12.10.2010 | 18:38
Eva Joly gengur of langt
Eva Joly hefur starfað sem ráðgjafi Sérstaks saksóknara við rannsóknir á meintum glæpum banka- og útrásargengja og hefur hún notið mikils meðbyrs í því starfi af hálfu þjóðarinnar, þó flestum sé nú farið að þykja að djúpt sé á niðurstöðum, en ekki einu einasta máli, sem einhverju skiptir, hefur ennþá verið lokið af þeim skötuhjúunum og vísað til dómstóla.
Nú er Eva Joly, sem komin er í forsetaframboð í Frakklandi, hins vegar farin að leggja Íslendingum lífsreglurnar í alls óskyldum málum og ætlar að halda blaðamannafund með Björk Guðmundsdóttur og fleirum til að skora á stjórnvöld að brjóta lög á Magma Energy með því að ógilda kaup þess á HS-Orku, sem nefnd forsætisráðherra (að vísu ólögleg og umboðslaus nefnd) úrskurðaði algerlega lögleg, eins og nefnd um erlenda fjárfestingu hafði áður gert.
Eva Joly ætti að láta Íslendinga sjálfa ráða sínum innanríkismálum, en halda sig við glæparannsóknirnar, því greinilega veitir ekki af öllum þeim tíma, sem hún hefur til þess starfs, a.m.k. miðað við árangurinn fram að þessu.
Björk er einnig miklu betri tónlistarmaður heldur en áróðursmaður, en þó hún kæri sig ekki um að búa á landinu og greiða sín gjöld til samfélagsins, er hún þó íslensk og ekkert við það að athuga, að hún skuli koma í heimsókn af og til í þeim tilgangi að siða til þá landa sína, sem hér vilja starfa og lifa af landsins gæðum.
![]() |
Joly tekur undir áskorun Bjarkar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (27)
12.10.2010 | 11:43
Skemmdarverk á velferðarkerfi Sjálfstæðisflokksins
Á árunum fyrir hrun var ríkisstjórnum undir forystu Sjálfstæðisflokksins oft legið á hálsi fyrir að "þenja út ríkisbáknið" þrátt fyrir að tekjuafgangur hafi verið af rekstri ríkisins ár eftir ár og ríkissjóður verið að heita má skuldlaus, sem aldeilis kom sér vel þegar alþjóðlega efnahagskreppan skall á af fullum þunga.
Hefði ríkisbáknið verið þanið út á þessum árum með eintómum "óþarfa" og nýrri starfsemi, væri auðvelt að skera niður í rekstri ríkissjóðs núna, þegar á bjátar og spara allt það ónauðsynlega, sem fullyrt hefur verið að bætt hafi verið í ríkiskerfið á valdatíma Sjálfstæðisflokksins. Núna þegar kemur að því að spara þarf í kerfinu, er ekki hægt að benda á "óþarfann" og allur niðurskurðurinn er á sviði heilbrigðið- mennta- og velferðarmála, en það voru einmitt þau svið sem góðærisins nutu og fjárveitingar til allra þessara málaflokka voru stórhækkaðar og bætur auknar til elli- og örorkulífeyrisþega, fæðingarorlof var lengt og barna- og vaxtabætur hækkaðar.
Svo illa eru niðurskurðartillögurnar unnar og undirbúnar, að allir telja að á sínu sviði sé nánast um hermdarverk að ræða, lífeyrisþegar segja sínar skerðingar setja sig niður fyrir sultarmörk, skólayfirvöld telja rekstrargrundvöll skólanna varla vera lengur fyrir hendi, sjúkrahúsarekstur utan Reykjavíkur á að leggja í rúst og fæðingarorlof á að skerða og lækka barna- og vaxtabæturnar.
Ekki þarf að bera sérstaka stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins fyrir þessum skoðunum, því mótmælin sem á ríkisstjórninni dynja alls staðar af landinu eru ekkert sérstaklega frá þeim komin, heldur grasrótinni í þjóðfélaginu, lífeyrisþegunum sjálfum og starfsmönnum ríkisins, en þetta fólk hefur hinar ýmsu stjórnmálaskoðanir og kemur úr öllum stéttum þjóðfélagsins.
Nægir að benda á eftirfarandi, sem fram kemur í yfirlýsingu frá starfsmönnun ríkis og sveitarfélaga inna starfsgreinasambandsins, en þar segir m.a: "Félagsmenn SGS eru vel meðvitaðir um að niðurskurðar er þörf í ríkisrekstrinum, sumar tillögurnar verða þó ekki túlkaðar öðru vísi en að um hrein skemmdarverk sé að ræða. Engu er líkara en ákveðið hafi verið að leggja niður rekstur einstakra stofanna um alla framtíð. Nauðsynlegt er að því sé svarað af fullri hreinskilni hvort svo sé og heimamenn geti þá brugðist við í samræmi við það."
Við þetta er í sjálfu sér engu að bæta.
![]() |
Niðurskurðartillögur hrein skemmdarverk |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.10.2010 | 09:08
Hver skuldar hverjum hvað?
Í umræðunni um skuldamál heimilanna hefur komið fram að aðeins 37% húsnæðislána séu í skilum, en 63% séu í "frystingu" eða í vanskilum. Þá hefur einnig komið fram að 10% þeirra, sem eru að missa íbúðir sínar á uppboð vita ekki hver uppboðsbeiðandinn er og fæstir hafa nýtt sér þau úrræði, sem þó eru í boði fyrir illa setta skuldara og margir vilja ekki forða íbúð sinni frá gjaldþroti af ókunnum ástæðum.
Eins hefur komið fram að þegar greiða á götu þeirra sem leita í skuldaaðlögun í bankakerfinu, stranda lausnir ekki á bönkunum, eða öðrum íbúðalánveitendum, heldur á ýmsum öðrum kröfuhöfum vegna neyslulána og ekki síst opinberum aðilum, t.d. vegna skattskulda. Allt vekur þetta upp spurningar um hvernig "skuldapakki" þeirra skuldugustu lýtur út, þ.e. hve stór hluti er vegna íbúðakaupa, hvað vegna bílalána, hve mikið vegna hjólhýsa og annars lúxusvarnings og hve mikið eru hrein neyslulán. Skattaskuldir ættu ekki að vera miklar hjá venjulegu launafólki, sem greiðir skatta jafnóðum af tekjum sínum, heldur frekar hjá þeim sem hafa verulegar aðrar tekjur en launatekjur, sem þá eru skattlagðar ári eftir að þeirra er aflað, en ekki jafnóðum eins og launatekjurnar.
Einnig hafa komið í ljós vankantar vegna lánsveða, þ.e. þegar skuldari hefur fengið lánað veð hjá foreldrum eða öðrum fyrir skuldsetningu sinni, en þá hljóta slíkar lántökur að vera til kaupa á einhverju öðru en húsnæði, því bankar og Íbúðalánasjóður lána aðeins út á veð í þeirri fasteign sem verið er að kaupa hverju sinni. Þannig hlýtur verulegur hluti þeirra skulda, sem eru að keyra fólk í þrot að vera aðrar skuldir, en húsnæðisskuldir og þá vaknar spurning um réttmæti almennrar lækkunar húsnæðisskulda, ef það verður ekki til að leysa endanlega úr skuldavanda þeirra, sem mest eru skuldsettir.
Það sem hlýtur að þurfa að gera er að fara að tillögu Sjálfstæðismanna um að fresta helmingi allra greiðslna af húsnæðislánum í a.m.k. þrjú ár, og færa hinn helming afborgananna afturfyrir lánstímann og nota þessi þrjú ár til að kryfja vanda hvers og eins og leysa úr honum einstaklingsbundið, en ekki með almennum aðgerðum, sem nýtast best þeim sem síst þurfa á þeim að halda.
Það hlýtur að þurfa að greina skuldir heimilanna betur niður í skuldaflokka, áður en hægt er að leysa úr vanda þeirra sem eiga í vandræðum vegna íbúðalána sinna.
Flest bendir a.m.k. til þess að skuldavandinn sé ekki mestur vegna íbúðalánanna.
![]() |
Afskrifa þyrfti 220 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)