AGS stundar ekki efnahagsaðstoð

Nú er endanlega komið í ljós að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki með fulltrúa hér á landi til þess að aðstoða við efnahagsuppbyggingu landsins, heldur hefur hann nú afhjúpað sig sem pólitískan handrukkara fyrir Breta og Hollendinga.

Fulltrúar sjóðsins hafa marg lýst því yfir, að Icesave deilan sé AGS óviðkomandi og að afgreiðsla þess máls væri algerlega ótengt endurskoðun efnahagsáætunarinnar, sem taka átti fyrir á mánudaginn 03/08 n.k.  Nú, á síðustu stundu er tilkynnt, að búið sé að taka Ísland út af dagskrá sjóðsins og málið verði í fyrsta lagi skoðað aftur í ágústlok.

Sá armi skúrkur, Davíð Oddsson, barðist eins og hann hafði afl til, á móti því að leitað yrði aðstoðar AGS, en var ofurliði borinn af ráðherrum Samfylkingarinnar, sem ærðust í hvert sinn sem þeir heyrðu nafn hans nefnt og vildu alltaf framkvæma þveröfugt við það, sem hann lagði til.  Nú er komið í ljós, að betra hefði verið að komast aldrei í félagsskap þessara spariklæddu handrukkara.

Grípi Bretland, Holland og Norðulöndin til nýrra efnahagsþvingana gegn Íslendingum, verður að taka á móti þeim af fullri hörku og engri undanlátssemi.  Til eru önnur ríki, sem hægt væri að leita til, bæði með viðskipti og aðra fyrirgreiðslu.

Ætli að það færi ekki um ESB, ef Ísland tæki upp nánið samstarf og efnahagssamvinnu við Kína.  Kínverjar hafa sjálfsagt ekki minni áhuga á aðgangi að norðurslóðum en Evrópumenn.


mbl.is Afgreiðslu AGS frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hrópandi atkvæðamisvægi

Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu hefur skilað skýrslu um alþingiskosningarnar í maí og setur fram ýmsar ábendingar, ekki síst um misvægi atkvæða, en samkvæmt tilmælum Evrópuráðsins ætti ekki að vera meira en 10% misvægi atkvæða og alls ekki meira en 15% í undantekningatilfellum.

Í skýrslunni segir hinsvegar:  "Í kosningunum í maí hafi hins vegar verið samanlagt um 50% fleiri skráðir kjósendur á bak við hvert þingsæti í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur og í Suðvesturkjördæmi en í hinum kjördæmunum þremur. Munurinn á milli Suðvestur- og Norðvesturkjördæmis hafi verið hvað mestur, eða um 100%."  Þetta misvægi atkvæða hefur lengi valdið deilum, sérstaklega milli höfuðborgar- og landsbyggðarbúa, en hefur verið afsakað með því að þetta kerfi stuðli að jöfnuði milli stjórnmálaflokka, en auðvitað ætti markmiðið að vera, að stuðla að jöfnuði milli kjósenda. 

Nú er mest áhersla lögð á að kjósendur fái sjálfir að raða frambjóðendum á kjörseðlum, en miklu brýnna væri að leiðrétta atkvæðamisvægið og næst það sjálfsagt ekki, nema með því að gera allt landið að einu kjördæmi.  Sú nefndaglaða ríkisstjórn, sem nú situr, ætti að skipa nefnd í málið eigi síðar en strax.

Einnig víkur eftirlitsstofnunin að eignarhaldi fjölmiðla og telur það ekki vera nógu dreift.  Af því tilefni gefur stofnunin út svohljóðandi álit á því máli:  "Því gæti lagasetning sem takmarki eignarhald komið til greina á ný."

Skyldi Eftirlitsstofnun Evrópu ekki hafa hugmynd um hver gegnir forsetaembættinu á Íslandi?

 

 


mbl.is Atkvæðavægi átalið af eftirlitsnefnd ÖSE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnin lofaði styrkingu krónunnar - oft

Þegar Davíð Oddson var rekinn úr Seðlabankanum, var það sagt vera til að auka tiltrú heimsbyggðarinnar á Seðlabankanum og íslensku hagkerfi og brottreksturinn væri alger forsenda þess að vextir myndu lækka hratt og gengi krónunnar styrkjast hratt og mikið.

Þann 27. febrúar s.l. stóð gengisvísitalan í 186,95 stigum og þótti alltof há, enda sagði ríkisstjórnin þá og ítrekað síðan, að eitt helsta markmið ríkisstjórnarinnar væri að styrkja krónuna verulega.  Nú er gegnisvísitalan 236,22 stig og þar með hefur krónan veikst um 26,35% síðan stjórnin fór að vinna af öllu sínu afli að því að auka traustið á Seðlabankanum og hagkerfinu í heild.  Á sama tíma hefur lánshæfismat ríkissjóðs fallið niður í næsta flokk fyrir ofan ruslflokkinn og þar með er úti um þá von, að nokkur erlend lánastofnun muni treysta sér til að lána nokkrum íslenskum aðila á næstu árum.

Kjósendur, sem treystu þessari ríkisstjórn til þess að vinna að styrkingu krónunnar og þar með lækkun erlendra húsnæðislána, sitja nú uppi með það að hafa t.d. skuldað 30.000.000 krónur í endaðan febrúar, en skulda nú tæpar 38.000.000 króna.  Höfðu þó þessi erlendu lán hækkað mikið frá því að þau voru tekin og til loka febrúar s.l.

Síðast lofaði ríkisstjórnin því að gengi krónunnar myndi fara að styrkjast daginn sem umsóknin um aðild að ESB yrði samþykkt.  Síðan hefur gengið lækkað um 1,70%.

Vonandi verða loforð ríkisstjórnarinnar ekki mikið fleiri.


mbl.is Evran aldrei dýrari á árinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spánverjar þekkja ESB

Í leiðara hins virta spænska dagblaðs El País, koma fram margar athyglisverðar skoðanir vegna umsóknar Íslands um aðild að ESB.  Spánverjum líður ekki vel í ESB um þessar mundir, enda segir blaðið:  "að beiðni Íslands um inngöngu í ESB staðfesti að það sé eftirspurn eftir ESB og að það líti betur út utan frá en innan frá."  Ekki koma þessi orð frá Íslendingum, sem andvígir eru aðild að ESB, heldur beint úr herbúðum aðildarlands að sambandinu.

Blaðið segir það sama og Evrópuráðherra Frakka sagði í gær, að ef Írar fella Lissabon sáttmálann, verði engin ríki tekin inn í ESB á næstu árum, eða áratugum.  Enn geta Íslendingar leyft sér að treysta á Íra í þessu efni, en vonin er þó veik, vegna gífurlegs áróðurs af hálfu ESB í Írlandi.

El País telur að umsókn Íslands sé drifin áfram af óðagoti og ótta vegna bankahrunsins og kreppunnar, en það sé ekki það versta við umsóknina, heldur „...að meirihluti þingsins sem styður umsóknina er allur úr einum flokki sem kallar hugsanlega á efasemdarmenn um ESB frá þessu landi í framtíðinni. ESB er ekki sjálfstæð björgunarsveit eða trúfélag."  Þetta síðasta þyrftu sérstaklega Samfylkingarmenn að taka til sín.

Þetta er raunsannur boðskapur frá marktækum aðila, sem þekkir innviði ESB.


mbl.is Vilja meiri samhug Íslendinga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villandi skoðanakönnun

Fréttablaðið, sem styður aðild að ESB með ráð og dáð, gerði skoðanakönnun þann 28. júlí s.l., með spurningunni:   "Ert þú fylgjandi aðildarviðræðum við Evrópusambandið?"  Spurningin, með þessu villandi orðalagi, er borin fram viku eftir að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að ESB.

Ef spurningin hefði verið heiðarlega orðuð, t.d:  "Ert þú fylgjandi að Ísland gangi inn í ESB?" er nánast víst, að niðurstöður könnunarinnar hefðu orðið aðrar.  59% landsmanna svara spurningu Fréttablaðsins játandi, enda er vitað, að mjög margir halda að þessar viðræður snúist um það, hvað sé í boði fyrir Íslendinga, en séu ekki í raun alvöruviðræður um inngöngu Íslands í ESB.

Mogginn, eins og aðrir ESB miðlar, grípur þessa niðurstöðu á lofti og birtir hana, eins og stóran sannleik um áhuga Íslendinga á að ganga inn í stórríki framtíðarinnar í Evrópu. 

Þetta er villandi fréttaflutningur af villandi skoðanakönnun og engum fréttamiðli sæmandi.

Bíða verður eftir óháðri könnun um raunverulegan vilja þjóðarinnar til inngöngu í ESB.


mbl.is Meirihluti styður viðræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 30. júlí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband