31.8.2009 | 17:25
Forsetinn brúi dal milli þings og þjóðar
Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, sendi frá sér yfirlýsingu í tólf liðum, sem endaði svo:
"10. Það verður best gert með því að þjóðin fái í hendur þann rétt sem henni er veittur í stjórnarskrá lýðveldisins og meti lagafrumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu.
11. Ég hef því ákveðið í samræmi við 26. grein stjórnarskrárinnar að staðfesta ekki lagafrumvarp um breytingu á útvarpslögum og samkeppnislögum og vísa því á þann hátt í dóm þjóðarinnar. Samkvæmt stjórnarskránni skal sú þjóðaratkvæðagreiðsla fara fram svo fljótt sem kostur er."
12. Í ákvörðun minni felst hvorki gagnrýni á Alþingi né á ríkisstjórn og ekki heldur efnisleg afstaða til laganna sjálfra. Eingöngu sú niðurstaða að farsælast sé fyrir okkur Íslendinga að þjóðin fái tækifæri til að kveða upp sinn dóm. Við búum að stjórnskipan, þar sem forseti Íslands og aðrir kjörnir fulltrúar sækja vald sitt og umboð til hennar. Þjóðin hefur samkvæmt stjórnarskránni síðasta orðið."
Við fyrstu sýn, gæti þetta verið yfirlýsing vegna laganna um ríkisábyrgð á Icesaveskuldum Landsbankans, en svo er ekki, því þessi einstaka ákvörðun hans er frá 2. júní 2004 og var gefin út í tilefni af samþykkt fjölmiðlalaga, og má sjá ritsmíðina í heild sinni, hérna
Miðað við ríkisábyrgðina, nýsamþykktu, vegna skulda Landsbankans, voru fjölmiðlalögin smámál, en vegna vináttu sinnar við Bónusveldið, framkvæmdi Ólafur Ragnar þann einstaka gjörning, að neita lögum frá Alþingi staðfestingar. Hafi honum fundist að gjá væri milli þings og þjóðar í því smámáli, hlýtur hann að meta það svo, að heill dalur sé til að brúa milli þings og þjóðar nú.
Ólafur Ragnar getur notað textann frá 2004 lítið breyttan, við höfnun sína vegna ríkisábyrgðarinnar.
![]() |
Hvattur til að synja Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
31.8.2009 | 16:10
Erfið staða Íbúðalánasjóðs
Útlit er fyrir að Íbúðalánasjóður tapi 3,5 milljörðum króna á gjaldþrotum Spron og Straums og kemur þá þetta tap til viðbótar við útlánatöp sjóðsins sjálfs, sem hljóta að vera töluverð, án þess að það komi sérstaklega fram í fréttinni.
Eigið fé Íbúðalánasjóðs var í júnílok að upphæð 13.748 milljarðar króna, en við þetta lækkar það í 10.248 milljarða, eða lækkar úr 4,3% í 3,2%, sem verður að teljast stórhættulega lítið hlutfall. Markmið Íbúðalánasjóðs er að þetta hlutfall sé yfir 5%, þannig að eftir þessa afskrift vegna þessara banka, vantar tæpa sex milljarða króna til að ná því markmiði. Miðað við bókfærðan hagnað á fyrstu sex mánuðum ársins 2009 og engin frekari útlánatöp, mun það taka sjóðinn meira en sex ár, að ná 5% markinu.
Nýendurreistu bankarnir miða við að eiginfjárhlutfall verði að minnsta kosti 12%, þannig að 3,2% eiginfjárhlutfall Íbúðalánasjóðs hlýtur að vera hreint skelfilega lágt í því ástandi, sem nú ríkir í fjármálum heimila landsins og þeirri tapáhættu, sem sjóðurinn er í vegna útlána.
Þetta er vandamál, sem ríkisstjórnin ætti að hafa meiri áhyggjur af, en sölu á minnihluta hlutafjár í HS Orku.
![]() |
Íbúðalánasjóður tapar á gjaldþrotum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
31.8.2009 | 13:39
Farsæl lausn
Samkeppnisstofnun úrskurðaði að Orkuveita Reykjavíkur mætti ekki eiga stærri hlut en 10% í HS Orku, en áður hafði OR gert samning við Hafnafjarðarkaupstað um kaup á hlut kaupstaðarins í fyrirtækinu. OR vildi losna undan samningnum við Hafnfirðingana, en þeir knúðu söluna til OR í gegn, samt sem áður og settu þar með OR í þá stöðu, að verða að finna kaupanda að eignarhlutnum með öllum ráðum.
Aðeins eitt tilboð barst í eignarhlutinn, þ.e. frá kanadíska fyrirtækinu Magma Energy, og verður því að öllum líkindum tekið, eftir að Steingrímur J. gafst upp á að reyna að ríkisvæða fyrirtækið að nýju, eða réttara sagt, að reyna að ríkisvæða lífeyrissjóðina í þessum tilgangi.
Ríkissjóður á fullt í fangi með þau fyrirtæki, sem hann neyðist til að yfirtaka í því efnahagsástandi, sem nú ríkir, þó ekki sé verið að kaupa upp fyrirtæki fyrir tugi milljarða, sem einkaaðilar hafa áhuga og getu til að reka.
Aldrei hefur verið brýnna, en einmitt nú, að laða erlenda fjárfestingu til landsins og ef þessi viðskipti verða til að vekja athygli einhverra erlendra fjárfesta á landinu og möguleikunum hérlendis, verður þessi sala til mikils góðs.
![]() |
Magma fær hlut Orkuveitunnar í HS Orku |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
31.8.2009 | 10:08
Svíar alltaf til fyrirmyndar
Nú berast þær fréttir frá Svíaríki, að setja eigi nýjar reglur um vinnupásur þar í landi, eða eins og segir í fréttinni: "Frá og með 1. maí næstkomandi mega opinberir starfsmenn hjá Stokkhólmsborg ekki reykja í vinnutímanum. Þeir mega hins vegar reykja í hádegishléinu þar sem það er ekki greiddur vinnutími."
Þar sem alltaf má treysta á Svía í góðu fordæmi, hljóta þeir fljótlega að banna ýmislegt fleira, þar sem það er ekki greiddur vinnutími. Nokkur atriði, sem hljóta að koma fljótlega til skoðunar eru t.d: Klósettferðir, símtöl til mömmu, pabba, eiginkonunnar, eiginmannsins, barnanna og ömmu, allar verslana- og bankaferðir, eða yfirleitt allar persónulegar hugsanir og allt annað, hverju nafni sem nefnist, sem ekki telst til nauðsynja fyrir greiddan vinnutíma.
Hér eftir verður allt, nema vinnan sjálf, framkvæmt í hádegishléinu, þar sem það er ekki greiddur vinnutími. Allir geta séð hvílíkur sparnaður felst í svona ráðstöfunum, enda á fólk auðvitað ekki að vera að slóra neitt í vinnutímanum.
Þetta eru menn búnir að uppgötva víðar en í Svíþjóð, en illar tungur kalla slíkt fyrirkomulag barnaþrælkun, eða öðrum slíkum ónefnum, en Svíar hafa auðvitað ekki áhyggjur af slíku.
Í Svíþjóð ríkir norrænt velferðarkerfi.
![]() |
Reykpásur bannaðar |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)