15.9.2009 | 19:27
Loksins alvöru skiptastjóri
Nú lítur út fyrir, flestum að óvörum, að skiptastjóri í einu þrotabúa útrásarvíkinganna, ætli að standa í stykkinu og taka hlutverk sitt alvarlega. Þetta er bústjóri í þrotabúi Baugs, en hann virðist ætla að rifta helstu falsgerningum Jóns Ásgeirs í aðdraganda hrunsins í fyrrahaust.
Hann ætlar að fá rift ýmsum eigntilfærslum úr þrotabúinu, svo sem "sölu" á skíðahöll í Frakklandi, lúxusíbúðum í New York og London og ekki síst gerfisölunni á Högum, sem rekur Hagkaup, Bónus 10-11, Debenhams og fleiri og fleiri verslanir.
Þetta eru stórtíðindi og ef þetta gengur eftir, er þetta fyrsta vísbendingin um að réttlætið nái fram að ganga í uppgjörum við útrásarmógúlana.
Vonandi koma einhverjar jákvæðar fréttir fljótlega frá Sérstökum saksóknara.
![]() |
Samningi um sölu Haga rift |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt 16.9.2009 kl. 08:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2009 | 17:17
Farsæl og góð niðurstaða
Borgarstjórn Reykjavíkur hefur nú staðfest samninginn um sölu hlutabréfa OR í HS orku til Magma Energy og verður sú farsæla og góða niðurstaða væntanlega til þess, að HS orka fær nú frið til uppbyggingar og frekari virkjanaframkvæmda á Reykjanesi. Til þess þarf tugmilljarða erlent lánsfé, sem Magma Energy hefur skuldbundið sig til þess að útvega til framkvæmdanna og vonandi veður hafist handa sem allra fyrst.
Fyrir nokkrum dögum var kynnt sú gleðifrétt, að Norðuál hefði náð samningum við þrjá erlenda banka um fjármögnun álvers í Helguvík og þegar nú bætist við, að útlit sé fyrir að tryggt sé að fjármagn fáist til frekari rafmagnsframleiðslu í nágrenninu, verður vonandi ekki langt þangað til framkvæmdir komist í fullan gang og skapi hundruð starfa á byggingartíma virkjananna og álversins.
Alltaf er ákveðinn hópur fólks, sem sér drauga í hverju horni, þegar rætt er um atvinnuuppbyggingu, ekki síst ef erlendir aðilar tengjast henni á einhvern hátt, en það er einmitt erlent áhættufé, sem mest þörf er fyrir í landinu um þessar mundir.
Þeir sem öskruðu, æptu og gerðu sig að fíflum á áheyrendapöllum borgarstjórnar, þurfa sjálfir að taka til sín, flest af þeim svívirðingum, sem þeir frussuðu framan í borgarfulltrúana, t.d. þetta: Djöfull megiði vera stolt af því sem þið hafið gert í dag."
![]() |
Sala í HS Orku samþykkt |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
15.9.2009 | 15:03
Mergurinn málsins
Eins og venjulega, þegar VG er á móti einhverju máli, þá er auðvelt að smala nokkrum gjömmurum á áheyrendapalla borgarstjórnar og fá þá til að gera hróp að andstæðingum VG, þegar þeir flytja mál sitt úr ræðustóli.
Samkvæmt fréttinni benti Hanna Birna, borgarstjóri, á þessa augljósu staðreynd: "Samningurinn við Magma Energy snerist einfaldlega um sölu á hlut OR í HS Orku, annað ekki." Þessi einföldu sannindi er verið að reyna að hártoga á allan hátt og gera eins tortryggilegt og mögulegt er.
HS orka á ekki auðlindinar sem hún ætlar að virkja, heldur gerir vinnslusamning um þær og greiðir auðlindagjald til Reykjanesbæjar, sem er eigandi auðlindarinnar. HS orka hefur í huga að fara út í framkvæmdir, fyrir a.m.k. fimmtíumilljarða króna, sem Magma Energy mun geta útvegað, en slíkar upphæðir ligggja ekki á lausu fyrir Íslendinga nú um stundir, jafnvel þó meirihluti HS orku verði í meirihlutaeign Íslendinga, eftir þessa hlutabréfasölu, sem áður.
Skilningur þyrfti að vakna á því, að í landinu er kreppa og allt erlent fjármagn ætti að vera velkomið.
![]() |
Hróp gerð að borgarstjóra |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2009 | 13:26
61,5% myndu greiða atkvæði gegn aðild að ESB
Meirihluti landsmanna er óánægður með að sótt hafi verið um aðild að ESB og 61,5% þeirra sem spurðir voru í könnun Capasent fyrir Samtök iðnaðarins, segjast sennilega eða örugglega greiða atkvæði á móti aðildarsamningi, ef kosið yrði nú.
Aldrei, frá því að Samtök iðnaðarins hófu að láta gera kannanir um Evrópumálin, hafa fleiri verið andvígir aðild að ESB og hafa samtökin þó rekið sterkan áróður fyrir inngöngu Íslands í ESB. Þetta þarf þó ekki að koma á óvart, eftir að ESB sýndi sitt rétta andlit með stuðningi sínum við að Íslendingar yrðu hnepptir í þrældóm fyrir Breta og Hollendinga með efnahagsstríðinu gegn þjóðinni vegna Icesave skulda Landsbankans.
Því máli er alls ekki lokið, þar sem skriflegt samþykki Breta og Hollendinga þarf vegna fyrirvaranna, sem Alþingi setti fyrir ríkisábyrgðinni á skuldaklafann, en þrælapískararnir hafa ekki einu sinni séð sóma sinn í að svara Alþingi vegna málsins. Með því lítur svo út, að þrælahöfðingjarnir ætli ekki að svara neinu, heldur halda áfram þvingunaraðgerðum sínum gegn Íslendingum og pína þá til að draga fyrirvarana til baka.
Alþjóðagjaldeyrissjóurinn hefur nú tilkynnt, að fyrsta endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands og sjóðsins verði ekki tekin fyrir á fundi sjóðsins í September, en henni hefur verið frestað trekk í trekk síðan í Febrúar.
Er nema von að þjóðin snúist til varnar gegn ESB og handrukkaragengi þess?
![]() |
Fleiri andvígir en hlynntir ESB-aðild |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.9.2009 | 11:37
Hraðaspurningar og bjöllusauðir
Nú eru þrjár vikur þar til Alþingi kemur saman á ný og samkvæmt venju verða fjárlög lögð fyrir þingið í októberbyrjun. Fjárlög næsta árs þurfa að vera vel unnin, enda þarf þar að gera ráð fyrir tugmilljarða niðurskurði í ríkisrekstrinum frá því sem verið hefur undanfarin ár.
Vitað er um mikinn ágreining milli stjórnarflokkanna um leiðir í þessum niðurskurði og því hefði mátt ætla að allur kraftur ráðuneytanna myndi beinast að vinnu við fjárlögin á næstu vikum og mánuðum. Þá birtist Olle Rehn með spurningaleik EB og ráðuneytin láta eins og um sé að ræða hraðaspurningar í Popppunkti, eða eins og segir í fréttinni: "Tugir starfsmanna ráðuneyta og stofnana hafa hraðar hendur við að semja svör við spurningum ESB vegna aðildarumsóknar Íslands. Eiga einstök ráðuneyti að skila af sér í þessari viku."
Grínistinn í Utanríkisráðuneytinu lætur eins og umsókn um aðild að ESB sé einhver leikur, sem starfsmenn ráðuneyta og stofnana megi vera að eyða tíma í, nú þegar allt kerfið ætti að vera á fullu í vinnu við fjárlög og tillögur um úrbætur á vanda heimilanna í landinu.
Ráðherrar hafa sagt að þau úrræði, sem fundin verði til bjargar heimilum almennings megi ekki kosta eina krónu, en á sama tíma telja þeir réttlætanlegt að eyða milljörðum í spurningaleiki og spjall við fulltrúa Evrópusambandsins.
Forsætisráðherrann er týndur, utanríkisráðherrann leikur sér og fjármálaráðherrann er ráðalaus.
Næsta bjölluspurning er: "Af hvaða fyrirbæri er er myndin, sem nú er að birtast?"
![]() |
Hraðaspurningunum svarað á næstu dögum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2009 | 10:34
Verður Högum haldið til haga?
Skiptafundur verður í þrotabúi Baugs klukkan tvö í dag og munu kröfur vera á fjórða hundrað milljarða króna og eru bankarnir stæstir kröfuhafa, eða eins og segir í fréttinni: "Stóru viðskiptabankarnir eru langstærstu kröfuhafarnir en þeir voru allir mjög duglegir að lána Baugi Group fyrir bankahrunið."
Bankarnir voru duglegir að lána Baugi, en þeir virðast hins vegar ekki leggja jafn mikinn metnað í kröfulýsingarnar, því kröfu Landsbankans að upphæð 94 milljarða króna var hafnað "að svo stöddu", því haft er eftor sloðtastkóranum: "Erlingur sagði í samtali við Morgunblaðið 9. september síðastliðinn að kröfum stærstu kröfuhafa í þrotabú Baugs Group er hafnað þar sem ýmist kröfulýsing væri ekki fullnægjandi eða ekki lægi fyrir upplýsingar um verðmæti undirliggjandi veða."
Einnig hefur komið fram, að Kaupþing aðstoðaði Jón Ásgeir við að koma Högum undan þrotabúi Baugs, skömmu fyrir bankahrunið, og veitti til þess eitt kúlulán að upphæð 30 milljarða króna, sem Jón Ásgeir segir nú, að kröfuhafar geti tapað, ef hann fái ekki tíma til að endurfjármagna Haga með erlendu hlutafé, sem "vinir" hans í Bretlandi ætli að leggja fram á næstu árum.
Kröfum í þrotabúið er ekki haldið almennilega til haga.
Ætli Högum verði frekar haldið til haga?
![]() |
Kröfuhafar Baugs funda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.9.2009 | 09:00
Óábyrgir borgarfulltrúar
Það er með ólíkindum að fylgjast með hálf barnalegu þrasi stjórnarandstæðinga í borgarstjórn vegna sölu OR á hlut sínum til Magma Energy. Allt er tínt til í aumkunarverðri tilraun til að gera söluna tortryggilega og ekkert tillit til þess tekið, að samkvæmt úrskurði samkeppnisstofnunar varð OR að selja sinn hlut og átti í raun að vera búin að því, en kaupandi hafði ekki fundist fyrr.
Í þeirri efnahagskreppu sem nú er við að eiga, er aðkoma erlendra fjárfesta að íslensku efnahagslífi, það sem mikilvægast er í endurreisninni og því ætti að fagna kaupum Magma Energy, en ekki gera allt sem illur hugur getur fengið menn til að gera til að tefja og spilla fyrir slíkri fjárfestingu.
HS orka hyggur á fimmtíumilljarða fjárfestingu á næstunni og til þess þarf erlent fé og Magma Energy getur útvegað þann gjaldeyri og ef eitthvert vit væri í viðbrögðum manna við aðkomu fyrirtækisins að HS orku, ættu þau viðbrögð að einkennast af fögnuði en ekki óvild og hatri á öllum fjárfestingum erlendra aðila í íslensku atvinnulífi.
Erlendum aðilum gefst nú kostur á að kaupa Íslandsbanka, sem á, eða hefur öll tök á, Geysi Green Energy, sem á meirihluta í HS orku.
Stjórnmálamenn vita ekki alltaf hvað á að gera við aðra höndina, meðan þeir klóra sér einhversstaðar með hinni.
![]() |
Endurskoðendur í svaðið? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)