Steinum kastað úr glerhúsi

Margrét Kristmannsdóttir, tiltölulega nýkjörinn formaður Samtaka verslunar og þjónustu, segir Alþingi til syndanna, vegna lýðræðislegrar umræðu um aðildarumsókn að ESB.  Meðal annars segir hún:  „Alþingismenn þurfa að taka sig saman í andlitinu og snúa bökum saman, eins og við sem erum í fyrirtækjarekstri höfum gert, við setjumst niður og ræðum málin.  Okkur blöskrar að hafa horft upp á stjórnvöld vikum og mánuðum saman haga sér eins og þau hafa gert þar sem hver höndin er upp á móti annarri.“

Nokkuð er það öfugsnúið, að skammast út í Alþingi, fyrir að rökræða kosti og galla þeirra mála, sem ríkisvinnuflokknum dettur í hug að leggja fyrir þingið hverju sinni.  Í öðru orðinu krefjast menn meira sjálfstæðis Alþingis og í hinu gagnrýna þeir að mál renni þar ekki í gegn, eins og á færibandi.

Það hefði verið alveg stórkostlegt ef Samtök verslunar og þjónustu hefðu ályktað af svona mikilli röggsemi á undanförnum árum um starfsemi félaga sinna í verslunar- og þjónustugreinunum, sérstaklega skuldsetningargleði þeirra og útrásartilburði.  Hefðu samtökin verið jafn vel vakandi þá og ef félagarnir hefðu verið jafn samtaka og einbeittir í sjálfsgagnrýninni, þá hefði jafnvel ekki farið eins illa fyrir íslensku efnahagslífi og raunin varð.

Samþykkt SVÞ er eins og grjótkast úr glerhúsi.

Grjótkastið gerir svosem ekki mikinn usla núna, því húsið er hvort sem er mölbrotið.


mbl.is Blöskrar vinnubrögð Alþingis
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meirihlutinn vill skynsamlega leið

Samkvæmt skoðanakönnun Capacent Gallup, sem gerð var 28/05-04/06, segja 76,3% svarenda að það skipti miklu, eða mjög miklu máli, að fram fari skoðanakönnun um það, hvort sækja eigi um ESB aðild, eða ekki.  Aðeins 17,8% töldu það skipta litlu, eða mjög litlu máli.

Þetta er svo afgerandi niðurstaða, að það væri glapræði af Alþingi að samþykkja aðildarumsókn að ESB, án undangenginnar þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.  Svona mikill meirihluti í þessari könnum gefur talsverðar vísbendingar um, að samningur um inngögnu í ESB yrði felldur í atkvæðagreiðslu þjóðarinnar, eftir undirritun.

Þessi úrslit eru mikið og þungt kjaftshögg fyrir Smáflokkafylkinguna og aðra ESB aðdáendur.

Þessi könnun bergmálar rödd skynseminnar. 

Á þá rödd ætti Smáflokkafylkingin að hlusta, þó ekki væri nema í þessu máli.


mbl.is Meirihluti vill þjóðaratkvæði um aðildarumsókn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly að hætta?

Eva Joly, fyrrum rannsóknardómari, var ráðin, fyrir nokkrum vikum, til aðstoðar sérstökum saksóknara vegna rannsókna á meintum efnahagsbrotum banka- og útrásarmógúla.  Nú kemur hins vegar frétt um að hún hyggist hætta, vegna þess að ekkert tillit er tekið til ráðgjafar hennar, né eftir nokkru farið, sem hún hefur lagt til.  Henni hefur ekki verið sköpuð nokkur aðstaða á Íslandi og engir erlendir sérfræðingar ráðnir, eins og lofað hafði verið.

Hvaða sýndarmennska var þessi ráðning?  Í augun á hverjum var verið að ganga með því að þykjast vera að stórauka rannsóknirnar, með aðstoð erlendra sérfræðinga?  Hvern var verið að blekkja?  Héldu ráðamenn að með ráðningu hennar, yrðu mógúlarnir svo hræddir, að þeir færu að "syngja" hver í kapp við annan, án frekari þrýstings?

Þessum spurningum verða Jóhanna, ríkisverkstjóri, og Steingrímur Jong Sig. að svara.  Við skipan sérstaks saksóknara og ráðningu Evu Joly honum til aðstoðar, ásamt með loforðum um alla þá erlendu sérfræðinga, sem þörf væri á, efldist tiltrú almennings á því, að einhver botn fengist í öll þessi spillingarmál.

Nú verða ráðamenn að taka af sér vettlingana, draga hendurnar upp úr vösunum og bretta ermarnar upp fyrir fingurgóma og standa við stóru orðin.

Almenningur sættir sig ekki við neitt minna.


mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skattpíning framundan

Því hefur lengi verið spáð á þessu bloggi, að vinstri flokkarnir í ríkisstjórn myndu nýta allt sitt skattlagningahugmyndaflug, sem er nánast óendanlegt, til að reyna að skattleggja þjóðina út úr kerppunni.  Það er að segja þeir myndu halda að hægt væri að komast út úr kreppunni með skattpíningu, frekar en sparnaði í ríkiskerfinu.

Þessi spádómur er að rætast, smá saman, og byrjaði sakleysislega með hækkun skatta á eldsneyti, áfengi og tóbak.  Nú boðar Steingrímur Jong Sig., fjármálajarðfræðingur, að erfitt sé að breyta nokkru sem heitið geti í ríkisrekstrinum á miðju fjárlagaárinu, en viðbótargatið, sem stoppa þarf í á þessu ári nemur 20 milljörðum króna.  Fjármálajarðfræðingurinn segir ekki ólíklegt að ná þurfi a.m.k. helmingi þessa með aukinni tekjuöflun.

Sú neysluskattahækkun, sem þegar er komin til framkvæmda, á að skila ríkissjóði 2,7 milljörðum króna á þessu ári, þannig að nú á að hækka skattlagningu til viðbótar um a.m.k. 7,3 milljarða.  Á því sést að gríðarlegar skattaálögur eru framundan á næstu dögum, til að ná skattahækkun um a.m.k. 10 milljarða króna á þeim sex mánuðum, sem eftir lifa árs.

Ekki má gleyma því, að þessir skattar munu halda sér næstu ár og þýða 20 milljarða króna aukaskattlagningu árlega í nánustu framtíð.  Til viðbótar þurfa heimilin og fyrirtækin í landinu að greiða hærra álag á lán sín vegna þess að neysluskattarnir fara beinustu leið inn í vísitöluna.

Hugmyndaauðgi vinstri flokkanna mun búa þessa nýju skatta í ýmsa búninga, svo sem sykurskatt, sælgætisskatt, gosdrykkjaskatt, lúxusvöruskatt o.s.frv., o.sfrv.

Stjórnarflokkana skortir kjark til að taka á útgjaldavandanum, en þeir hafa endalaust þrek og þor til skattahækkana.


mbl.is Ná helmingi með tekjum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 10. júní 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband