Gaumur ekki gefinn

Það er vert að gefa því gaum, að verslanir sem Gaumur (áður Baugur) rekur og taka, í flestum tilfellum, inn vörur sínar í gegnum sama vörulager eru með svo mikinn verðmismun, að með ólíkindum er.  Reyndar er skiljanlegt að 10-11 sé dýrust, enda opin allan sólarhringinn og með takmarkað vöruúrval, en að Hagkaup skuli oftast vera með hæsta verðið og Bónus það lægsta, er athyglisverðara.  Hagkaup er farið að hafa tvær stórar verslanir opnar allan sólarhringinn, þ.e. í Skeifunni og í Garðabæ og nú er sá aukakostnaður greinilega kominn inn í vöruverðið.  Óskiljanlegt er reyndar, hvernig hægt er að halda öllum þessum verslunum opnum daga og nætur, árið um kring, því varla geta nátthrafnarnir verslað svo mikið, að allar þessar verslanir standi undir viðbótaropnuninni.

Eins og venjulega er Bónus örlítið lægri í verðkönnuninni en Krónan, enda er nánast fastur starfsmaður frá Bónusi við verðkannanir í Krónunni, a.m.k. versluninni á Bíldshöfðanum.  Síðan er verðinu í Bónusi stillt af, einni krónu lægra en í Krónunni, eða í sumum tilfellum nokkrum krónum neðar og þannig er alltaf hægt að koma best út úr svona könnunum.

Þessi verðlagningartækni gengur algerlega upp, því almenningur trúir því ennþá, að Bónus sé alltaf lægstur, vegna snilldar í innkaupum og verðlagningu.  Staðreyndin er auðvitað sú, að Bónus gefur engum neitt og Hagkaup náttúrlega ennþá síður.

Á meðan þessu er ekki gefinn gaumur, malar Gaumur gull.


mbl.is Mikill verðmunur á grænmeti
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svavar skildi þetta ekki heldur.

Árni Þór Árnason, þingmaður VG, hefur stundað hausatalningar í þinginu undanfarnar vikur og komist að því að ekki er meirihlutastuðningur við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans og því er málinu ekki hleypt út úr nefnd og til afgreiðslu á þinginu.  Jóhanna og Steingrímur J. ætla að gangast undir þennan nauðasamning, hvað sem tautar og raular og leita nú allra leiða, til að búa málið í einhverskonar felubúning, til þess að snúa þeim fjórum VG þingmönnum, sem láta illa að stjórn.

Það blóðuga við þetta allt saman er, að fólk er látið halda, að þetta sé samningur um skuld íslensku þjóðarinnar við Breta og Hollendinga, þegar þetta er samningur milli tryggingasjóða innistæðueigenda í löndunum þrem og á þeim á ekki að vera ríkisábyrgð, samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins.  Reyndar bannar tilskipunin slík ríkisafskipti, vegna þess að ábyrgðir einstakra ríkja á bankainnistæðum, myndu skekkja alla samkeppnisstöðu fjármálastofnana innan ESB.  Af þeim ástæðum mega Bretar og Hollendingar ekki heyra minnst á dómstóla, til þess að skera úr um, hver ber ábyrgð á hverju í þessum efnum.

Árni Þór segir einnig að nágrannaþjóðir Íslendinga geri sér enga grein fyrir því, hve íþyngjandi þessi "samningur" er fyrir komandi kynslóðir á Íslandi.  Það er ekki von, að viðsemjendurnir, hvað þá aðrir, hafi gert sér þetta ljóst, því íslenska samninganefndin, undir forystu Svavars Gestssonar, gerði sér alls ekki heldur nokkra grein fyrir því, um hvað hún var að semja.

Hefði samninganefndin haft einhvern skilning á málinu, hefði hún að minnsta kosti getað reynt að útskýra það fyrir mótherjum sínum við samningaborðið.


mbl.is Gera sér ekki grein fyrir byrðinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Alþingi niðurlægt af Bretum, Hollendingum og ESB

Aðspurður um væntanlega fyrirvara Alþingis við ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Lansbankans, svarar talsmaður breska fjármálaráðuneytisins einfaldlega:  „Það er búið að semja um Icesave við Ísland.“

Þetta svar einkennist af sama hroka og yfirgangi og Bretar hafa sýnt Íslendingum á öllum stigum þessa svokallaða samningaferils, sem auðvitað eru engir samningar, heldur uppgjafaskilmálar hertekinnar þjóðar í fjármálalegri styrjöld, sem Bretar, Hollendingar og norðurlöndin, undir herstjórn ESB, hafa háð gegn Íslendingum.

Uppgjafaskilmálarnir voru, af Svavari Gestssyni, að nafninu til, undirritaðir með fyrirvara um staðfestingu Alþingis, en eins og fram kemur í hrokafulla svari þess breska, var engin meining í þeim fyrirvara.  Samningurinn sem Svavar var látinn undirrita, voru endanlegir uppgjafaskilmálar, sem stríðsherrar Breta og Hollendinga settu Íslendingum og árásarþjóðirnar eru greinilega ekki til viðræðu um að breyta.

Eftir því, hve aumlega Steingrímur J., reyndi að réttlæta þessa uppgjafaskilmála í Kastljósi, er augljóst, að ríkisstjórnin var löngu búin að gefast upp og samþykkja skilmálana, þegar hún loksins mannaði sig upp í að játa sig sigraða, þann 5. júní s.l.

Fyrirvarinn um staðfestingu Alþingis á samningnum, var greinilega settur inn af hálfu stríðsþjóðanna, eingöngu til að niðurlægja Alþingi og Íslendinga.

 


mbl.is „Það er búið að semja!“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 7. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband