5.8.2009 | 16:01
Ráðherrar hvetja til lögbrota
Yfirgengilegar lánveitingar bankanna til tengdra aðila, eins og fram hefur komið nú síðast í Kaupþingslekanum og áður með lekum úr Glitni og Landsbanka, gengur algerlega fram af fólki og sýna í hverskonar óraunveruleikaheimi banka- og útrásarglæframenn lifðu. Þeir héldu því ávallt fram, að "velgengni" þeirra væri svo mikil vegna þess hversu miklir snillingar þeir sjálfir væru. Miðað við "svargreinar" sumra þeirra í fjölmiðlum, eru þeir sömu skoðunar ennþá, það var eingöngu lélegur seðlabanki og ótrúleg óheppni sem varð þeim að falli.
Burtséð frá firringu og spillingu banka- og annarra fjárglæframanna, þá er algerlega óþolandi, að ráðherrar og þingmenn hvetji til lögbrota í "þágu almannahagsmuna", eins og þeir hafa verið að gera síðustu daga. Ef lög um bankaleynd, eða hver önnur lög, eru úreld eða gölluð, ber Alþingi að breyta slíkum lögum, en alls ekki eiga þingmenn og ráðherrar að hvetja fólk til þess að taka einfaldlega lögin í sínar hendur. Almenningur á rétt á að fá allar þær upplýsingar, sem lög leyfa, enda koma þær væntanlega allar fram við réttarhöld, sem örugglega verða vegna þessara mála.
Dómstóll götunnar á ekki að hafa síðasta orðið og sakamál á ekki að reka fyrir honum.
Að forsætisráðherra og reyndar aðrir ráðherrar, hvetji til lögbrota, eða verji þau, er engri þjóð bjóðandi.
![]() |
Þurfa breyttar reglur um bankaleyndina |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
5.8.2009 | 14:44
Blóðugur niðurskurður
Búlgaría, eins og önnur lönd í Evrópu, ekki síst í Austur-Evrópu, berst við kreppuna og ekki hjálpar ESB aðildin og Evrutengingin í þeirri baráttu. Fjármálaráðherra Búlgaríu, Simeon Djankov, segir að brúa þurfi fjárlagahalla, að upphæð 200 milljarða íslenskra króna og ætlar á seinni hluta þessa árs að skera niður ríkisútgjöld um helming þeirrar upphæðar og hinn helminginn á að innheimta með sköttum og tollahækkunum.
Það er athyglisvert að upphæðin sem Búlgarar virðast ætla að skera niður hjá sér, er nánast sú sama og er á fjárlögum Íslands, og Íslendingar hafa samið við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, að verði jafnaður á þrem næstu árum.
Munurinn er hins vegar sá, að Búlgarar eru um þrjátíu sinnum fjölmennari en Íslendingar, eða um níu milljónir, en Búlgaría er hins vegar litlu stærri að flatarmáli en Ísland.
Ef Búlgarar kalla brúun 200 milljarða króna fjárlagahalla, blóðugan niðurskurð, hvaða orð nær þá yfir ríkissjóðshallann á Íslandi og niðurskurðinn, sem þarf til að slétta hann út?
Í þessu sambandi er eingöngu verið að ræða um rekstrarhalla ríkissjóðs, en íslenskir ráðherrar segja að það sé ekkert mál fyrir þjóðina að bæta við sig Icesave skuldum Landsbankans.
Skyldu íslensku ráðherrarnir ekki vera alveg í takti við raunveruleikann?
![]() |
Blóðugur niðurskurður í Búlgaríu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
5.8.2009 | 10:18
Alþjóðlega samvinnu um rannsókn
Serious Fraud Office, breska rannsóknarembættið um alvarleg svik, hefur nú hafið sjálfstæða rannsókn á íslensku bönkunum og þá væntanlega aðallega á starfsemi þeirra í Bretlandi. Fram kemur í fréttinni, að rannsóknin hafi hafist fyrir nokkrum mánuðum, en verði nú stórefld, eftir lekann úr lánabók Kaupþings. Á Íslandi virðist eiga að leggja áherslu á að finna út, hver lak upplýsingunum, en minni áhugi sé á, að rannsaka upplýsingarnar sjálfar. Vonandi hefur þó lánabókin verið til rannsóknar hjá Sérstökum saksóknara undanfarna mánuði, þó engar upplýsingar fáist um það, frekar en annað, sem til skoðunar er þar og hjá Fjármálaeftirlitinu.
Í fréttinni kemur fram að Sérstakur saksóknari hafi fyrst frétt af bresku rannsókninni í fjölmiðlum og ekki hafi verið haft samband við hans embætti vegna hennar. Athyglisvert er, ef íslensku rannsóknarembættin hafa ekki sett sig í samband við allar hugsanlegar stofnanir í heiminum, sem mögulega gætu aðstoðað við rannsókn á einu stærsta fjárglæframáli veraldarsögunnar.
Það hlýtur að vera lágmarkskrafa, að allar rannsóknar- og leyniþjónustustofnanir, sem mögulegt er að geti aðstoðað og aflað upplýsinga um fjölþjóðlegan köngulóarvef íslenskra fjárglæframanna, verði nýttar í þessu skini.
Hafi það ekki þegar verið gert, er ekki eftir neinu að bíða lengur.
![]() |
Rannsaka íslensku bankana |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 10:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)