allra húsnæðislána, en á meðan er ekkert gert til að útkljá mál þeirra, sem virikilega þurfa á aðstoð að halda vegna skuldamála sinna.
Íbúðalánasjóður er að mestu leyti fjármagnaður af lífeyrissjóðunum og á sáralítið eigið fé og getur því ekki afskrifað eitt eða neitt, nema til komi fjárframlag frá ríkissjóði, eða lífeyrissjóðirnir afskrifi lán sín til sjóðsins, svo hann geti afskrifað hjá lántakendum sínum. Síðan þyrftu lífeyrissjóðirnir að afskrifa hluta beinna útlána sinna til sjóðfélaga og minnstur hluti niðurfærslanna myndi svo lenda á bönkunum, sem trúlega gætu tekið á sig tapið af slíkum ráðstöfunum, þó vafasamast sé það með Landsbankann, sem er ríkisbanki og myndi, ef að líkum lætur, þurfa aukið fjárframlag úr ríkissjóði.
Hvernig svo sem þessi flati niðurskurður húsnæðislána yrði framkvæmdur, myndi hann óhjákvæmilega lenda á elli- og örorkulífeyrisþegum lífeyrissjóðanna og framlög sem frá ríkissjóði kæmu, yrðu væntanlega ekki fjármögnuð öðruvísi en með auknum niðurskurði í mennta- heilbrigðis- og velferðarkerfinu.
Á meðan þráttað er um hvernig niðurfellingunni verði með minnst áberandi hætti komið yfir á elli- og örorkulífeyrisþega, halda innheimtuaðgerðir og nauðungarsölur íbúða þeirra verst stöddu áfram af fullum þunga, m.a. vegna uppboðsbeiðna frá innheimtumönnum ríkissjóðs og sveitarfélaga, sem ekkert gefa eftir, ekki einu sinni þó skuldararnir reyni að komast í skuldaaðlögun, en þá stranda uppgjörin oftast á skuldunum við ríkið og sveitarfélögin, sem engin leið er að fá lækkaðar eða felldar niður.
All snýst um þessar mundir um að aðstoða þá sem minnstrar aðstoðar þurfa. Þetta kemst ríkisstjórnin upp með, vegna þess að hinn breiði fjöldi leyfir henni það og svo þegar kemur að því að tilkynnt verður, að ekkert verði af þessari almennu niðurfellingu, þá verður stjórnarandstöðunni og lífeyrissjóðunum kennt um og ríkisstjórnin mun standa eftir og slá sér á lær af hneykslun yfir "framferði" þeirra.
Nauðungaruppboðin fara fyrst fram á skrifstofu sýslumanna og síðar á eignunum sjálfum að fjölskyldunum viðstöddum, þar á meðal börnum. Það eru ekki uppboð á eignum þeirra, sem geta borgað af skuldum sínum. Þau eru vegna þeirra skuldara, sem gjarnan myndu vilja greiða skuldir sínar, en geta það ekki.
Hinir skipa miklu stærri og sterkari þrýstihóp.
![]() |
Flatur niðurskurður hjálpar ekki þeim verst stöddu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)