13.1.2010 | 16:15
Nefndir á nefndir ofan vegna Rannsóknarnefndar
Nú fer að styttast í að Rannsóknarnefnd Alþingis opinberi skýrslu sína um aðdraganda hrunsins og hver gerði hvað hvenær og hvað hver hefði átt að gera, þegar hann gerði annaðhvort ekkert, eða eitthvað annað.
Þetta verður mikill lestur, enda hefur Alþingi nú þegar skipað sérstaka þingnefnd, til þess að lesa skýrsluna og fara yfir það, hvað þingmenn og ráðherrar gerðu, eða létu ógert, ásamt því að móta tillögur um hvort til einhverra ráðstafana þarf að grípa vegna þess, eða hvort ekki á að gera neitt og verði það niðurstaðan, verður allt vitlaust í þjóðfélaginu.
Nú hefur Jóhanna, forsætisráðherralíki, skipað nefnd hálærðra lögspekinga, til að lesa skýrsluna til þess að athuga hvort ráðuneytin gerðu tóma vitleysu í aðdraganda hrunsins, eða hvort þau gerðu alls ekki neitt, sem er líklegra, því varla hafa þau gert mikið af viti. Komist nefndin að því, að allt hafi verið með felldu í ráðuneytunum, verður auðvitað allt vitlaust í þjóðfélaginu.
Hvað svo sem stendur í þessari viðamiklu skýrslu, er alveg víst, að finni menn ekki "sína" niðurstöðu um allt stjórnkerfið, ráðherra, þingmenn, seðlabankann, fjármálaeftirlitið, bankana, útrásarvíkingana o.fl., þá verður allt vitlaust í þjóðfélaginu.
Niðurstaðan er því sú, að það sem örugglega kemur út úr birtingu skýrslunnar, verða fjörugar deilur í margar vikur, eða mánuði, um það sem stendur í skýrslunni og það sem ekki stendur í henni.
![]() |
Nefnd skipuð vegna skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.1.2010 | 10:35
Ástandið versnar stöðugt
Atvinnuleysið eykst enn hér á landi og ekkert bólar á ráðstöfunum af hálfu hins opinbera til þess að reyna að koma atvinnulífinu á lappirnar aftur. Þvert á móti hafa stjórnvöld barist af hörku gegn allri þeirri atvinnuuppbyggingu, sem í farvatninu hefur verið, svo sem í raforkuuppbyggingu, stóriðju og gagnaverum.
Nú eru um 12.000 manns atvinnulausir og áætlað að þeim fari fjölgandi eftir því sem líður á árið. Alvarlegast er að 16,1% ungs fólks á aldrinum 16-24 ára er atvinnulaust og er þessu fólki hættast að festast í langtímaatvinnuleysi og jafnvel komast aldrei út á vinnumarkaðinn.
Sá sem elst upp í þeim veruleika að fá enga vinnu á unga aldri, á það á hættu, að ná aldrei neinum tengslum við atvinnulífið og lenda í því auma hlutskipti, að vera á bótum allt lífið. Erlendis eru að vaxa úr grasi önnur og þriðja kynslóð atvinnuleysingja, með öllum þeim félagslegu vandamálum, sem því fylgja, að ekki sé talað um jarðveg öfga- og hryðjuverka, sem þessar aðstæður skapa.
Ríkisstjórnin, sem öll hefur verið lömuð vegna Icesave, verður nú að skipta liði og hluti hennar, sérstaklega þeir ráðherrar, sem með atvinnumál fara, verða að fara að snúa sér að því að leysa úr þeim málum, sem gætu orðið til þess að fækka á atvinnuleysisskránni.
Ekki er nóg að setja alla þá sem atvinnulausir eru á einhver námskeið, svo góð sem þau eru.
Það þarf að skapa atvinnulífinu grundvöll til að starfa á, en ekki drepa allt niður með skattahækkunarbrjálæði.
![]() |
12 þúsund án atvinnu undir lok árs |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.1.2010 | 08:35
Skelfilegt ástand á Haiti
Fréttirnar sem berast af jarðskjálftanum á Haiti og afleiðingum hans, eru skelfilegar. Haiti er bláfátækt og vanþróað land, þar sem kjör og aðbúnaður almennings er ömurlegur alla jafna og hús illa byggð á okkar mælikvarða og því verða afleiðingarnar enn hörmulegri en ella.
Á eyjunni eru ekki til nein tæki eða búnaður til að fást við náttúruhamfarir af þessum toga og því verður að treysta á utanaðkomandi aðstoð á öllum sviðum, bæði með björgunarlið og tæki. Aðstæður eru allar hinar erfiðustu, þar sem svo virðist af fréttum að allar helstu byggingar séu hrundar, hvort heldur sem er stjórnsýsluhúsnæði, skólar eða sjúkrahús.
Íslendingar eru að undirbúa sína sérhæfðu rústabjörgunarsveit til ferðar og mun hún halda af stað í dag og þó í litlu sé, í hinu stóra samhengi, þá er gott til þess að vita, að hægt sé að senda slíka sveit af stað, með litlum fyrirvara.
Erfiðleikarnir sem hrjá íslenskt samfélag um þessar mundir, verða sem hjóm eitt, þegar slíkar fréttir berast utan úr heimi og þrátt fyrir erfitt ástand, verða Íslendingar að leggja sitt af mörkum, til aðstoðar við svona hryllilegar aðstæður.
Hugurinn er hjá Haitibúum núna.
![]() |
Gríðarlegt manntjón á Haítí |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)