Þaulseta

Atli Gíslason, einn af vinnumönnum ríkisverkstjórans, segir stjórnarþingmenn tilbúna að sitja fram að kosningum til þess að hægt verði að afgreiða brýn mál úr þinginu.  Nú eru liðnir tveir mánuðir frá því að stjórnarskipti urðu og nýji ríkisverkstjórinn og vinnuflokkur hennar lofaði að koma alls kyns umbótamálum hratt og vel í framkvæmd.  Ekkert gerðist fyrsta mánuðinn, annað en að fá samþykkt hefndarlögin gegn Davíð Oddssyni og enn þann dag í dag er verið að leggja fram frumvörp, sem samþykkja þarf fyrir kosningar.

Stjórnarþingmenn þyrftu að fara að taka hendurnar úr vösunum og klára áríðandi mál og hætta að hóta þjóðinni því að þeir muni halda ruglinu áfram fram að kosningum.  Það eina góða við það er reyndar að því lengur sem þeir sýna ráðaleysið, því minna fylgi munu þeir fá í kosningunum.

Best sést vandræðagangurinn á því að frumvarpið um stjórnlagaþingið og stjórnarskrárbreytingarnar hefur tekið miklum breytingum frá því að það var lagt fram, aðallega vegna ábendinga Sjálfstæðismanna.  Mikið má nú þakka fyrir að sá frumvarpsbastarður var ekki keyrður í gegnum þingið í upphaflegri mynd sinni.  Forseti Alþingis á að sjá sóma sinn í að forgangsraða málum þingsins nú þegar og þá þarf ekki langan tíma til að afgreiða forgangsmálin.

Þjóðarinnar og þingsins vegna verður þessum skrípaleik að fara að linna.


mbl.is Geta setið fram að kosningum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sprotafyrirtæki

Undanfarið hefur farið fram mikil umræða um að styðja þyrfti vel við bakið á sprotafyrirtækjum, enda gætu þau orðið vísir að atvinnusköpun framtíðarinnar.

Margir virðast hafa misskilið hvað séu sprotafyrirtæki og talið að átt sé við ákveðna plöntusprota og hafa því hafið stórkostlega ræktun á gróðursprotum sem gefa af sér lauf sem talsverð eftirspurn er eftir hér á landi sem annarsstaðar.  Þetta virðast vera öflugustu sprotafyrirtæki landsins um þessar mundir og samkvæmt afköstum lögreglunnar er svona framleiðsla í þriðja til fjórða hverju húsi.

Væntanlega er þessi ræktun tilkomin vegna gjaldeyrisvöntunar til innflutnings, en ekki hugsuð til gjaldeyrissköpunar.  Sparnaður á gjaldeyri er allra góðra gjalda verður á þessum erfiðu tímum.

Framangreint eru nú bara hugleiðingar í tilefni dagsins.

 


mbl.is Enn ein kannabisverksmiðjan stöðvuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leyndarhula vegna AGS

Flestir muna ennþá eftir Steingrími J. rauðum af vonsku leggjandi hendur á mann og annan í Alþingi í haust, þegar rætt var um efnahagsmálin og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þeim.  Þá var krafan sú, að öll mál væru uppi á borðum og almenningi skyldi haldið upplýstum um öll mál.

Nú, eftir að sá sami Steingrímur J., að vísu fölari en hann var oftast í stjórnarandstöðunni, er orðinn fjármálaráðherra er upplýsingum um gögn sem send hafa verið til AGS er haldið leyndum fyrir Fjárlaganefnd Alþingis og almenningur fær alls ekkert að vita.  Samt segir ráðherrann að engin leyndarmál felist í gögnunum.  Eftir hverju er þá verið að bíða með að birta þau?  Almenningur bíður í ofvæni eftir því að fá að vita við hverju er að búast á næstu mánuðum, því óvissan um framtíðarhag fjölskyldnanna er það versta sem plagar landann nú um stundir.

Þegar á allt er litið er ekki hægt að líkja ríkisvinnuflokknum við neitt annað en umskiptingana úr þjóðsögunum.

 


mbl.is Fá ekki öll gögn fyrr en um miðjan mánuð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bloggfærslur 1. apríl 2009

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband