Hvar er ESB stöðugleikinn?

Á Íslandi hrundi nánast allt bankakerfið s.l. haust og eftir stóð efnahagslífið í rúst og öll helstu fyrirtæki landsins ónýt, vegna þess að eigendur bankanna og aðrir fjárglæframenn voru búnir að tæma þau af eigin fé og skuldsetja þau upp fyrir rjáfur með stjarnfræðilega háum lánum, sem erlendar lánastofnanir verða nú að afskrifa.

Í kjölfar þessa hruns, er atvinnuleysi hérlendis um 9%, spáð er að landsframleiðsla dragist saman um tæp 10% á árinu og verðbólga er um 12% og skuldir þjóðarinnar eru miklar.  Þetta er mesta kreppa, sem þjóðin hefur lent í á lýðveldistímanum.  Jóhanna Sigurðardóttir og hirð hennar, lofaði þjóðinni því, að um leið og beiðni um inngöngu í ESB yrði afhent, myndi stöðugleiki nást á ný hérlendis, vegna þess að traust og tiltrú annarra þjóða yrði þá svo mikið, að öll vandamál myndu leysast, nánast af sjálfu sér.

Í ljósi loforða Jóhönnu, er með ólíkindum að lesa um hrakfarir Eystrasaltsríkjanna, en þar hefur ekki orðið neitt bankahrun, en bankastarfsemi í þeim löndum er aðallega á hendi erlendra banka, sem væntanlega hafa nú þegar, eða eiga eftir að tapa gífurlegum fjárhæðum í þessum löndum og þá mun hrikta verulega í mörgum öðrum ESB löndum.

Í fréttinni er vitnað í Seðlabanka Litháen,  en þar segir m.a:  "Spá seðlabankans verður alltaf svartari og svartari. Í maí spáði hann tæplega 16% samdrætti og í janúar hljóðaði spáin upp á 4,9% samdrátt í efnahagslífinu.  Staðan er heldur skárri hjá nágrannaríkinu Lettlandi en þar er spáð 18% samdrætti í ár. Í Eistlandi er spáð 15,3% samdrætti."

Þetta er versta efnahagskreppa, sem þessi lönd hafa fengið yfir sig, síða þau losnuðu úr klóm Sovétríkjanna sálugu.  Íbúar þessara landa trúðu sínum "Jóhönnum", sem héldu því fram að aðild að ESB myndi tryggja þeim velmegun og stöðugleika í framtíðinni, ekki síst vegna tengingar gjaldmiðils landanna við Evruna.

Hver er hjálpin af ESB aðildinni?  Hvar er ESB stöðugleikinn?  Hvernig stendur á því að þessi lönd eru í verri málum en Ísland, sem stengur utan ESB?

Samfylkingarmenn hljóta að svara þessu með haldbærum rökum.


mbl.is Staða Litháen sú versta innan ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aðeins greindir fá Svínaflensu

Nú eru 63 greindir með Svínaflensuna og aldrei í manna minnum hefur birst annað eins nákvæmnisbókhald yfir smitaða af öðrum sjúkdómum.  Einkenni þessarar flensu eru svipuð og annarra af A-stofni, sem gegnið hafa um heiminn undanfarin ár. 

Vegna þess, hve þessi flensa er lík öðrum, vekur undrun allur þessi fréttaflutningur af henni og er sá grunur farinn að gera vart við sig, að einhverjir, sem hagsmuna eiga að gæta, þ.e. seljendur lyfja, hreinsiefna og þess háttar, kyndi undir þessari daglegu fréttamiðlun.

Óttast er, að Svínaflensan stökkbreytist og geti orðið að stórkostlegu heilsufarsvandamáli næsta vetur, og því mætti ætla, að fréttirnar ættu ekki að snúast um nánast hvert nýtt tilfelli, heldur dygði að segja af og til frá því, hvort flensan væri ennþá "bara venjuleg", eða hvort hún hafi stökkbreyst og til hvaða ráða verði þá gripið.

En, eins og maðurinn sagði, þegar hann heyrði að nú væru 63 greindir með flensuna:  "Þá smitast ég aldrei, því ég hef aldrei verið talinn greindur."

 


mbl.is Svínaflensa staðfest hjá 63
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Reynt að lappa upp á lélegasta samning Íslandssögunnar

Fyrst eftir að Svavar Gestsson skrifaði undir samninginn um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, hélt Steingrímur J. Sigfússon fjálgar ræður, um hve góður og hagstæður samningur þetta væri fyrir Íslendinga.  Líklega höfðu hinir slyngu samningamenn Breta og Hollendinga talið Svavari og Steingrími trú um þetta og í barnaskap sínum, héldu þeir félagar að þessir vingjarnlegu útlendingar hefðu verið að gera Íslendingum stóran og mikinn greiða, af eintómri manngæsku.

Eftir því sem frá líður og "samningurinn" verið lesinn, kemur æ betur í ljós, að þetta er versti og óhagstæðasti "samningur" sem vélaður hefur verið inn á Íslendinga, allt frá upphafi byggðar í landinu.  Meira að segja Steingrímur J. er hættur að mæra samninginn og Alþingi leitar nú allra leiða til að fella samninginn, án þess að fella hann beint í alvöru atkvæðagreiðslu.  Í Svavari heyrist ekkert meira, enda ekki víst að hann nenni að hugsa lengur um málið, eins og hann orðaði það sjálfur í Moggaviðtali.

Í fréttinni kemur fram að:  "Talið er að þeir fyrirvarar sem settir verða við samkomulagið jafngildi nýjum samningi. Þá er talið ólíklegt að viðsemjendurnir fallist á lánveitingar til Tryggingasjóðs innstæðueigenda þar sem ábyrgð ríkisins verði svo takmörkuð."

Fyrirvararnir eiga greinilega að verða til þess að Bretar og Hollendingar lýsi samninginn ógildan og semja þurfi upp á nýtt. 

Skýrara getur álit Alþingis ekki verið á þessu samningarugli Svavars og Steingríms J.

 

 


mbl.is Fyrirvarar um greiðsluþak og hve lengi verður borgað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 6. ágúst 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband