VG að fella ríkisstjórnina?

Nú er greinilegt að það á að draga afgreiðslu ríkisábyrgðar á Icesave skuldum Landsbankans fram á haust, til þess að reyna að halda lífi í ríkisstjórninni sem lengst.  Vitað er að nokkrir þingmenn Vinstri grænna hafa lýst yfir andstöðu við málið og varla dettur nokkrum manni í hug í alvöru, að stjórnarandstaðan á þingi fari að samþykkja þessa nauðungarsamninga.

Steingrímur, fjármálajarðfræðingur, segir að ekki sé hægt að leggja málið fyrir þingið fyrr en í næstu viku, vegna þess að beðið sé frekari álita frá lögfræðingum.  Hefði ekki verið nær að fá álit færustu lögspekinga áður en skrifað var undir nauðungarplaggið og hefði ekki líka verið nær að hafa einhverja lög- og þjóðréttarfræðinga í samninganefndinni?

Einnig segir Steingrímur, að engin lán fáist erlendis frá, nema ríkisábyrgðin verði samþykkt.  Það væri varla til of mikils mælst, í nafni gagsæis og opinnar stjórnsýslu, að hann leggði spilin á borðið og skýrði fyrir þingi og þjóð, hverjir hafi hótað Íslendingum og hverju hafi verið hótað.  Þetta verður að upplýsa.

Steingrímur kórónar ruglið með því að segja að það væri ábyrgðarleysi af Sjálfstæðismönnum að fella ríkisstjórnina, með því að greiða atkvæði gegn hörmungarsamningnum.

Honum væri nær að ræða nánar við "stuðningsmenn" sína í Vinstri grænum um framtíð ríkisstjórnarinnar.


mbl.is Strandi Icesave, strandar allt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Afþreying fjármálamógúla

Í hádegisfréttum RUV kom fram að ekkert sæti eftir í félaginu Íslensk afþreying hf., nema skuldir, og það engar smáskuldir, eða fimm milljarðar króna.  Þessar fimm milljarða króna skuldir sitja eftir í félaginu eftir að allar eignir þess hafa verið seldar.

Ekki hafa fengist upplýsingar um hvert söluverðið var til Rauðsólar ehf., sem breyttist í Sýn ehf. né söluverð annarra fyrirtækja sem seld voru til Garðarshólma og hvorki verð né hver kaupandi var að EGF hf.  Jón Ásgeir Jóhannesson, fjármálafursti og besti vinur barnanna, átti allt kompaníið og keypti af sjálfum sér fjölmiðlahlutann, sem nú er rekinn undir nafni Sýnar ehf.  Fróðlegt væri að vita hverjir standa að þeim félögum sem keyptu allt annað út úr rekstri Íslenskrar afþreyingar hf.

Að skilja svo skuldirnar eftir í félagi með nafninu Íslensk afþreying hf., er náttúrlega hrein snilld og nafnið afar táknrænt fyrir gjörðir þessara fjármálamógúla.

Þeirra helsta afþreying er að hirða eignir og skilja skuldir eftir handa öðrum að borga.

Þeir hljóta að skemmta sér konuglega við þennan leik.


mbl.is Íslensk afþreying gjaldþrota
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Veik króna - veikari stjórn

Forgangsmál núverandi ríkisvinnuflokks, undir stjórn Jóhönnu, ríkisverkstjóra og Steingríms, fjármálajarðfræðings, átti að vera að styrkja gengi krónunnar, lækka stýrivexti, koma atvinnulífinu í gang á ný og mynda tjaldborg (afsakið, skjaldborg) um heimilin í landinu.

Nú er þetta eitthvað breytt, því nú er það eina sem getur bjargað þjóðinni og atvinnulífinu, að samþykkja ríkisábyrgð á Icesave skuldir Landsbankans, því verði það ekki gert munu allir vinir yfirgefa okkur og þar á meðal "vores nordiske venner".  Þegar búið verður að samþykkja skuldaklafann vegna Icesave, mun á ný hefjast söngurinn um að eina bjargráð þjóðarinnar verði að ganga í ESB, því annars munu Íslendingar verða algerlega vinalausir og jafnvel tapa "vores nordiske venner".

Nú er alveg hætt að tala um að styrkja krónuna, eða eins og verkstjórinn lætur hafa eftir sér:  "Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir viðbúið að íslenskt efnahagslíf þurfi að búa við veika krónu og háa stýrivexti. Aðgerðir stjórnvalda á sumarmánuðum muni miða við að skapa aðstæður fyrir frekari lækkun stýrivaxta"

Fréttamönnum dettur ekki í hug að spyrja um öll fyrri fyrirheit og forgang.  Ekki dettur þeim heldur í hug að krefjast skýringar á því, hvernig umsókn um aðild að ESB eigi að styrkja krónuna, enda er verkstjórinn látinn komast upp með þessa fullyrðingu;  „Mín skoðun er samt sú að við munum um einhvern tíma, kannski of langan, búa við of veika krónu og svarið við því er bara eitt, að sækja um aðild að Evrópusambandinu,“ segir Jóhanna."

Ef ekki væri vitað um ESB áhuga flestra fréttamanna, gæti sá grunur vaknað að þeir nenntu ekki að spyrja frekar út í þetta.

Líklega vegna þess að þeir vita að svarið er alltaf eins og algerlega innantómt.


mbl.is Hærri skattar og veik króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 26. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband