Stjórnin að vakna

Hér hefur oft verið bloggað um þann niðurskurð ríkisfjármála, sem bæði er nauðsynlegt að ráðast í og er einnig samningsbundið við AGS að jafnvægi verði náð í síðasta lagi árið 2013.  Því var alltaf spáð, að stjórnin myndi ekki fást til að ræða þetta fyrr en eftir kosningar og reglulegar bloggfærslur alveg frá 11/02 (sem má sjá hér ) hafa litla athygli vakið.  Líklega hefur almenningur alls ekki viljað horfast í augu við þessar staðreyndir fyrr en núna, en ríkisstjórnin hefur auðvitað vitað þetta frá haustdögum 2008, en viljandi haldið þessum upplýsingum leyndum, eftir mætti.

Loksins núna, 25. maí 2009, segir Jóhanna, ríkisverkstjóri:  „Erfitt verður að ná fram verulegri lækkun stýrivaxta, sem er lykilatriði fyrir heimilin og fyrirtækin, nema einnig verði á sama tíma verði gripið til róttækra og sársaukafullra aðgerða í ríkisrekstrinum, með niðurskurði útgjalda og skattabreytingum. 170 milljarða króna halla á rekstri ríkissjóðs verður að eyða fram til ársins 2013."

Í stjórnarsáttmálanum var ekki eitt einasta orð, um hvernig þessum halla skyldi mætt og enn er notast við það almenna orðalag, að þetta verði sársaukafullar aðgerðir, án þess að útskýra það nokkuð nánar.  Ekkert samkomulag mun vera milli ríkisstjórnarflokkanna um niðurskurðinn og því var gripið til þess ráðs að leggja fram tillögu um ESB aðild, til þess að dreifa athyglinni frá þessu grafalvarlega máli.

Ef ekki er hægt að lækka stýrivexti meira, vegna getuleysis stjórnarinnar í efnahagsmálum, mun heimilum og fyrirtækjum halda áfram að blæða og ný búsáhaldabylting mun skella á fyrr en varir.

Nú er tími kominn til, að ríkisstjórnin fari að koma sér saman um aðgerðir, eða koma sér frá.

 


mbl.is Róttækar og erfiðar ákvarðanir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Mikið verk óunnið áður en sótt verður um

Tillaga, um að hefja skuli aðildarviðræður við Evrópusambandið, var lögð fram á Alþingi í dag af Össuri, grínara, og vegna eðli og alvarleika þessa máls, er rétt að birta tillöguna og athugasemdir við hana hér:

 

Þskj. 38  —  38. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

(Lögð fyrir Alþingi á 137. löggjafarþingi 2009.)




    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild að Evrópusambandinu og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Tillaga um aðildarumsókn að Evrópusambandinu er lögð fram til þess að íslenska þjóðin fái tækifæri til að hafna eða samþykkja samning um aðild að sambandinu þegar hann liggur fyrir.
    Umsókn að ESB jafngildir þannig ekki aðild enda er það íslensku þjóðarinnar að komast að endanlegri niðurstöðu hvað hana varðar. Jafnframt verði lagt fram frumvarp til laga um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál sem ríkisstjórn eða Alþingi ákveða að leggja fyrir þjóðina.
    Víðtækt samráð verður haft við hagsmunaaðila um samningsmarkmið fyrir viðræðurnar á ýmsum sviðum, svo sem sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamála, á sviði almannaþjónustu, umhverfis- og jafnréttismála og gjaldmiðilsmála, og leitast við að ná sem breiðastri samstöðu um umræðugrundvöll viðræðnanna. Skoðað verður hvort unnt sé að ná fram samstarfi í gjaldmiðilsmálum samhliða viðræðum um hugsanlega aðild til að styðja við gengi krónunnar. Áhersla er lögð á opið og gagnsætt ferli og reglubundna upplýsingagjöf til almennings og hagsmunaaðila.
    Fagleg viðræðunefnd við ESB verður skipuð af ríkisstjórn Íslands. Henni til fulltingis verður breiður samráðshópur fulltrúa hagsmunaaðila sem nefndin leitar ráðgjafar hjá, og upplýsir jafnóðum um framvindu viðræðna. Ísland sem Evrópuþjóð vill leggja sitt af mörkum við uppbyggingu lýðræðislegrar Evrópu sem grundvallast á félagslegu réttlæti, jafnrétti og virðingu fyrir manngildi og umhverfi. Hlutverk Evrópu er að vera hornsteinn mannréttinda í heiminum og ýta undir stöðugleika, sjálfbæra þróun, réttlæti og velmegun um allan heim.
    Málsaðilar áskilja sér rétt til að mæla með eða leggjast gegn samningnum þegar hann liggur fyrir enda eru settir margvíslegir fyrirvarar við hugsanlegan stuðning við málið.
    Meðal grundvallarhagsmuna Íslands eru:
    *      Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir vatns- og orkuauðlindum og ráðstöfun þeirra.
    *      Að tryggja forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar og hlutdeild í deilistofnum og eins víðtækt forsvar í hagsmunagæslu í sjávarútvegi í alþjóðasamningum og hægt er.
    *      Að tryggja öflugan íslenskan landbúnað á grundvelli fæðuöryggis og matvælaöryggis.
    *      Að tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum.
    *      Að standa vörð um réttindi launafólks og vinnurétt.
    *      Að ná fram hagstæðu og vaxtarhvetjandi samkeppnis- og starfsumhverfi fyrir atvinnulíf á Íslandi um leið og sérstöðu vegna sérstakra aðstæðna er gætt.
    Stefnt er að því að Alþingi setji á fót sérstaka Evrópunefnd Alþingis með fulltrúum allra stjórnmálaflokka er fari með samskipti við viðræðunefnd vegna ESB.

Nokkrar setningar í athugasemdunum eru feitletraðar hér til að sýna að jafnvel grínarinn Össur og ríkisvinnuflokkurinn gera sér grein fyrir því að gífurleg vinna er framundan við að móta samningsmarkmið Íslands í fyrirhuguðum viðræðum.

Samningsmarkmiðin verða ekki tilbúin fyrr en eftir marga mánuði og því hlýtur það að vera brandari (lélegur) að leggja til að sótt verði um aðild og síðan verði farið að leggja niður fyrir sér um hvað á að semja.  Það hljóta allir að sjá, að slíkt væri alveg arfavitlaus vinnubrögð og stækkunarstjóri ESB hlyti að hlæja sig máttlausan við móttöku umsóknarinnar.  Hvað yrði sagt, ef umsóknin yrði send og síðan kæmust menn ekki að samkomulagi um samningsmarkmiðin?

Ef þannig færi, myndu fleiri hlæja en stækkunarstjórinn.


mbl.is ESB-tillaga lögð fram á þingi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Búsáhaldabylting í Borgarahreyfingunni?

Borgarahreyfingin var stofnuð upp úr búsáhaldabyltingunni í vetur og bauð fram lista í Alþingiskosningum í framhaldi af því og uppskar fjóra þingmenn.  Nú, aðeins mánuði eftir kosningar, virðist vera í uppsiglingu búsáhaldabylting innan hreyfingarinnar, eins og sjá má hér

Í frétt RUV kemur fram að:  "Ræða sem Guðmundur Andri Skúlason hélt hleypti hins vegar illu blóði í fundarmenn. Hann kom víða við og sakaði stjórn flokksins um að taka ákvarðanir á bak við luktar dyr. Gagnsæið sem hefði verði aðalmerki flokksins væri ekki lengur til staðar."

Ljótt, ef satt er.  Borgarahreyfingin var stofnuð til að berjast gegn klíkum í öðrum flokkum og með því loforði, að allt yrði opið og gegnsætt hjá hreyfingunni, ólíkt því sem gerðist hjá öðrum.  Nú er svo komið að farið er að berjast um völd og peninga innan hreyfingarinnar og lofar það ekki góðu um framtíðina. 

Þetta eru einnig hlutar úr frétt RUV: 

 "Einn fundarmanna sem fréttastofan ræddi við segir að fundurinn hafi verið svakalegur." 

"Viðmælendur fréttastofu segja að fundurinn í gær sé dæmi um vaxtaverki innan flokksins. Rokið hafi verið til, stofnaður flokkur og boðið fram til kosninga. Þingmenn hreyfingarinnar voru í morgun ekki tilbúnir til að veita viðtöl en von er á yfirlýsingu frá þeim seinna í dag."

Vonandi verða vaxtaverkirnir fljótir að jafna sig svo fundir framtíðarinnar verði ekki jafn svakalegir.

 


mbl.is Átakafundur hjá Borgarahreyfingunni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru verjendur á lausu?

Allir helstu lögfræðingar landsins hafa verið fastir í verjendastörfum fyrir Baugsliðið undanfarin ár og ekki útlit fyrir annað en nóg verði að gera á þeim vígstöðvum mörg ár enn. 

Ólafur Ólafsson, ofsóttur sakleysingi, segir m.a. í yfirlýsingu sinni:   "Ég er þess fullviss að vönduð rannsókn muni leiða í ljós algert sakleysi mitt af þeim ávirðingum sem á mig hafa verið bornar í fjölmiðlum.“

Það er nokkuð klókt, að nota orðalagið "vönduð rannsókn" í þessu samhengi, því ef hann verður ákærður fyrir eitthvað, þá er alltaf hægt að halda því fram að rannsóknin hafi verið óvönduð.  Því var stöðugt haldið fram í Baugsmáli hinu fyrra, að rannsóknin væri óvönduð og gerð af illum hvötum og þar að auki að undirlagi illra innrættra stjórnvalda.  Sá áróður gekk vel í almenning á þeim tíma, en óvíst að það takist jafn vel aftur.

Einnig gefur Ólafur í skyn að sérstakur saksóknari sé að rannsaka "ávirðingar sem á mig hafa verið bornar í fjölmiðlum".  Þessi fullyrðing er auðvitað til að árétta, að rannsóknin sé óvönduð og að undirlagi illra afla í þjóðfélaginu, en ekki að frumkvæði saksóknarans vegna upplýsinga sem koma frá Fjármálaeftirlitinu.

Lögfræðingar Ólafs hljóta að vera farnir að undirbúa vandaða vörn í málinu.

 


mbl.is Rannsókn leiði í ljós sakleysi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 25. maí 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband