24.7.2009 | 16:49
Dýr myndi Hafliði allur
Upp er komin deila milli Steingríms J., fjármálajarðfræðings, og Ragnars Hall, hæstaréttarlögmanns, um hvort Svavar Gestsson, samningatæknir, hafi samið við Breta og Hollendinga um lögfræðikostnað þeirra vegna ríkisábyrgðarinnar á Icesave skuldum Landsbankans.
Ragnar sagði að lögfræðikostnaðurinn sem félli á Íslendinga næmi um tveim milljörðum króna, en Steingrímur segir að ekkert sé minnst á lögfræðinga í samkomulaginu, einungis hafi verið samið um að greiða kostnað vegna útborgunar innistæðanna, annarsvegar tíu milljónir punda og hinsvegar sjömilljónir Evra, en það eru á gengi dagsins í dag 3.344.270.000 - þrjúþúsundþrjúhundruðfjörutíuogfjórarmilljónirogtvöhundruðþúsund - krónur. Nokkuð stór upphæð þetta.
Hver innistæðueigandi mun eiga að fá greiddar tæpar 3,8 milljónir króna að hámarki og að sögn Steingríms eru þeir um 350.000 talsins. Kostnaður Íslendinga fyrir hvern innistæðueiganda er því tæpar tíu þúsundir króna og verður það að teljast ríflegt á hverja útborgun.
Hvort sem hér er um lögfræðikostnað að ræða eða einhvern annan kostnað, verður hann að teljast meira en ríflegur. Sú fullyrðing Steingríms að krafa verði gerð um þennan kostnað úr þrotabúi Landsbankans, er lítils virði, því hún endar á ríkissjóði hvort sem er, þar sem eignir Landsbankans í Englandi duga ekki fyrir Icesave kröfunum, hvað þá þessum viðbótarkostnaði.
það hefði verið hægt að ráða 300 íslenska sérfræðinga í þetta verk í heilt ár, á forsætisráðherralaunum og öllum hefði þótt það dýrt.
![]() |
Ekki minnst á lögfræðikostnað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 16:52 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
24.7.2009 | 13:55
Leyniviðræður Ingibjargar Sólrúnar
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur nýlega lýst undrun sinni á því að ESB skyldi ekki koma beint að samningnum um ríkisábyrgð á Icesave skuldum Landsbankans, en um það hefði hún sjálf verið búin að semja í nóvember s.l. Hún greindi hins vegar ekkert frá innihaldi þess samkomulags og ekki hafa fjölmiðlamenn heldur gengið eftir þeim upplýsingum, enda afar sjaldgæft að þeir sjái "fréttapunkta" í málum, heldur virðast þeir frekar láta mata sig á því, sem framámenn vilja að komist í hámæli.
Það sem er athyglisvert við þessa yfirlýsingu Ingibjargar Sólrúnar er, að á sama tíma rauk hún til, öllum að óvörum, og krafðist þess, að Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti að ganga í ESB, annars yrði stjórninni slitið. Í ljósi orða Ingibjargar Sólrúnar, verður að gera kröfu til þess, að upplýst verði hvort samhengi sé milli kröfunnnar á hendur Sjálfstæðisflokksins og samkomulags um að ESB kæmi beint að samningum um Icesave.
Af einhverjum dularfullum ástæðum leggur Samfylkingin ótrúlega mikla áherslu á samþykkt beggja málanna, þ.e. ríkisábyrgðina og umsóknina um aðild að ESB, þrátt fyrir að segja að málin séu ótengd.
Í þessu opna og gagnsæja stjórnkerfi, þar sem allt er uppi á borðum, yrðu fjölmiðlamenn fljótir að fá botn í þetta mál.
![]() |
Rýnir í gögn vegna Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
24.7.2009 | 10:47
Krónan hjálpar - Evran ekki
Seðlabankinn spáir tiltölulega hröðum hagvexti í kjölfar kreppunnar, sem er auðvitað forsenda þess, að landið komist nokkurn tíma upp úr kreppunni. Ef ekki verður hagvöxtur, verður kreppa áfram. Það þarf ekki stjarneðlisfræðinga til að sjá það.
Annað sem er athyglisverðara í áliti Friðriks Más Baldurssonar, prófessors í hagfræði og fulltrúa í bankaráði seðlabankans, er það sem hann segir um hvernig krónan sé og verði bjargvættur þjóðarinnar á leið sinni út úr kreppunni. Hann segir t.d: "Það væri sérlega athyglisvert að Ísland sé eitt fárra landa í OECD þar sem utanríkisviðskipti draga úr niðursveiflunni. Áhrifin af veiku gengi krónunnar skipti hér mestu. Samdrátturinn á Írlandi er töluvert miklu snarpari heldur en hér. Þótt mörgum sé illa við krónuna, þá dempar hún niðursveifluna. "
Á Írlandi, sem er með Evruna, er snarpari samdráttur en á Íslandi, sem hefur sína Krónu og varð fyrir algeru bankahruni, sem Írland lenti ekki í. Að sögn Friðriks er Ísland eitt fárra landa innan OECD, þar sem útflutningur dregur úr niðursveiflunni, einmitt vegna eigin gjaldmiðils Íslands. Hefðu Íslendingar búið við Evruna við efnahagshrunið, væri ástandið hérna ennþá verra en það er núna, samanber Írland, að ekki sé talað um Lettland, þar sem allt er í rúst vegna tengingar Latsins við Evruna.
Enn og aftur geta Íslendingar þakkað fyrir sinn sjálfstæða gjaldmiðil.
![]() |
Hraður vöxtur eftir kreppu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.7.2009 | 09:07
Kærir norrænir vinir
"Vinaþjóðir" Íslands, ekki síst á norðurlöndunum keppast við að afneita tengingu aðildarumsóknar Íslands að ESB og afgreiðslu Alþingis á ríkisábyrgð vegna Icesave skulda Landsbankans, en beita síðan öllum brögðum á bak við tjöldin og jafnvel opinberlega, til að herða þumalskrúfuna á Íslendingum.
Fyrir nokkrum dögum bárust þær fréttir að Evrópski fjárfestingabankinn hefði neitað að afgreiða áður lofað lán til Orkuveitu Reykjavíkur til atvinnuuppbyggingar á Reykjanesi og nú tilkynnir Norræni fjárfestingabankinn, að hann sé hættur að lána til framkvæmda á Íslandi. Þetta eru þó þær lánastofnanir, sem ætla hefði mátt að myndu síðastar allar taka þátt í því efnahagslega stríði, sem Evrópuþjóðirnar heyja núna gegn Íslendingum.
Fulltrúi Norræna fjárfestingabankans er þó það heiðarlegur, að hann segir það umbúðalaust, að þessi ákvörðun bankans sé þáttur í stríðinu, því hann segir að ákvörðunin verði endurskoðuð, samþykki Íslendingar Icesavekúgunarsamninginn. Áður var ákvörðunin réttlætt með lánatapi NBI til Íslands, en það tap minnkar væntanlega ekkert við það eitt að Ísland skrifi undir uppgjafaskilmála Breta og Hollendinga vegna Icesave.
Ekki ber enn á því aukna trausti á Íslandi, sem Samfylkingin lofaði, með aðildarumsókninni að ESB, einni saman.
![]() |
Hættir að lána Íslendingum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)